02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í D-deild Alþingistíðinda. (4606)

262. mál, raforkumál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér er nú ekki fyllilega ljóst, hvernig beri að líta á þetta þingmál, sem við höfum fyrir framan okkur. Það er með nokkrum einstökum blæ, þar sem ríkisstj. ber fram till. til þál. mjög almennt orðaða um stefnumörkun í raforkumálum, sem eru ein af okkar þýðingarmeiri málum, en hins vegar þó þannig, að það er í raun og veru afar erfitt fyrir hv. alþm. að gera sér grein fyrir, hvað rúmast í þessari stefnumörkun eða í þessari þáltill. Ég held, að það sé mjög varasamt, sem virðist móta hér vinnuaðferðir, að hafa ekki meira samráð en gert hefur verið við sveitarstjórnirnar í þessu landi og þau samtök rafveitna, sem fyrir hendi eru, áður en slík stefnumótun á að ákveðast eða ef það er ætlazt til þess, að þm. ákvarði stefnumótun á svona almennum grundvelli eins og hér er um að ræða.

Eins og fram kemur í þáltill., þá er saga raforkumálanna allmikið tíunduð, og þá sjáum við, að hún byggist öll á því, að það eru einingarnar, sveitarstjórnirnar og héruðin, sem hafa hafizt handa um rafvirkjanirnar í landinu, og síðan hafa einingarnar stækkað og veitukerfin orðið stærri. Þess vegna virðist það í eðli sínu vera mjög þýðingarmikið atriði að hafa miklu nánara samband við sjálfar sveitarstjórnirnar en hér hefur verið haft við undirbúning málsins og þyrfti að hafa við löggjöf um þessi mál. Það er t.d. mjög einkennilegt, finnst mér, þegar lögð er fram þáltill. af hæstv. iðnrh. um raforkumálin, að minnast þess, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var sett á laggirnar nefnd til þess að endurskoða vatnalögin á Íslandi. Auðvitað var það grundvöllurinn undir stórrafvirkjunum að hafa tímabæra löggjöf á hverjum tíma í sambandi við vatnsföllin og vatnalöggjöfina. Hún er mjög gömul eða frá 1920, rúml. 50 ára gömul, sú vatnalöggjöf, sem við höfum. Fyrrv. ríkisstj. skipaði nefnd til þess að endurskoða vatnalögin. Ég held, að það hafi verið í apríl á s.l. ári. Í þessari nefnd voru Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, sem var formaður, dr. Gaukur Jörundsson sérfræðingur í eignarrétti, dr. Gunnar Sigurðsson verkfræðingur og Gunnlaugur Briem ráðuneytisstjóri, sem sennilega er með einna mesta reynslu og þekkingu á þessu sviði af ráðuneytisstjórum okkar miðað við þann aldur og reynslu, sem hann býr yfir. Það er svo eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstj., þegar hún tekur við völdum, að þakka þessari nefnd fyrir vel unnin störf og leysa hana upp. Mér hafði ekki komið til hugar annað en að hér væri um að ræða starfsemi sérfræðinganefndar, sem þyrfti vissulega langan starfstíma, og eins og menn sjá af því, hvernig nefndin er skipuð, þá er það fyrst og fremst frá sérfræðilegu sjónarmiði. En auðvitað er það, eins og ég sagði áðan, m.a. grundvöllur undir stórátök í raforkumálum og rafvæðingu landsins að hafa tímabær vatnalög. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur einhver önnur áform um skipun nýrrar nefndar í þessu sambandi. Það er mér ókunnugt um, en ég furðaði mig á því, að hún skyldi telja, þar sem fram undan eru miklar aðgerðir í raforkumálunum, að ótímabært væri, að við endurskoðuðum okkar vatnalög. Með svipuðum hætti var sett á laggirnar nefnd til að endurskoða námalögin, sem eru enn þá eldri lög. Nú er það svo, að þegar þau voru lögð fram á þingi á sínum tíma, þá voru uppi miklar deilur í landinu um námaréttindi, og sennilega væri skynsamlegast af okkur að fara hægt með afgreiðslu þess máls, meðan þær deilur eru ekki útkljáðar fyrir dómstólum. Hins vegar er þetta svipaðs eðlis hvort tveggja, vatnalögin og námalögin, og okkur er kunnugt um það, að þau hafa orðið og eru því miður grundvöllur margvíslegra deilna og mismunandi skoðana hjá okkur um réttinn til vatnsfallanna, til námanna, afréttanna o.s.frv., sem ég skal ekki tíunda á þessu stigi málsins.