02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í D-deild Alþingistíðinda. (4605)

262. mál, raforkumál

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Um sama leyti og þessi till. til þál. um raforkumál var lögð inn í prentsmiðju, þá sendi ég nokkur eintök af henni til allra þingflokka hér á hinu háa Alþingi og fór þess á leit við þingflokkana, að þeir kynntu sér þetta mál sem bezt til þess að tryggja sem greiðasta afgreiðslu og sem auðveldastar umr. um þetta mál hér í þinginu. Ég vænti þess, að þetta hafi verið gert í þingflokkunum, vegna þess að að minni hyggju er hér um mjög stórvægilegt mál að ræða. Þetta er till. um stefnumörkun, og þessa till. hefur samið og tekið saman fskj., sem henni fylgja, sérstök nefnd, sem ég skipaði um miðjan nóv. s.l., en í henni áttu sæti Jakob Gíslason orkumálastjóri, og var hann formaður, en aðrir nm. voru dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Árni Snævarr ráðuneytisstjóri, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, Jakob Björnsson deildarverkfræðingur og Guðjón Guðmundsson skrifstofustjóri. Þessir menn unnu að þessum málum sem persónulegir ráðgjafar mínir, en ekki sem fulltrúar neinnar þeirrar stofnunar, sem þeir kunna að eiga sæti í.

En ástæðan til þess, að ég taldi nauðsynlegt að marka framtíðarstefnu um þróun raforkumála á Íslandi, er sú, að ég tel, að við séum þar komnir að mjög merkilegum tímamótum. Við höfum fyrr á þessu ári minnzt þess, að 25 ár eru liðin siðan raforkulögin komu til framkvæmda, og rifjað upp, hversu stórfelld þróun hefur orðið á sviði raforkumála á þessu tímabili. Áður en sú löggjöf var sett og sú markvissa forusta tekin upp, sem þar var gert ráð fyrir, þá var þannig ástatt, að aðeins stærstu bæjarfélögin áttu kost á raforku frá vatnsaflsstöðvum, en í minni kaupstöðum voru olíukyntar rafstöðvar. En á þessu tímabili hefur raforkuvinnslan þrettánfaldazt á Íslandi og rafaflið aukizt úr 26.5 megawöttum í 335 megawött. Raforkuvinnslan á mann á Íslandi mun nú vera hin fimmta hæsta í heimi. Við stöndum á því sviði á svipuðu stigi og Svíþjóð og Bandaríkin, aðeins Noregur og Kanada eru þrepi fyrir ofan okkur.

Dreifing raforkunnar er einnig orðin mjög víðtæk hér á landi, og núv. ríkisstj. hefur ákveðið að framkvæma þriggja ára áætlun um rafvæðingu sveita, en að henni lokinni munu aðeins verða um 160 afskekkt býli utan samveitna, en af þeim hafa um 110 einkarafstöðvar. Ég hygg, að óhætt muni að fullyrða, að óvíða og kannske hvergi í heiminum mun dreifing raforku jafnvíðtæk í svo strjálbýlu landi. En þó að við höfum náð þessum mikilvæga áfanga, sem ég hef nú verið að lýsa, þá er það svo, að nýting raforku á Íslandi er enn sem komið er aðeins á byrjunarstigi. Við höfum virkjað innan við 10% af því vatnsafli, sem talið er hagkvæmt að virkja, og ámóta mikil orka er talin fólgin í jarðhitasvæðunum á Íslandi, og þar er nýtingin ámóta mikil. Þarna eru því afar mikil verðmæti, sem þjóðin þarf að nýta til iðnþróunar, ef hún á að halda til jafns við önnur og margfalt fjölmennari þjóðfélög.

