02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í D-deild Alþingistíðinda. (4609)

262. mál, raforkumál

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Á þskj. 590, sem nefnist till. til þál. um raforkumál, er hreyft hvorki meira né minna en stefnumörkun í raforkuvinnslu landsmanna. Hæstv. iðnrh. hefur, eins og hann rakti hér áðan, lagt drög að því, að um þetta mál gætu orðið nokkrar umr., með því að veita þingflokkunum upplýsingar um það, áður en skjalið kom fram, og þakka ég það. Mér sýnist satt að segja undarlegt, hvað þm. hafa þó að því er virðist lítinn áhuga á þessu máli, ef dæma má af þeirri litlu sveit, sem hér hefur setið og hlustað á umr. Ég lít svo á fyrir mitt leyti, að með þessu skjali sé fyrst og fremst verið að móta þá stefnu, sem talin getur verið nauðsynleg til þess að ná því markmiði, sem sett er fram í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., að jafnaðarverð skuli verða eða því sem næst á raforku um land allt. Þetta lít ég á sem meginatriði þessa mikilvæga máls. Til þess að svo megi verða, að þetta jafnaðarverð náist, er ljóst, að virkja verður þar á landinu, sem hagkvæmast er hverju sinni. En ef sú orka, sem þannig er virkjuð, á að koma öllum landsmönnum til nota, er aftur á móti ljóst, að samtenging verður að eiga sér stað á milli allra orkusvæðanna. Þetta eru afleiðingar af því meginmarkmiði, sem ég nefndi áðan.

Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að möguleikar okkar Íslendinga með orku eru gífurlegir. Bæði veldur það, að raforkuverð fer mjög hækkandi á erlendum mörkuðum og vatnsorkan orðin af skornum skammti. T.d. get ég getið þess, að ég las núna fyrir tveimur dögum um athyglisverða athugun, sem gerð hefur verið í Bandaríkjunum á orkuverði þar, og er því spáð, að orkuverð muni tvöfaldast fram til aldamóta, og það er þrátt fyrir það, að kjarnorkan verði tekin í mjög vaxandi mæli til framleiðslu á raforku, og þrátt fyrir það, að kjarnorkuverðið fari frekar lækkandi heldur en hitt. Engu að síður er því þannig spáð, að raforkuverðið tvöfaldist.

Vatnsafl hefur ýmsa kosti fram yfir aðra orku. Vatnsafi hefur t.d. þann stóra kost, að það veldur ekki mengun eða röskun á umhverfi, sem yfirleitt öll önnur orkuframleiðsla gerir og er stórkostlegur liður í þeirri hækkun raforkuverðs, sem talin er vera fram undan. En vatnsafl er, eins og ég sagði áðan, á þrotum víða. T.d. mun vera væntanleg í Noregi till. frá ríkisstj. þar um nýtingu þess vatnsafls, sem Norðmenn eiga eftir, og er þar talið, að það vatnsafl verði þrotið, sem vel er virkjanlegt, um eða eftir 1980.

En það er fleira athyglisvert í þessari áætlun Norðmanna. Þeir eru að bollaleggja að leggja til hliðar u.þ.b. 20–25% af vatnsafli landsins af umhverfisástæðum, þar eð þeir telja, að ekki sé rétt að leggja undir vatn þau svæði, sem þar er um að ræða. Við Íslendingar höfum hins vegar aðeins notfært okkur um það bil 8% af því vatnsafli, sem virkjanlegt er með sæmilega góðu móti, þótt eitthvað sé það mismunandi ódýrt og hagkvæmt, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., og það má vel vera, að það sé einhver hluti, sem ætti að setja til hliðar, en engu að síður er ljóst, að við eigum mikið vatnsafl ónotað og mikla möguleika þar. Þörf okkar er einnig gífurleg. Það er staðreynd. Það hefur verið minnzt á upphitun húsa, og get ég tekið undir hvert orð, sem þar hefur verið sagt. Það er einnig staðreynd, að olía verður stöðugt dýrari í heiminum, hækkar óðum, og verður því þörf okkar fyrir annan og hagkvæmari orkugjafa enn meiri. Það er einnig sannfæring mín, að raforka sé ekki nýtt nálægt því eins og unnt væri í ýmsum innlendum iðnaði. Ég get nefnt það sem dæmi, að athugun, sem gerð var á Akureyri, fyrir verksmiðjuna Iðunni þar, leiddi í ljós, að það var hagkvæmara að nota raforkuknúinn ketil til gufuframleiðslu en olíu. Áburðarverksmiðjan gerði svipaða athugun, og kom það sama í ljós, að hagkvæmara var að nota raforkuna, meðan raforkuverðið var um 40 aurar hver kwst. miðað við það verð á hráolíu, sem nú er. Og þetta er ekki lágt verð. Það er sannfæring mín, að ef skipulega væri leitað í íslenzkum iðnaði, þá væri víða um að ræða stórt álag, sem vel mætti færa yfir á raforkunotkun.

