02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í D-deild Alþingistíðinda. (4614)

262. mál, raforkumál

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil fyrst svara tveimur fsp., sem hv. þm. Magnús Jónsson beindi hér til mín. Hann spurði mig, hvort þessar till. væru till. þeirra sjö manna, sem nefndir eru í grg. till., eða hvort það væru till. mínar. Þetta eru að sjálfsögðu till. ríkisstj. Þær eru unnar í mínu rn. með tilstyrk þessara sjö ágætu manna. Eins og ég sagði áðan, voru þeir persónulegir ráðgjafar mínir í þessu máli. Ég ráðgaðist við þá, ég sagði þeim frá mínum hugmyndum, þeir sögðu mér frá sínum hugmyndum, og að sjálfsögðu eru þeir allir sammála þeirri stefnu, sem í till. felst. Ég held, að það geti enginn áfellzt mig fyrir, að ég hafi valið í þessa nefnd út frá einhverjum pólitískum sjónarmiðum. (Gripið fram í.) Nei, en ég verð að lýsa yfir sérstakri undrun minni á því, að ég sá það í Morgunblaðinu á dögunum, að í þessari till. kæmi fram einhver vinstri afturhaldsstefna. Mér þykir það dálítið einkennilegt, ef það er orðin afstaða Sjálfstfl. eða mat Sjálfstfl. á mönnum, að til að mynda menn eins og dr. Jóhannes Nordal og Árni Snævarr séu orðnir vinstri afturhaldsmenn.

Í annan stað spurði hv. þm. Magnús Jónsson um það, hvort þetta væri flutt hér sem einhvers konar skoðanakönnun, hvort þetta væri líkt því, þegar hann flutti á sínum tíma þáltill. um staðgreiðslukerfi skatta og mælti með og móti og hafði eiginlega enga fastmótaða stefnu sjálfur. Sú er ekki raunin. Þessi þáltill. er flutt af ríkisstj. En ríkisstj. telur það ákaflega mikilvægt, að framtíðarstefnan sé mótuð af Alþ. einmitt nú. Eins og hv. þm. Magnús Jónsson tók fram, eru það margir fleiri aðilar en ríkið, sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í þessu sambandi. Þar er um að ræða sveitarfélög, þar er um að ræða einkarafveitur. Það verður mikið og flókið mál að semja við þessa aðila og ná sameiginlegri niðurstöðu í viðræðum við þá. Og einmitt þess vegna eru það að minni hyggju rétt þingræðisleg og lýðræðisleg vinnubrögð, að hér sé mótuð heildarstefna í þessum málum og síðan verði farið í það að reyna að framkvæma þá stefnu í verki.

Ég tel ekki, að ég sé að fara fram á það, að Alþ. afgreiði þetta mál af neinum flumbruskap. Eins og ég hef getið um áður, sendi ég þingflokkunum öllum handrit af þessu fyrir mánuði, að ég hygg, og ég talaði við þm. í öllum flokkum, að ég hygg, og fór fram á það, að þeir létu mig vita, ef það væru einhver atriði, sem þeir hefðu hug á að breyta, og ég sagðist vera mjög fús til samvinnu um þessi mál. Þingflokkarnir hafa haft þetta mál til umr. hjá sér um langan tíma, og ég vænti þess, að þeir hafi notað þann tíma vel.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., það er engin byltingarstefna boðuð í þessari till. Þarna er um að ræða fjölmörg atriði, sem við höfum rætt um á undanförnum árum og ég veit ekki til þess, að neinn ágreiningur sé um. Það er ekki verið að fara þvert á hluti, sem verið hafa að gerast að undanförnu, síður en svo. Þetta er í ákaflega eðlilegu samhengi við þá þróun, sem hefur verið hér á Íslandi núna í aldarfjórðung. Ef þetta væri eitthvert algert nýmæli, eitthvað, sem kæmi þvert á það, sem tíðkazt hefur að undanförnu, þá skildi ég það, að hv. þm. þyrftu að hugsa sig dálítið mikið um. En sú er sannarlega ekki raunin. Ég tel ákaflega mikla nauðsyn á því, að framkvæmdum í þessum málum sé hraðað eftir megni. Ég geri mér það ljóst, að þau hljóta að taka langan tíma. En ég segi fyrir mig, ég vil mjög gjarnan geta notað sumarið í sumar til þess að þoka fram því, sem hægt er að þoka fram í sambandi við þessi mál. Og mér finnst alls ekki vera farið fram á mikið að ætlast til þess, að Alþ. móti heildarstefnuna í þessum málum. Síðan mun reyna á fjölmörg framkvæmdaatriði í sambandi við óhjákvæmilega lagasetningu varðandi þessi mál, og að sjálfsögðu verður haft samband við Alþ. um alla slíka þætti. Það má vel vera, að reynslan sýni okkur það, að við þurfum að breyta einhverju í þessu. En það, sem við getum gert núna, er að móta þá heildarstefnu, sem við teljum sannasta og réttasta eins og þekking okkar og reynsla sýnir okkur núna, þannig að ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut því til fyrirstöðu, að hægt sé að afgreiða þessa till. á þessu þingi, og mér finnst ekki, að ég sé þar með neina tilætlunarsemi við hv. þm.