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þegar hann sendi þingflokkunum till. þessa meðan hún var í prentun, þá taldi hann sig gera það, til þess að þingflokkarnir hefðu betri aðstöðu til þess að átta sig á efni till. og fyrr en ella væri, af því að það tæki nokkurn tíma að prenta hana. Það er út af fyrir sig þakkarvert, en í raun og veru er till. þannig almennt orðuð, að það er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir þeirri stefnumörkun, sem í henni felst. Augljóst er þó, eins og kom mjög oft fram í máli hæstv. ráðh., að hér er auðvitað um mikið miðstjórnarvald að ræða í raforkumálunum, enda segir í fyrstu setningunni, með leyfi hæstv. forseta: „Stefnt skal að því, að öll meginraforkuvinnsla og raforkuflutningur í landinu verði í höndum eins aðila.“ Svo eru hins vegar falleg orð um það, að stofna eigi landshlutaveitur og það eigi að vera sérstök stjórn í landshlutunum yfir þessum veitum, en hvernig hún er skipuð, inn á það er ekki farið. Mér finnst, að það sé til of mikils ætlazt, að hv. alþm. setji ramma, eins og hér er ætlazt til, um þá væntanlega mjög mikilsverðu og þýðingarmiklu löggjöf, sem hlýtur að verða sett á næstu árum í sambandi við okkar orkumál. Í raun og veru hefði verið eðlilegra að efna til endurskoðunar á orkulögunum og hafa góðan fyrirvara um það og leggja slíkt mál fyrir þingið, þannig að það væri ekki ætlazt til þess, að það væri snöggsoðið eða afgreitt í einum hvelli, heldur hefðu menn virkilega tóm og tíma til þess að kynna sér málin, og mætti gjarnan með slíkt mál fara eins og hæstv. ráðh. hefur einnig hugsað sér varðandi heilbrigðisþjónustuna, að það sé lagt fram á þinginu til að sýna það, en síðan, gefist tóm til þess að ræða þetta og þá fyrst og fremst við sveitarstjórnirnar, sem eru sterkur aðili í þessu, eins og ég hef áður sagt, og afgreiða það að athuguðu máli og með sem beztu samráði við sveitarstjórnirnar.

Það er líka vitnað í það í þessari till., að það eigi að koma upp landshlutavirkjunum, bæði veitum og virkjunarfyrirtækjum, og það er allt gott um það að segja, en auðvitað er hægt að stefna að því í framkvæmd ríkisstj. á hverjum tíma, án þess að lagt sé fyrir þingið að gera ályktun, þál., eins og hér er um að ræða. Ég vil ekki segja, að það vaki fyrir hæstv. ráðh., mér dettur það ekki í hug, á grundvelli svona till., ef hún yrði samþ., að setja brbl. um jafnþýðingarmikið mál og orkumál, sem hugsanlega væri hægt að gera. Þingið er búið að lýsa yfir stefnu sinni í þessu, og nú setjum við þessi orkulög svona. Það væri algjörlega óverjandi, og ég er ekki að gera því skóna, að það vaki fyrir ríkisstj. eða þessum hæstv. ráðh., en þá segi ég, að það liggi heldur ekki á að gera ályktun eins og hér um ræðir. Ég teldi, að það væri eðlilegast að hafa hana til betri athugunar og kannske ekki sízt fyrir hæstv. rafarkumálaráðh. sjálfan, því að við höfum nú heyrt hann segja sitthvað í raforkumálum á undanförnum árum, sem er töluvert öðruvísi en hann talaði nú eða eins og hann er farinn að tala upp á síðkastið og hefur talað á opinberum vettvangi. Það var ein höfuðsynd hjá fyrrv. ríkisstj. að selja raforkuna til stóriðju á Íslandi, en nú skilst mér, að það eigi að koma upp stóriðju við hvert einasta orkuver í landinu og það sé það, sem meginmáli skipti.

