02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í D-deild Alþingistíðinda. (4611)

262. mál, raforkumál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af aths., sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. En hann lét í ljós nokkra undrun yfir því, að nefndin, sem sett hafði verið til þess að endurskoða vatnalögin, skyldi hafa verið lögð niður. Þar sem ég ber ábyrgð á þessari ákvörðun, vil ég gera grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem lágu þar að baki.

Þegar þessi ákvörðun var tekin, stóð svo á, eins og hv. þm. er nú kunnugt um, að það höfðu risið hér á landi allmörg málaferli, að hægt er að segja, um stefnuatriði eða „prinsip“-mál í sambandi við það efni, sem vatnalögin fjalla um og skilning á ýmsum ákvæðum þeirra. Ég nefni t.d. mál um Mývatn, ég nefni mál, sem hér hefur risið sunnanlands um rétt til vatna á afréttum eða almenningum, og enn fremur eru enn í gangi málaferli vegna Laxárvirkjunar. Þegar þannig stóð á, þá taldi ég ekki rétt að fara að efna til endurskoðunar á vatnalögunum fyrr en fyrir lægju úrlausnir dómstóla um þessi atriði. Mér fannst óeðlilegt að fara, eins og hefði mátt segja, að gripa að nokkru leyti fram fyrir hendurnar á dómstólum í þessu efni, og eins og hv. þm. vék að, voru t.d. í þessari nefnd, sem var skipuð hinum ágætustu mönnum, einn hæstaréttardómari, annar sérfræðingur í eignarrétti, sem oft situr sem varadómari í Hæstarétti og hefur m.a. að ég hygg setið eitthvað í þessum svokölluðu Laxármálum. Ég held, að það hefði verið óheppilegt, að þessir aðilar og aðrir hefðu farið að setja eitthvað á blað um þessi efni, sem dómar eiga eftir að ganga um. Og það hefði e.t.v. getað vakið upp einhverja tortryggni, að þeir hefðu þar farið að halda fram einhverjum sjónarmiðum, sem að einhverju leyti hefðu komið inn á þessi efni, sem um er deilt í þessu sambandi. Þetta var fyrst og fremst ástæðan til þess, að ég taldi rétt að fella þessa endurskoðun niður að sinni, og reyndar hef ég ástæðu til að álíta vegna annarra ummæla, sem féllu hjá hv. þm., að hann sé mér ekki ósammála um þetta atriði í sjálfu sér.

Ég viðurkenni, að það hefði auðvitað mátt hafa annan hátt á í þessu efni, sem sagt að gera ráð fyrir því við þessa nefnd, að hún bara frestaði sínum störfum og léti ekki frá sér fara mikið, á meðan á þessum málaferlum stæði. En þessi málaferli geta staðið nokkur ár, og það er nú svona heldur áhugi fyrir því að fækka nefndum hefur mér skilizt, og ég hefði ekki talið það eðlilegt að láta svona nefnd vera til á pappírnum, svo að árum skipti, án þess að hún gerði neitt.

Þetta eru sem sagt ástæðurnar fyrir því, að þessi nefnd var lögð niður, en ekki það, að ég sé þeirrar skoðunar, að vanþörf sé á endurskoðun vatnalaga. Ég fellst alveg á, að það geti verið ástæða til þess að endurskoða þau. En sú endurskoðun er sjálfsagt mikið vandaverk. Setning vatnalaga reyndist nú ekkert auðveld á sínum tíma, því að það voru ærið skiptar skoðanir uppi um það efni, og ég býst satt að segja við eftir því, hvernig orð falla enn í dag, að það séu í landinu æði skiptar skoðanir um ýmis „prinsip“-atriði í sambandi við vatnalög og eignarrétt á vötnum. En auðvitað þarf að skoða þetta, og það verður væntanlega gert, hvort sem það verð ég eða einhver annar, sem á sínum tíma stofnar til þeirrar endurskoðunar. En ég álít, að það sé skynsamlegra, að þá liggi fyrir niðurstöður dómstóla til leiðbeiningar um þessi meginatriði, sem um var deilt.

Annað vildi ég ekki segja. Ég skal ekki fara að blanda mér hér í umr. um þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Það liggur í hlutarins eðli, að ég er sammála þeirri meginstefnu, sem í henni felst.