14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

1. mál, fjárlög 1972

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Í dag er 14. des. og á dagskrá Sþ. er frv. til fjárlaga fyrir árið 1972, 2. umr. Við þm. Sjálfstfl. skutum á skyndifundi nú, áður en þessi fundur í þinginu hófst. Í framhaldi af því kveð ég mér hljóðs um þingsköp, þar sem athugasemd mín snertir mikilvæg önnur mál en fjárlagafrv. Í gær var útbýtt í þinginu þremur stjfrv. um hin flóknustu málefni, frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga og frv. til laga um almannatryggingar. Stjórnarandstaðan hefur enga aðstöðu haft til þess að fylgjast með undirbúningi þessara frv. Mér er nær að halda, að hv. þm. stjórnarliðsins hafi einnig hinar fátæklegustu hugmyndir um það, hvað í þeim felst.

Aldrei fyrr hefur, svo að ég viti, verið flaustrað eins af afgreiðslu fjárlaga og nú. Segja má, að 2. umr. geti verið lítið annað en til málamynda að því leyti, hversu mikil óvissa ríkir um veigamestu þætti fjármálanna. Það eru þó aðeins nokkrir dagar til jóla, þegar venja er að gera hlé á störfum þingsins. Sagt er, að á tekjuöflun skorti allt að 2 000 millj. kr. til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hæstv. ríkisstj. hefur stofnað til eða verður að mæta. Útilokað er að afgreiða tekjuöflunarfrv. fyrir jólahlé. Ég held, að það sé einsdæmi, enda ekki verjandi að afgreiða fjárlög þannig, að ekki sé hægt að styðjast við tekjuöflunarlög, sem svara til útgjalda þeirra. Slíkt er óvirðing við Alþ. og óvirðing við þjóðfélagsþegnana. Sveitarstjórnir geta að sjálfsögðu með engu móti afgreitt fjárhagsáætlanir sínar fyrir næsta ár á þessu ári, eins og venja hefur verið t.d. í höfuðborginni Reykjavík, þar sem þær hafa ekki lög við að styðjast.

Að öðru leyti en nú er sagt skal ég, herra forseti, hafa mál mitt ádeilulaust, enda skortir míg, eins og aðra hv. þm., að hafa haft aðstöðu til þeirrar athugunar mála að efni til. sem eðli þeirra krefst. Ég leyfi mér hér með, hæstv. forsrh., að lýsa þeirri skoðun þm. Sjálfstfl., að ekki sé verjandi, að afgreiðsla fjárlaga fari nú fram, eins og til er stofnað, og sérstaklega meðan afgreiðsla tekjuöflunarfrv. hefur ekki farið fram. Að öðru leyti gætum við nú afgr. á örfáum dögum það af málum, sem bráðnauðsynlegt er að afgreiðslu hljóti og hægt er að ætlast til, að hv. þm. hafi aðstöðu til að marka afstöðu sína til. Ljúka mætti þessari 2. umr. fjárlagafrv., en láta þar staðar numið. Ég ætlast ekki til þess, að hæstv. forsrh. svari nú um hæl þessum mótmælum þm. Sjálfstfl., því telja verður eðlilegt, að hann fái tóm til þess að kalla saman fund í hæstv. ríkisstj., en stjórnarandstaðan ætti nú í dag að geta fengið vitneskju um afstöðu hæstv. ríkisstj. í þessu máli.