Það hefur verið minnzt hér nokkuð á orkufrekan iðnað, og er það að vonum, því að að sjálfsögðu aukast okkar möguleikar á þessu sviði eftir því sem raforka verður kostnaðarmeiri erlendis. Og ég geri ráð fyrir því og veit, að það er stefna hæstv. ríkisstj. að efla orkufrekan iðnað eins og frekast er unnt og eins og raforkuframleiðslan leyfir okkur og nauðsynlegt kann að vera til þess að fá sem bezta nýtingu út úr hverju einstöku skrefi í virkjun okkar fallvatna. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að fara út í ítarlegar umr. hér um orkufrekan iðnað, ekkert fremur en um almenna notkun orkunnar innanlands. Á báðum sviðunum er þörfin gífurlega mikil, það vitum við, og er það ein af meginástæðunum fyrir því, að rétt er að líta á skipulag þessara mála vel og vandlega. Spurningin í mínum huga er því sú, hvaða skipulag sé rétt og eðlilegt á orkuvinnslu landsins, raforkuvinnslu landsmanna til þess að ná því meginmarkmiði, sem ég nefndi áðan, jafnaðarverði á orku um land allt og fullnægja því, sem nauðsynlegt er vegna þeirra þarfa og möguleika, sem ég hef nú rakið.

Það er sannfæring mín, að heildaryfirsýn yfir orkuvinnslu landsins sé nauðsynleg. Ég get ekki fallizt á það, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að fremur ætti að skipta upp orkudreifingunni enn meira en nú er en sameina hana í eitt. Það er sannfæring mín, að einhver einn aðili þarf að gera þær athuganir og áætlanir, sem hljóta að verða lagðar til grundvallar, þegar virkjunarstaðir eru valdir, og hinar ýmsu leiðir til dreifingar raforku og jafnaðarverð ákveðið. Ég sakna þess t.d. hér, að ekki skuli vera unnið að heildaráætlun fyrir raforkuvinnslu í landinu, eins og Norðmenn eru nú að leggja fram. Það er sannfæring mín, að slík athugun muni leiða í ljós, að á vissum stöðum er ekki rétt að virkja eins og ráðgert hefur verið, og a.m.k. er vafalaust, að slík athugun hefði getað komið í veg fyrir þau leiðindi, sem orðið hafa við Laxá fyrir norðan, og e.t.v. hefði slík athugun, ef fyrr hefði legið fyrir, komið í veg fyrir ýmiss konar vandræði, sem af því munu hljótast, ef ekki verður talið rétt að leggja Þjórsárver undir vatn. Mývatn og Þjórsárver eru tvö stór svæði með mjög sérstæða líffræði, sem nauðsynlegt er að athuga vandlega og átti að athuga, áður en nokkrar áætlanir voru gerðar um virkjanir fallvatna, sem á þessum svæðum eiga uppsprettur sínar. Ef ákveðið verður að leggja ekki Þjórsárver undir vatn, er ljóst, að nálægt því allar áætlanir um virkjanir Þjórsár riðlast, og má vel vera, ef svo hefði verið ljóst fyrr, að aðrar ákvarðanir og aðrar framkvæmdir hefðu verið teknar og gerðar í þessu sambandi. Vel má t.d. vera, að heildaryfirsýn yfir orkuvinnslu landsins leiddi í ljós, að skynsamlegra væri að leggja meiri áherslu á stórar virkjanir á Norðausturlandi, sem hafa verið í athugun, en á Þjórsárvirkjanirnar til stóriðjuframkvæmda. Ég held því, að varla geti verið um það nokkrar deilur, að í okkar litla og fámenna landi er heildaryfirsýn yfir orkuvinnsluna, dreifingu hennar og nýtingu höfuðnauðsyn og grundvallaratriði.