Sú kenning heyrðist um skeið, að hætta væri á, að þessar orkulindir yrðu okkur ónýtar vegna kjarnorkurafstöðvanna og því yrðum við að flýta okkur að koma þeim í verð, jafnvel hvaða kostir sem byðust. Reynslan hefur nú afsannað þessa kenningu. Raforkuverð á heimsmarkaði hefur farið hækkandi að undanförnu, og við eigum enn kost á því að framleiða raforku ódýrari en flestar þjóðir aðrar. Talið er, að þau kjarnorkuver, sem nú er verið að koma upp eða er rætt um að koma upp, muni framleiða raforku, sem kosti 7–8 mills á kwst. vegna mengunarhættu og kostnaðar við að losna við úrgangsefni frá slíkum stöðvum. Til samanburðar má geta þess, að framleiðslukostnaður á kwst. er áætlaður helmingi lægri en þetta frá Sigölduvirkjun og aðeins þriðjungur frá Búrfellsvirkjun. Við höfum því ekki dregizt aftur úr í þróuninni og munum naumast gera það fyrr en leiðir finnast til að beizla vetnisorkuna. Engu að síður þurfum við sjálfra okkar vegna að auka sem örast raforkuvinnsluna og þróa jafnhliða orkufrekan iðnað, sem er forsenda þess, að unnt sé að ráðast í þær stórvirkjanir, sem hagkvæmastar eru.

Nýting orkulinda landsins er afar stórt verkefni, og það er svo stórt miðað við okkar aðstæður, aðstæður þessa litla þjóðfélags, að brýna nauðsyn ber til að sameina kraftana, ef hagkvæm nýting þessara auðlinda á að vera möguleg. Þess er að vænta, að hagkvæmast muni vera að virkja í stórum einingum, enda þótt minni virkjanir geti einnig átt rétt á sér, þar sem sérstakar aðstæður mæla með þeim. Virkjanir er hagkvæmast að reka samtengdar, þannig að orkumarkaðurinn verði sem stærstur. Með því móti næst bezt nýting þeirra og þær geta aðstoðað hver aðra, t.d. í vatnsþurrðar- og bilunartilvikum, og sökum þess hve vatnsvirkjanir eru fjármagnsfrekar framkvæmdir, þá ber ríka nauðsyn til þess, að framkvæmdir á einum stað í einum landshluta séu samræmdar sams konar framkvæmdum á öðrum stað í öðrum landshluta, svo að ein taki við af annarri fremur en unnið sé að mörgum samhliða. Með slíkri samræmingu er fjármagnsþörfinni haldið í lágmarki, stuðlað að sem jöfnustum verkefnum fyrir verktaka á þessu sviði o.s.frv. Allt ber þetta að þeim brunni, að nauðsynlegt sé, að til sé í landinu einn aðili, er hafi heildaryfirsýn yfir nýtingu orkulindanna og öflun raforku, annist skipulagningu þessarar starfsemi og taki allar meiri háttar ákvarðanir. Og einmitt þetta er fyrsta atriðið í till. þeirri til þál., sem hér er til umr. Þar segir svo í upphafi:

„Stefnt skal að því, að öll meginraforkuvinnsla og raforkuflutningur í landinu verði í höndum eins aðila, að því, að raforkukerfi einstakra landshluta verði tengd saman og að því, að verð á raforku verði sem næst því að vera hið sama um land allt.“