Raforkumálin hafa ekki verið ágreiningslaus hér á Alþ. Á sínum tíma var það kannske fyrst og fremst deilan um raforkumálin, sem olli hinu mikla brambolti og þingrofi á árunum eftir 1930, og þegar stórvirkjun var fyrst ákveðin við Búrfell í Þjórsá, þá var það sannast að segja ekki ágreiningslaust. Landsvirkjunarlögin voru ágreiningslaus, það er alveg rétt. Það þýddi ekki það, að samkvæmt þeim væri ákveðin stóriðja, að þau væru grundvöllurinn undir stórvirkjun, síður en svo. Þetta hefur verið eitt mesta deilumál, sem hér hefur verið uppi á Alþ. á síðari árum, hvernig að þessum málum verði staðið. Það er ekkert nýtt að tengja saman landshluta. Það hafa margir þm. sagt og gert grein fyrir, og samveitur eða samstarf milli margra rafveitna er auðvitað hægt að hafa, eins og tíðkast á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, án þess að ríkið sé alls staðar aðalatriðið eða höfuðpaurinn í virkjunum, bæði heima í héruðunum og heildarvirkjunum. Þetta er bæði gert á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu. Þeir möguleikar og það afl, sem um er að ræða, er virkjað saman, og einmitt byggt neðan frá. Það er eins og það sé einhver ný kúnst, að menn eigi að byggja neðan frá. Mér finnst nú yfirleitt, að byggingarnar grundvallist á því að byggja neðan frá, en menn byrji ekki á toppinum, þegar á að byggja eitthvað. Það er góðra gjalda vert, sem um það er sagt hér í þessari þáltill.

Það var eitt aðalauglýsingarmálið hér í haust hjá hæstv. ríkisstj. og þessum hæstv. ráðh., að nú ætti að fara að byggja Sigölduvirkjun í áföngum, í þeim áföngum, eins og þar var talað um, og það var einn aðalkostur þess, og það átti að vera mesta nýmetið í því, að það væri virkjað, enda þótt það væri enginn markaður fyrir orkuna, áður en menn gætu tryggt sér markaðinn fyrir orkuna. Nú hef ég í höndum upplýsingar, sem sýna það, að með því að reisa Sigölduvirkjun í þrem áföngum, þá er þetta miklu, miklu dýrari virkjun og kostnaðarsamari og leiðir til miklu dýrari raforku fyrir allan almenning en ef hægt væri að virkja stórt við Sigöldu á grundvelli orkumarkaðar, sem væri fyrir hendi, eða a.m.k. einhver nasasjón um. Ég hef, ásamt fleiri þm. Sjálfstfl. borið fram till. um, að þingið skipaði stóriðjunefnd, þannig að það gæti fengið að fylgjast með á hverjum tíma meira en ella þeim áformum, sem eru um það að ná samkomulagi um orkufrekan iðnað sem grundvöll undir stórvirkjun í landinu. N., sem fékk það mál til meðferðar, leggur til, að því sé vísað til ríkisstj. til frekari fyrirgreiðslu, og skil ég þá afgreiðslu þannig, að ríkisstj. vilji samræma þær aðgerðir, sem hún er með á prjónunum í þessu sambandi, og verður kannske farið eitthvað svipað að og á sínum tíma, þegar stóriðjunefnd var sett á laggirnar innan þingsins, skipuð af fyrrv. ríkisstj., án þess að nokkur sérstök till. væri um það áður, heldur var það gert í samráði við þingflokkana. Út frá þessu sjónarmiði get ég vel fellt mig við þá afgreiðslu á því máli, ef menn vilja hafa þann hátt á, en það er auðvitað mjög þýðingarmikið og veigamikið fyrir Alþ. á hverjum tíma að víta, hvað er um að ræða.