Ég fyrir mitt leyti get einnig fallizt á þá skoðun, sem fram kemur í þáltill., að rétt sé að sameina meira en verið hefur hin ýmsu smáu fyrirtæki sveitarfélaga í öllum landshlutum. Ég hygg, að það sé þeim til góðs. Ég er sannfærður um það. Ég er hins vegar ekki sannfærður um það enn, að nauðsynlegt sé, að hið opinbera eigi minnst 50% í slíkum landshlutafyrirtækjum, til þess að sú samræming, sem gert er ráð fyrir að hér fari fram, nái fram að ganga. Þetta er eitt atriði, sem ég fyrir mitt leyti vil skoða betur. Ef svo skyldi reynast eftir ítarlega og vandlega athugun, að þetta væri nauðsynlegt til þess að ná því meginmarkmiði, sem ég nefndi áðan, jafnaðarverði og skipulegri nýtingu raforkunnar í landinu, þá get ég fyrir mitt leyti fallizt á þetta. Ég tel þetta þá aukaatriði. Hins vegar fæ ég ekki að svo komnu máli séð, að það samstarf og sú samræming, sem ég hef nú rakið nokkrum orðum og tel nauðsynlega, fáist ekki án þess að þetta skilyrði sé sett. Ég vil aðeins geta þess í þessu sambandi, að ég sakna þess í þessari ágætu og fróðlegu þáltill., að ekki er þar minnzt nema lítið eitt á Landsvirkjun. Hvar á Landsvirkjun að falla inn í þessa mynd, sem hér er um að ræða? Landsvirkjun er að sjálfsögðu langsamlega stærsti raforkuframleiðandi landsins og með langsamlega stærstar framkvæmdir á sinni könnu, en þær framkvæmdir hafa raunar verið að verulegu leyti fyrir utan allt heildarskipulag á raforkuframleiðslu landsmanna og nýtingu okkar vatnsafls. Það er alveg ljóst, að Landsvirkjun verður að falla inn í þessa mynd, og það er ekki siður nauðsynlegt að marka stefnu að þessu leyti nú en hverja aðra stefnu í skipulagi raforkumála.

Ég get dregið saman niðurstöður mínar af þessum fáu orðum með því að leggja enn áherzlu á, að ég tel það megintilganginn með þessari þáltill. að ná jafnaðarverði og lágu verði fyrir landsmenn alla á raforku. Það er megintilgangurinn. Og það er grundvöllur þess, að raforkan verði notuð í vaxandi mæli til upphitunar, til íslenzks iðnaðar, eins og ég minntist á áðan, og til fjölmargra fleiri þarfa landsmanna sjálfra. Það er einnig grundvöllur þess, að raforkan verði nýtt í orkufrekan iðnað, þannig að skynsamlegt sé og ekki spilli fyrir framtíðarþróun. Þetta eru grundvallaratriðin.

Skipulagsmálin þarf að taka til endurskoðunar til þess að fullnægja þessum grundvallaratriðum, og mér sýnist sú þáltill., sem hér er lögð fram, skapa mjög góðan vettvang til slíkra umr., og þær þurfa að fara hér fram, og Alþ. þarf fyrr en síðar að móta ákveðna stefnu og vilja sinn í þessu máli.