Sem sé, hér er að því stefnt að auka innlenda markaðinn fyrir raforku sem allra mest, gefa landsmönnum öllum sem jafnastan rétt á þeirri orku, sem við framleiðum, og stuðla þannig að iðnvæðingu og iðnaðarþróun um land allt. Það er að því stefnt, að framleiðsla raforku verði hliðstætt samfélagslegt verkefni eins og til að mynda Landssiminn. En það er ekki einfalt mál að búa til slíka miðstjórnarskipan, eins og þarna er talað um, án þess að hún rekist á eðlileg og sjálfsögð lýðræðissjónarmið, sem uppi eru og sjálfsagt er, að uppi séu í einstökum landshlutum. Þar sitja landsmenn allir sannarlega ekki við sama borð. Og þess vegna er ekki raunsætt að hugsa sér, að hægt verði að koma upp slíku heildarfyrirtæki í einum áfanga. Í landshlutunum eru orkuvinnslufyrirtæki nú í höndum ýmissa aðila, og í annan stað er það sjálfsagt lýðræðissjónarmið, að landshlutarnir fái sem öflugasta aðild að raforkuskipulaginu í heild og eigi þess sem greiðastan kost að koma sjónarmiðum sínum og hagsmunum á framfæri. Því er það mjög eðlilegt, að 1. áfangi þessarar heildarstefnu, sem ég hef talað um, sé sá, að í hverjum landshluta fyrir sig verði stofnað orkuvinnslufyrirtæki, er hafi með höndum orkuvinnslu, flutning rafmagns milli héraða og heildsölu til dreifiveitna innan hvers landshluta um sig. Að þessu atriði er vikið í a-lið fyrri hluta þáltill., þar sem sagt er, að stefnt skuli að því, að raforkuvinnslufyrirtæki í hverjum landshluta sameinist og stofnuð verði þar fyrirtæki, er hafi með höndum raforkuvinnslu, flutning rafmagns milli héraða og heildsölu til dreifiveitna. Fyrirtæki þessi verði sameign ríkissjóðs og þeirra sýslu- og sveitarfélaga á svæðinu, sem þess óska og verðmæti leggja fram. Eignarhluti ríkissjóðs má aldrei vera minni en 50% í hverju þessara fyrirtækja.

Það er á allra vitorði, að það geti verið hætta á því, að sterk miðstjórn missi eðlileg tengsl og nauðsynlegt samband við það fólk, sem henni er ætlað að þjóna, og í þessu tilviki notendur raforkunnar víðs vegar um land. Í veg fyrir slíka ókosti verður að reyna að koma með því að byggja miðstjórnarvaldið upp neðan frá, þ.e. frá notendunum sjálfum, og þess vegna er lagt til, að þessu markmiði samstjórnar á raforkuvinnslunni verði náð í nokkrum áföngum og samstjórnin verði smátt og smátt skipulögð með fyrirtækjum í höndum notenda raforkunnar um land allt. Þannig verði byggð upp sérstök raforkuvinnslufyrirtæki í hverjum landshluta með sameiningu slíkra fyrirtækja, sem nú eru starfandi í hverjum landshluta fyrir sig. Hér eru engar ákvarðanir teknar um landfræðileg mörk slíkra fyrirtækja. Það hlýtur að ráðast mjög mikið af því, hvernig til tekst um samninga um sameiningu og af ýmsum staðháttum. T.a.m. má minna á það í þessu sambandi, að Andakílsárvirkjun er nú innan orkuveitusvæðis Landsvirkjunar. Það er ekki vitað, hvort sameining Landsvirkjunar og Andakílsárvirkjunar er hugsanleg eða hvort heppilegra væri að skerða nokkuð orkuveitusvæði Landsvirkjunar og stofna sérstakt fyrirtæki á Vesturlandi.

Það er gert ráð fyrir því, að þau sýslu- og sveitarfélög á hverju svæði, sem þess óska og verðmæti leggja fram, geti gerzt eignaraðilar í landshlutafyrirtækjum þessum. Verðmætaframlög geta bæði verið í formi virkjana og flutningslina, sem þessir aðilar eiga nú þegar, eða í reiðufé: En þeir, sem leggja fram verðmæti, munu eiga þess kost að taka þátt í stjórn fyrirtækjanna. En að öðru leyti er ekki tímabært enn þá að gera nákvæmari till. að reglum um slíka stjórnarþátttöku. Það verður að ráðast af reynslunni, viðræðum og samningum á milli þeirra aðila, sem þarna eiga hagsmuna að gæta.