Nú kemur hæstv. raforkumálaráðh. og talar fyrir þessari till. hér, en segir ekkert orð um þau áform, sem hugsanleg eru um nýjan orkumarkað í landinu, stóriðju eða orkufrekan iðnað, ekkert einasta orð. Mér finnst það nú nokkuð snubbótt. Það liggur fyrir, að samkv. þeim kostnaðaráætlunum, sem birtar hafa verið um Sigölduvirkjun, þá má gera ráð fyrir því, að vextir og afborganir lána vegna fyrsta byggingaráfanga virkjunarinnar muni nema a.m.k. sömu upphæð og heildartekjur Landsvirkjunar af orkusölu til rafveitna árið 1970. M.ö.o. mundi greiðslubyrðin, sem félli á hinn almenna notanda, tvöfaldast með tilkomu fyrsta áfanga Sigölduvirkjunar, án þess að nokkur von sé til þess, að markaðurinn aukist að sama skapi. Það getur aðeins þýtt það, sem allir hljóta að sjá, að rafmagnsverðið hækki, nema hægt sé að selja orku til stóriðju eða Sigölduvirkjun sé frestað, þar til hinn almenni markaður hefur a.m.k. tvöfaldazt frá því, sem hann var árið 1970. Ég hef einnig upplýsingar um það frá sérfróðum mönnum, að það væri sennilega ódýrasta aðferðin til þess að fá fullnægt orkuþörfinni á Suðvesturlandi núna að ljúka þeim áformum, sem uppi voru um Laxárvirkjun og leiða línu suður frá Laxárvirkjuninni. Þetta gæti dugað í 2–3 ár eða þar um bil til þess að fullnægja markaðinum, og á meðan eykst markaðurinn hér fyrir sunnan, sem skapar ný skilyrði til þess að fá orkufrekan iðnað í millitíðinni.