Í b-lið till. er um það rætt, að ríkisstj. byrji á því að vinna að myndun slíks landshlutafyrirtækis á Norðurlandi, en síðan verði unnið að þessu verkefni í öðrum landshlutum. Á Norðurlandi hagar svo til, að þar eru allmörg raforkuver. Sum eru í eigu Rafmagnsveitna ríkisins, þ.e. eign ríkissjóðs, önnur eru í eigu sameignarfélags sveitarfélags og ríkissjóðs, og hin þriðju eru eign sveitarfélags. Sameining og samræming er þar sérstaklega nauðsynleg, og verði af henni, er þess að vænta, að mörg vandamál leysist.

Í b-liðnum er svo um það talað, að á sama hátt verði unnið að sameiningu raforkuvera í öðrum landshlutum og komið upp slíkum landshlutafyrirtækjum í einum landshlutanum af öðrum. Hlutverk þessara fyrirtækja í raforkuvinnslunni á að vera það fyrst og fremst að vaka yfir því, að jafnan sé tiltæk nægileg raforka handa notendum í viðkomandi landshluta á sem hagstæðustu verði. Fyrirtækin eiga að fylgjast með þróun notkunar á sínu svæði og gera orkuspár fram í tímann. Fyrirtækin eiga að leggja ásamt tilsvarandi fyrirtækjum í öðrum landshlutum niðurstöður slíkra athugana á væntanlegri raforkuþörf fyrir stjórn hins sameiginlega landsfyrirtækis, sem þessi landshlutafyrirtæki eiga að eiga aðild að. Á grundvelli þessara niðurstaðna úr öllum landshlutum verði síðan teknar sameiginlegar ákvarðanir í stjórn landsfyrirtækisins um næstu aðgerðir í virkjunarmálum og þær síðan sendar Alþ. sem beiðni um nauðsynlegar heimildir. Með landshlutafyrirtækjunum á þannig að vera komið í veg fyrir, að hagur raforkunotenda í einstökum hlutum landsins sé vanræktur af fjarlægu miðstjórnarvaldi. Með þeim og beinni aðild þeirra að hinu sameiginlega landsfyrirtæki eiga eðlileg áhrif einstakra landshluta á raforkuvinnsluna í landinu að vera tryggð. Sérstaklega á þessi skipan að koma í veg fyrir, að þarfir einstakra byggða séu ranglega metnar eða vanmetnar sakir ókunnugleika manna, sem illa þekkja til, en slíkt er oft stærsti ókostur sterkrar miðstjórnar. Jafnframt á þessi skipan að efla eðlilegan áhuga einstaklinga og landshluta og ábyrgðartilfinningu fyrir öflun raforku sjálfum þeim til handa.

Í c-lið I. hlutans er síðan rætt um það, að þessi landshlutafyrirtæki sameinist í eitt fyrirtæki, sem ég hef mér til hægðarauka stundum kallað Landsvirkjun Íslands. Ég geri ráð fyrir því, að slíku fyrirtæki væri hægt að koma formlega á laggirnar, þegar búið væri að stofna t.d. tvö landshlutafyrirtæki, en markmiðið er að sjálfsögðu það, að landshlutafyrirtækin um land allt eigi beina aðild að þessari Landsvirkjun Íslands. Ætlazt er til þess, að eignarhluti ríkisins í þessu sameiginlega fyrirtæki verði ekki minni en 50%, en verkefni þessa fyrirtækis kom fram í upphafi máls míns. Það er veigamesta hlutverk þessa sameiginlega fyrirtækis að vera vettvangur landshlutafyrirtækjanna til sameiginlegs átaks við nýtingu á orkulindum landsins. Það á að taka ákvarðanir um byggingu og staðarval nýrra orkuvera og flutningslína. Það á að vinna að gerð orkusölusamninga landshlutafyrirtækjanna til tryggingar heildarsamræmi og ákveða heildsöluverð á raforku. Og með því móti getur það mótað stefnuna í orkusölumálum og samræmt verðið með það markmið fyrir augum, að heildsöluverð á raforku verði eins á öllu landinu. En að sjálfsögðu verða allar endanlegar ákvarðanir á þessu svíði í höndum Alþ. eins og verið hefur. Það er í rauninni óþarft að taka það fram.