Það hefur margoft verið talað um það, og hæstv. ráðh. vék að því, að það væri ekki mikils virði fyrir okkur að selja hráorku, eins og kallað var, þ.e. til erlendra fyrirtækja. Nú er það svo, að það, sem við höfum selt til erlendra fyrirtækja, þ.e. ÍSALs, sem er eign erlends fyrirtækis, hefur byggt upp stóriðju hér á landi, sem þróar einnig iðnaðinn almennt og veitir margvísleg áhrif til eflingar iðnþróunar almennt í þjóðfélaginu, og það er svo fjarri því, að við séum þarna að selja orku eða eyðileggja eitthvað fyrir okkur, því að eins og aðstaðan er í dag, þá er gert ráð fyrir því, að mjög hagkvæmt sé að virkja kannske 28 þús. eða 30 þús. kwst. á ári. Jafnvel þó að við gerum orkusölusamninga við erlenda aðila um þetta, þá eru þeir löngu liðnir, samningarnir, og orkan þá öll fallin okkur til miklu fyrr en það, að við hefðum nokkurt tjón af því. Ég vil gjarnan láta þm. gera sér grein fyrir því, að það var auðvitað engan veginn verið að útiloka komandi kynslóð frá notkun þessara auðlinda okkar, þó að við gerðum orkusölusamning um áratugi fram í tímann. Ég hef hér fyrir framan mig plagg, þar sem verið er að reyna að gera spá 50 ár fram í tímann, og þetta er það langur tími, að allir orkusölusamningar, sem gerðir eru í dag, eru löngu útrunnir og löngu búið að greiða að fullu upp lán vegna virkjana. M.ö.o., löngu áður en þessi 50 ár eru liðin, mundum við eiga skuldlausa sérhverja virkjun, sem reist yrði í dag, og gætum ráðstafað raforkunni frá henni eins og bezt þætti og hefðum á sama tíma notið ódýrari orku vegna stærðar virkjunarinnar. Það er því síður en svo, að með stórvirkjunum, þar sem verið er að selja svo og svo mikinn hluta til stóriðju, séum við að fórna nokkrum sköpuðum hlut. Ef við tækjum það dæmi, að mannfjöldinn á Íslandi tvöfaldist á 50 árum og yrði þá orðinn um 400 þús. manns eftir þessi 50 ár og almenn orkunotkun á hvern mann fimmtánfaldaðist á þessu tímabili, sem er nú miklu meira en hefur gerst hjá okkur, — ég held, að 1969 og 1970 hafi ekki nema sexfaldazt orkunotkunin á mann, — þá má búast við því, að eftir 50 ár noti hver maður 33 300 kwst. og þjóðin öll mundi þá nota rúml. 13 þús. gwst., en samkv. áætlunum Orkustofnunar er vatnsafl á Íslandi hagkvæmlega virkjanlegt 30–35 þús. gwst. á ári. Hún kann að vera eitthvað mismunandi hagkvæm þessi orka, en það er talið, að hún sé fyrir hendi, og þetta dæmi sýnir, að það eru engar líkur til þess, að við getum nýtt þessar auðlindir okkar til almennra nota á næstu 50 árum, og miðað við þessa tölu, sem ég hef verið með hér, yrði eftir næg orka eftir 50 ár til allrar almennrar notkunar og til 20–25 álbræðslna af þeirri stærð, sem er rekin nú í Straumsvík, og þá á ég við 40 þús. tonna hræðslu. Það er ágætt, að augu manna séu kannske að opnast fyrir því, hversu mikilvægt það er fyrir okkur að nota vatnsaflið einmitt til stóriðju og til tímabundinnar sölu, því að við geymum ekki aflið í ánum, það flýtur til sjávar ónotað, meðan við höfum ekki aðstöðu til þess að virkja það í stórum stíl fyrir okkur sjálfa, en það getum við auðvitað gert í samvinnu við erlenda aðila og með þeim hætti, sem okkur sjálfum er mjög hagkvæmt.

Deilt var um það endalaust fram og til baka, að við seldum rafmagn frá Búrfellsvirkjun á of lágu verði til álbræðslunnar. Nú er talað um að selja —og það hefur komið fram á opinberum vettvangi — að selja á 35 aura kwst. úr Sigölduvirkjun. Það er kostnaðarverðið úr Sigölduvirkjun. Við seljum yfir kostnaðarverði rafmagn frá Búrfellsvirkjun, og ég held, að hæstv. iðnrh. hafi sagt, að þegar erlendum aðilum væri tjáð það, að þeir gætu fengið kwst. fyrir 35 aura, af því að það væri kostnaðarverð, þá hafi þeim ekkert litizt á það. En það er bæði önnur aðstaða við Sigölduvirkjunina, og svo hefur allt verðlag hækkað frá því að Búrfellsvirkjunin var byggð, en það er í raun og veru það sama, sem liggur hér til grundvallar, að hæstv. ráðh. er að gera sér grein fyrir því að geta selt raforku ódýru verði og sem næst kostnaðarverði, en þó þannig, að við höfum sjálfir hag af því að selja þetta til stóriðju í einni eða annarri mynd.