Í þessu sambandi er einnig gert ráð fyrir því, að þetta sameiginlega fyrirtæki, Landsvirkjun Íslands, geti sjálft reist og rekið orkuver og flutningslínur og einnig að það geti keypt slík mannvirki. Að hve miklu leyti um það verður að ræða, að þetta landsfyrirtæki reisi eigin orkuver, fer væntanlega mest eftir stærð verkefna hverju sinni, hvort þau eru einstökum landshlutafyrirtækjum ofviða, þannig að sameiginlegt átak allra þurfi til. Einnig þetta getur verið háð staðarvali væntanlegra mannvirkja. Um þetta verður tæplega annað sagt á þessu stigi en það, að trúlega verður þróunin sú, að hin minni verkefni og staðbundnari verði í höndum landshlutafyrirtækjanna, en stórverkefni, sem verða að vera sameiginlegt átak þjóðarinnar allrar, verði leyst í sameiningu á vegum landsfyrirtækisins. Þar eð verkefni í virkjunarmálum munu væntanlega fara sístækkandi, er þess að vænta, að orkuver í eigu landsfyrirtækisins verði fá í fyrstu, en að þeim fari fjölgandi, þegar tímar líða fram. Loks er einnig gert ráð fyrir því í þessari þáltill., að landshlutafyrirtæki geti sameinazt landsfyrirtækinu, ef þau kjósa það sjálf. Um skipan stjórnar landsfyrirtækisins er ekki fjallað í þessari þáltill., heldur yrði það að koma til á síðara stigi málsmeðferðarinnar.

Í II. hluta till. er fjallað um dreifingu raforku. Þar er stefnt að því marki, að sala til almennrar neyzlu verði í stærri rekstrareiningum en þorri dreifiveitna er nú. Dreifing raforkunnar á Íslandi er nú í höndum 24 aðila, og þegar Rafmagnsveitur ríkisins eru undanskildar, eru allar dreifiveiturnar í eigu sveitarfélaga. Eins og fram kemur hér á bls. 7 í þessu þskj., þá eru dreifiveiturnar yfirleitt ákaflega litlar. Rafmagnsveitur ríkisins hafa á hendi auk mikillar raforkuframleiðslu og flutninga dreifingu á næstum allri raforku um strjálbýlið og nokkuð í þéttbýli. Á orkuveitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins munu nú búa 43–44 þús. manns. Ljóst er, að fjölmargar sveitarfélagarafveitur eru allt of litlar sem venjulegar rekstrareiningar. Margs konar hagræðing í rekstri og tækniþjónustu er lítt framkvæmanleg, þar sem rekstrareiningarnar eru svona litlar. Af þessum sökum er lagt til, að gerð verði tilraun til að breyta um og vinna að því, að rekstrareiningamar verði stærri en verið hefur. Og það er gert ráð fyrir því, að einnig að þessu verkefni verði unnið í áföngum. Fyrst og fremst er það lagt til í þessari þáltill., að Rafmagnsveitum ríkisins verði skipt í nokkuð sjálfstæðar landshlutaveitur með landfræðilegum mörkum. Mörkin eru ekki ákveðin, en hafa má til hliðsjónar kjördæmaskiptinguna og núverandi svæðaskiptingu Rafmagnsveitna ríkisins, sem rakin er hér í þessu þskj. Hver landshlutaveita á að hafa stjórn í héraði, en það þykir ekki tímabært að tiltaka í þessari þáltill., hvernig þeirri stjórn skuli háttað. Hlutverk landshlutaveitna er að hafa á hendi rekstur sinnar veitu, gera orkuspár fyrir orkuveitusvæðið, gera fjárhagsáætlanir og till. um nýbyggingar og endurbyggingar.