Ég held því miður, að innan ramma þessarar þál. rúmist miklu meira en hæstv. ráðh. vill vera láta í þeirri veru, að miðstjórnarvaldið ríki og ráði og gengið sé fram hjá landshlutaveitunum, og mér finnst þetta fara töluvert í aðra átt en þær till., sem sjálfstæðismenn hafa flutt hér á þessu þingi um landshlutaveitur, og einnig till., sem samþykktar voru á síðasta þingi, t.d. till. til þál. um raforkumál Vestfjarða. Þar voru flm. ekki aðeins sjálfstæðismenn, heldur menn úr öðrum flokkum, Framsfl. einnig, en þar segir m.a. í lok þeirrar till., að það eigi að kanna óskir sveitarfélaga um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna á samveitusvæðunum. Það er þetta, sem liggur til grundvallar hugmyndinni um landshlutaveitur og landshlutavirkjanir, einnig, ef um það er að ræða, að sveitarfélögin hafi sína eigin aðstöðu og sterka aðstöðu til þess að virkja heima í héraði og einnig að veita rafmagninu um hinar dreifðu byggðir með aukinni og meiri sjálfstjórn, eins og þessi till. fór fram á, sem samþ. var í fyrra, og eins og vikið er að í þeirri till., sem sjálfstæðismenn flytja nú á þessu þingi um landshlutaveitur.

Í stjórnarsáttmálanum sagði, með leyfi hæstv. forseta, að það ætti „að hefjast handa um undirbúning að stórum vatnsafls- og jarðhitavirkjunum, er nægi til hitunar á húsakosti landsmanna og tryggi íslenzkum atvinnuvegum næga raforku“. Þarna er ekki vikið neitt að neinum orkufrekum iðnaði eða stóriðju í landinu frekar en í ræðu hæstv. ráðh. nú, sem grundvelli fyrir því, að almenningur geti fengið ódýra orku eða átt kost á ódýrri orku. Ég skil vel, að ráðh. vilji lýsa skoðunum sínum og hver ríkisstj. vilji gefa stefnumarkandi yfirlýsingu, alveg á sama hátt og fyrrv. ríkisstj. gerði það, og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að minna á þá stefnumörkun, sem fyrrv. ríkisstj. hafði í þessum efnum. Hún fór ekki fram á það, að samþ. yrði þáltill. um það, en því var lýst yfir af fyrrv. ríkisstj., að stefnt skyldi að virkjun stórfljóta landsins, byggingu stórra orkuvera, sem yrðu grundvöllur fjölþættrar iðnvæðingar í landinu, orkuver landsins yrðu eign Íslendinga, en til þess að virkja mætti í stórum stíl og undir lántöku yrði risið á sem hagkvæmastan hátt, sem tryggði ódýrari raforku, og til þess að styrkari stoðum væri rennt undir atvinnulíf landsmanna, yrði erlendu fjármagni veitt aðild að stóriðju, ef hagkvæmt þætti samkvæmt mati hverju sinni og landsmenn brysti fjárhagslegt bolmagn eða aðstöðu til framkvæmda. Meiningin var að meta þetta á hverjum tíma, og að sjálfsögðu af Alþ., hvort ástæða þætti til að stofna til fyrirtækja með erlendum aðilum. Við gerðum það á þennan hátt með Kísiliðjuna, sem er miklu minna fyrirtæki en álbræðslan, en þar er ríkissjóður með meirihlutaaðild. Hins vegar varð það niðurstaðan á sínum tíma, að álbræðslan yrði eingöngu í höndum erlendra aðila. Hér var á það litið, að um slíkan iðnað er að ræða, að mörg þrep hans eru í höndum eins aðila, allt frá því að álið er unnið úr jarðefnunum. Þessir aðilar hafa einnig álmarkaðinn erlendis, sem mjög miklu máli skiptir. Við Kísiliðjuna var þá einnig hafður sá háttur, að stofnað var samhliða sjálfri iðjunni markaðsfyrirtæki, sem útlendingarnir ráða sjálfir mestu um og hafa í höndum sér markaðinn erlendis, en hann er talinn mjög viðkvæmur í þessari framleiðslu.

Það er margar leiðir hægt að fara í þessu sambandi, og það er ekkert aðalatriði fyrir okkur Íslendinga, eins og stundum heyrist nú sagt og hæstv. iðnrh. hefur lagt áherslu á, að við þurfum endilega í upphafi að vera meirihlutaaðilar í fyrirtækjunum. Iðulega þegar rætt hefur verið um samvinnu við erlenda aðila, þá hefur það verið gert í þeirri veru, að Íslendingar eignuðust á tilteknu árabili, t.d. 5–10 ára bili, meiri hl. í fyrirtækjunum eða kannske á lengra árabili, 10–15 árum, allt fyrirtækið, þegar útlendingarnir, sem settu fjármagnið í fyrirtækið, teldu, að þeir væru búnir að afskrifa fyrirtækið á þeirra mælikvarða.

Ég álít, að við þurfum að haga okkar ráði eftir aðstæðum á hverjum tíma og þess vegna sé mjög erfitt fyrir alþm. að binda sig við tiltekna stefnuyfirlýsingu eins og þessa þál. hér og reyndar óþarft. Þetta er algjörlega óþarft. Ríkisstj. getur tilkynnt okkur og öðrum aðilum, að hverju hún vilji stefna í þessu sambandi, og síðan er eðlilegt og hægt að framkvæma samninga við landshlutaveitur og aðra aðila í landinu á grundvelli þeirrar löggjafar, sem fyrir hendi er, og með endurskoðun orkulaga. Það er mikið vandaverk að endurskoða orkulögin, og þá kemur fyrst til með að reyna á það, hvernig menn vilja hafa ákvæði orkulaga í einstökum tilfellum, þegar maður hefur frv. í þeim efnum, en ekki svona almenna ályktun, eins og hér um ræðir.

Það er heldur ekkert nýtt að leiða orkuna um landið. Þegar hæstv. ráðh. segir, að það sé nú meiningin að ljúka rafvæðingu sveitanna á þrem árum, er hann að tala um áætlun, sem var fyrir hendi, áður en fyrrv. ríkisstj. lét af völdum. Hún var þá til fjögurra ára, en það þótti nú eitthvað mannalegra að segja, við skulum gera þetta á þrem árum, og það er ágætt, ef það lukkast. Heyrt hef ég suma segja, að þó að það hafi verið orðað þannig, þá hafi nú ekki verið gert ráð fyrir því, að það mundi verða gert á skemmri tíma en á fjórum árum, en þessi áætlun lá fyrir, þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og þess vegna finnst mér ekki, að í þessari þáltill. sé nein ný boðun að öðru leyti en því, — og það er það, sem ég óttast, — að það er þessi keimur miðstjórnarvaldsins. Ég legg áherzlu á það, að rafvæðingin og orkuverin hafa í raun og veru sprottið upp fyrir frumkvæði sveitarfélaganna, og við skulum segja, það er eðlilegt. Reykjavík hefur kannske verið afkastamest af sveitarfélögunum á þessu sviði, enda þar mest fjölmennið, og síðan hefur virkjun Reykjavíkur þróazt upp í það að verða virkjun Reykjavíkur og ríkisins. Það var einnig gert ráð fyrir hugsanlegri eign Laxárvirkjunar í Landsvirkjun, eins og frá þeirri löggjöf var gengið á sínum tíma. Allt þetta kemur að sjálfsögðu til álita. Ég held, að við þurfum ekki á því að halda að slá því föstu fyrir fram með neinni þál., eins og hér er um að ræða, heldur eigum að þróa málin í samkomulagi við sveitarfélögin og hinar einstöku orkuveitur. Við þurfum þá í því sambandi alveg nauðsynlega að hafa í hyggju endurskoðun á vatnalögum, því að annars getum við búizt við stöðugum og sífelldum árekstrum út af slíkri löggjöf, ef ekki er reynt að samræma hana kröfum tímans, þeim kröfum, sem nútíminn gerir í þessu sambandi, og 50 ára löggjöf á þessu sviði er af ýmsum ástæðum og eðlilega orðin úrelt.