Í b-lið II. hluta þáltill. er svo gert ráð fyrir því, að Rafmagnsveitur ríkisins starfi sem heildarstjórn þessara dreifiveitna og annist sérstaka samningsgerð fyrir þær og samræmingu á vinnubrögðum. Rafmagnsveitur ríkisins mundu þannig vinna að því að semja gjaldskrár, annast samninga um kaup á raforku af raforkuvinnslufyrirtækjum, útvega fjármagn til nýbygginga, fjalla um meiri háttar framkvæmdir og veita ýmiss konar tækniþjónustu, sem landshlutaveitur væru eigi megnugar að veita, a.m.k. naumast á fyrsta stígi. Með þessari skipan er stjórn á raforkudreifingunni á orkuveitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins í verulegum mæli flutt heim í héruðin sjálf. Er þess að vænta, að sú skipan auðveldi sameiningu rafveitna sveitarfélaga við nágrannaveitur, þannig að stærri og lífvænlegri rekstrareiningar fáist fram.

Í c-lið þessa hluta þáltill. er gert ráð fyrir því, að sýslu- og sveitarfélög á hverju orkuveitusvæði eigi þess kost að gerast þátttakendur í landshlutaveitum, enda leggi þau fram verðmæti, en ríkissjóður ætlast til þess, að hann eigi helming í hverju slíku fyrirtæki. Verðmætaframlögin geta verið þannig, að rafveita í eigu sveitarfélags sameiníst landshlutaveitunni eða sveitarfélögin leggi fram reiðufé. Um slík atriði yrði að sjálfsögðu að semja hverju sinni og ástæðulaust að hafa um það nokkur ákvæði fyrir fram. Og þar sem margt er að sjálfsögðu óljóst í þessu efni enn þá og ekki kunnugt um afstöðu sveitar- og sýslufélaga í þessum efnum að fullu, þá eru hér ekki gerðar till. um það, hvernig stjórnir landshlutaveitnanna skuli skipaðar.

Í d-lið er svo fjallað sérstaklega um stórar sveitarfélagsrafveitur. Það er gert ráð fyrir því, að þar sem um slíkar stórar dreifiveitur er að ræða, þurfi ekki að vera um að ræða helmingsaðild ríkisins, heldur megi um það semja á svæðum, sem hafa yfir 10 þús. íbúa, að eignarhluti ríkissjóðs verði minni, og um fyrirkomulagið yrði að sjálfsögðu að fara eftir samningum hverju sinni. Auðvitað er ekki ætlunin að neyða hin sjálfstæðu fyrirtæki til neinnar sameiningar. Því er gert ráð fyrir því, að þær rafveitur, sem þess óska, geta starfað áfram alveg sjálfstætt með óbreyttu skipulagi eða sameinazt öðrum sveitarfélagarafveitum. Hins vegar tel ég, að ríkisvaldið þurfi í ýmsum tilvikum að reyna að vinna að því, að slík sameining eigi sér stað, til þess að rekstrareiningarnar verði reknar af hagkvæmni og heppilegri stærð.

Eins og hér hefur komið fram, er að því stefnt annars vegar, að rafveiturnar verði af hagkvæmri stærð, og hins vegar, að hinn almenni neytandi fái meiri og betri aðstöðu til að hafa áhrif á rekstur þeirra og jafnframt beri nokkra ábyrgð á hagkvæmni rekstursins.