Ég segi svo að lokum, að það er ekki nema góðra gjalda vert að leggja fram svona ályktun. Ýmsar upplýsingar, sem fylgja í grg. og fylgiskjölum, eru nokkurs virði fyrir þm. Sennilega hafa flestir þeirra séð þetta áður í skýrslum frá Orkustofnun eða öðrum aðilum, sem um þessi mál fjalla, en það er engu að siður gagnlegt, að þessar upplýsingar liggi fyrir. Við höfum venjulega farið þá leið að virkja sjálfir fram til þessa, Íslendingar, þó að við höfum selt erlendum aðilum orkuna. Nú er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að virkja að einhverju leyti í samvinnu við erlenda aðila. Ef við hugsum t.d. til Austurlandsvirkjunar, þar sem við getum virkjað stórkostlega virkjun, sem hefði nógu mikið afl til fjölda álbræðslna, þá væri ekkert að því, að við, sem erum alltaf í fjármagnsskorti sjálfir, notuðum erlent fjármagn til þess að aðstoða okkur við virkjanirnar, en semdum um það um leið, að við eignuðumst þessar virkjanir smátt og smátt og á skömmum tíma. Við hefðum kannske þannig alveg jafnmikinn hag af því eins og ef við værum að brjótast í þessu einir út af fyrir okkur og yrðum þá að sjálfsögðu að takmarka okkur við okkar takmarkaða fjármagn, þannig að við værum bæði lengur að virkja og tækjum fjármagnið kannske frá öðrum framkvæmdum, sem þá á hverjum tíma væri eins gott að hafa lausar hendur við, við skulum segja í uppbyggingu hraðfrystihúsanna, uppbyggingu skipastólsins o.s.frv.

Ég vildi mega vænta þess, að það þyrftu ekki að verða miklar deilur á Alþ. um virkjunarmál okkar í framtíðinni, og það get ég alveg tekið undir með hæstv. ráðh., en það hefur nú samt sem áður því miður verið þannig, að um þetta hefur áður staðið mikill styrr og það eru mismunandi skoðanir uppi. Við sjálfstæðismenn höfum í tillöguflutningi okkar lagt megináherzlu á það að koma upp landshlutaveitum, og það lágu fyrir samningagerðir frá fyrrv. ríkisstj. um að selja vissar línur eða styrkja héruðin, bæði Vestmannaeyjar og Andakíl. Frá þeim málum er nú ekki gengið. Ég vildi mega vænta þess, að ekki þyrfti að verða ágreiningur um það, og ef menn raunverulega meina það, eins og orðað er hér í þessum till., að koma upp landshlutaveitum, þar sem sjálfstjórn héraðanna er virt, þá er að ganga í það og gera samkomulag við sveitarfélögin um það.

Ég óttast keiminn af því, sem hér kemur fram í fyrstu setningunni. Þetta á allt að vera undir einni hendi. Mér finnst eðlilegra, að á þau sveitarfélög, sem á sínum tíma áttu frumkvæðið að orkuverum og orkuveitum í þessu landi, verði hlustað og við þau verði talað, áður en ákvarðanir eru teknar á þinginu. Það rekur engin nauðsyn til þess að samþykkja svona þál., en hitt er brýnt, að ganga í það að endurskoða orkulögin í samráði við þá aðila, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, þ.e. sveitarfélögin og einstaklingana, sem eiga að nota raforkuna. Þess vegna vildi ég mega vænta þess, að hæstv. ráðh. legði ekki megináherzlu á afgreiðslu þessarar þál. á þessu þingi, heldur gæfi þm. og öðrum aðilum, sem hér eiga um að fjalla, kost á því að athuga, með hverjum hætti verður bezt búið um þessi mál innan ramma nýrrar og endurskoðaðrar orkulöggjafar.