Þetta eru aðalatriðin í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. Þetta eru þær meginhugmyndir, sem þar er fjallað um, bæði að því er varðar orkuvinnslu, flutninga og dreifingu raforku. Eins og menn sjá, falla hér tvö meginsjónarmið saman í einn farveg. Í þeim er gert ráð fyrir stórauknu ákvörðunarvaldi landshlutanna, bæði að því er tekur til orkuframleiðslu og dreifingar. Að undanförnu hefur verið uppi mikil gagnrýni í landshlutunum, vegna þess að þeir telja sig ekki hafa átt þess kost að koma á framfæri eðlilegum hagsmunum sínum og óskum. Þeir hafa orðið að sækja allt undir hið svokallaða Reykjavíkurvald. Ég tel, að þessi gagnrýni sé í mörgum tilvikum eðlileg og það sé nauðsynlegt, að landshlutarnir fái stóraukið ákvörðunarvald, eins og ráð er fyrir gert í þessum till. En till. stefna einnig að því, að öll meginraforkuvinnsla og raforkuflutningur í landinu verði í höndum eins aðila, svo að unnt sé að koma við nútímalegri skipulagningu, röðun framkvæmda og nútímatækni í samrekstri. Þessi sjónarmið eru ekki andstæð, eins og oft er haldið fram í opinberum umr., heldur eiga þau að geta fallið í sama farveg. Leiðin til þess er lýðræðislegt skipulag, þar sem landshlutafyrirtækin eiga beina aðild að hinni sameiginlegu Landsvirkjun Íslands og héruðin stjórni landshlutaveitunum. En sameign þjóðarinnar allrar á þessu kerfi og sameiginleg yfirstjórn er alger forsenda þess, að okkur takist að þróa raforkumálin á hagkvæman hátt. Við megum aldrei gleyma því, hvað samfélag okkar er lítið, og við höfum öllum öðrum síður efni á því að sóa kröftum okkar í tvíverknað og margverknað eða standa í innbyrðis erjum og oftast ástæðulausum milli héraða og landshluta um þróun þessara mála. Því verðum við að hafa stjórnvizku og samhug til þess að gera hvort tveggja í senn, tryggja eðlileg lýðræðisleg mörk landshlutanna og heildarþarfir þessa litla þjóðfélags. Forsenda þeirrar þróunar er samtenging orkuveitusvæða. Og af því leiðir, að þær skipulagsbreytingar, sem um er fjallað í þáltill., munu koma til framkvæmda á alllöngum tíma, allmörgum næstu árum, ef Alþ. fellst á þá stefnu, sem í þáltill. feist. En að samtengingarmálunum er nú skipulega unnið. Það er orðið mjög tímabært t.d. að tengja saman landshlutana fyrir norðan, Norðurlandshlutana báða, og slík samtenging á Vesturlandi er einnig orðin ákaflega brýn. Og það er alkunna, að ríkisstj. hefur þegar lýst yfir þeirri stefnu sinni, að leggja beri línu frá Búrfellssvæðinu til Norðurlands, og síðan mun þetta samtengda kerfi á sínum tíma ná einnig til Austurlands og til Vestfjarða.

Ég sagði áðan, að stóraukin nýting okkar á orkulindum væri forsenda þess, að við gætum haldið áfram að þróa iðnað og látið hann þróast af miklu meiri hraða en verið hefur að undanförnu. Og ég vil í þessu sambandi leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að orkuframleiðsla ein saman skilar ekki miklum arði. Iðnaðarveldi nútímans halda lágu verði á hráefnum og á orku, en arðurinn fæst af fullunnum iðnaðarvarningi. Það væri því léleg nýting á hinum miklu möguleikum okkar að selja þá sem hráorku handa erlendum aðilum. Gildi orkunnar er fyrst og fremst það, að hún er undirstaða iðnvæðingar, og því þurfum við að leggja áherzlu á það, að íslenzk iðnvæðing haldist í hendur við orku- framleiðsluna. Í því sambandi munum við að sjálfsögðu þurfa á samvinnu við fjölmarga erlenda aðila að halda, bæði til þess að tryggja fjármagn, þekkingu á sviði vísinda og tækni og aðstöðu á alþjóðlegum mörkuðum. En við þurfum sjálfir að setja okkur það mark að vera hlutgengir aðilar í þessari framleiðslu. Ég tel, að í samningum við erlenda aðila um orkufrekan iðnað hér á landi verðum við að tryggja meirihlutaeign Íslendinga í slíkum fyrirtækjum. Við verðum að sjálfsögðu að tryggja það, að þau lúti í einu og öllu íslenzkum lögum, og við verðum að tryggja hagkvæmt raforkuverð, þótt verðlagningarvandamálið verði auðvitað minna, ef við eigum sjálfir meiri hl. í fyrirtækjunum. Þessi stefna er í samræmi við þá þróun, sem ég þekki til í þeim löndum, sem eru að hefja nútímalega iðnvæðingu. Og það er þessi stefna ein, sem tryggir það, að okkur nýtist sjálfum sem bezt arðurinn af orkulindum okkar og að hann verði að mestu eftir í landinu, að hann verði þjóðfélagi okkar efnahagsleg og menningarleg lyftistöng. Ég tel, að slík þjóðleg iðnþróun verði að ná til landsins alls. En forsendur þess eru ekki einar saman stórvirkjanir, heldur einmitt þau skipulagsmál, sem þessi þáltill. fjallar um. Samtenging og samstjórn á orkuvinnslu, orkuflutningi og dreifingu er undirstaða þess, að orkan verði eins ódýr og tök eru á og hún nýtist öllum landshlutum ásamt þeim iðnþróunarmöguleikum, sem henni fylgja. Þess vegna er skipulag raforkumála afar veigamikið atriði að minni hyggju og forsenda fyrir frekari þróun á fjölmörgum sviðum.

Ég gat þess í upphafi, að ég hefði sent handrit að þessari þáltill. til allra þingflokka um svipað leyti og hún var send í prentun. Ég gerði þetta vegna þess, að ég geri mér vonir um, að um þetta mál geti tekizt víðtæk samstaða hér á Alþ. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að í þessari þáltill. er komið mjög til móts við till., sem flutt var fyrr á þessu þingi af níu þm. Sjálfstfl., þar sem einmitt var farið fram á stóraukna aðild héraðanna að dreifiveitunum. Ég vil einnig minna á það, að það hefur verið mjög góð samstaða hér á þingi um allar meiri háttar ákvarðanir í raforkumálum um mjög langt skeið. Síðustu stórákvarðanir Alþ. í þeim efnum, ákvarðanirnar um heimild til Búrfeilsvirkjunar, til virkjunar við Sigöldu og til virkjunar við Hrauneyjafoss, hafa verið teknar samróma. Ég held, að það væri ákaflega æskilegt, að slík samstaða gæti haldið áfram. Og ég geri mér vonir um, að það séu mjög góðar forsendur fyrir slíkri samstöðu. Ég ræddi talsvert um þær hugmyndir, sem felast í þessari þáltill., á landsfundi Sambands ísl. rafveitna fyrr á þessum vetri. Undirtektir þær, sem þar komu fram, voru afar jákvæðar og eftir það hefur Laxárvirkjunarstjórn samþykkt sérstaka ályktun, þar sem lýst er stuðningi við þessa stefnu, og forustumenn Andakílsárvirkjunar hafa einnig rætt við mig og lýst því yfir, að þeir hafi mjög mikinn áhuga á framgangi þessarar stefnu.

En í þessari þáltill. felst aðeins stefnumörkun. Farið er fram á það, að Alþ. dragi upp meginlínur, sem síðan verði stuðzt við um frekari þróun. Í kjölfar slíkrar ákvörðunar kæmu hins vegar umfangsmiklir og flóknir samningar og margvísleg lagasetning. Að því leyti, sem þau mál kunna að verða á mínum vegum, þá mun ég að sjálfsögðu tryggja það, að að þeim málum öllum verði unnið með sem breiðastri þátttöku allra aðila.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að till. verði vísað til fjvn.