17.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í D-deild Alþingistíðinda. (4645)

69. mál, niðurfelling fasteignaskatts af íbúðum aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir að hafa vakið máls á þessum þýðingarmiklu málum, þar sem um er að ræða málefni aldraðra hér á landi, og þótt ekki hefði verið nema vegna till. sjálfrar, þá er full ástæða fyrir mig að fara nokkrum orðum um hana, sérstaklega vegna þess, að ég hef nú um nokkuð langt árabil haft nokkuð með þessi mál að gera á vegum frjálsra félagasamtaka, sem hafa starfað að þessum málum.

Þegar maður horfir á till. sjálfa sem slíka, þá auðvitað hlýtur fyrsta spurningin að vera sú, hvort hægt sé að fara í kringum þann tilgang, sem ætlazt er til með till. sjálfri. Væri hægt að hugsa sér, að aldrað fólk, sem enn þá býr kannske í allt of stórri íbúð, stærri íbúð en það þarf að nota, ef það nyti slíkra fríðinda, að það mundi kannske losna við að borga skatta? Hins vegar er um eina leið að ræða í þessu nauðsynlega máli, eins og hv. þm. benti réttilega á, til þess að aldrað fólk geti sem lengst dvalizt á sínum heimilum, og auðvitað ber að stuðla að því af fremsta megni, þótt ég hins vegar dragi mjög í efa þau orð hv. þm., að það séu miklu fleiri, sem vilja búa í eigin íbúðum en á nútíma dvalarheimili, eins og þau eru rekin í dag, einfaldlega vegna þess, að ég hef rekið mig á það sjálfur, að það er ekki allt gleypandi hrátt, þótt komið sé frá Norðurlöndum eða nágrannaþjóðum. Íslendingar hugsa nokkuð öðruvísi.

Ég tek alveg undir orð hv. þm. um það, að elliheimili séu ekki fullnægjandi lausn fyrir aldraða. En ef hv. þm. vissu um það, að elliheimilin, þau, sem eru starfrækt hér á landi, eru eina lausnin fyrir gamla fólkið á Íslandi í dag, þá býst ég við, að það mundi a.m.k. verða skoðun margra, að við ættum frekar að snúa okkur af alhug og stórhug að því að leysa það vandamál, áður en við snúum okkur að öðrum. En ég tek undir það með hv. þm., að það finnast margar leiðir til þess einmitt að létta á þessari miklu þörf, og hv. 12. þm. Reykv. hefur hér bent á eina leið í sinni till. Auk þess kom hún inn á ákaflega, ég vil ekki aðeins segja þýðingarmikla heldur athyglisverða hluti, sem hún benti á í sinni framsöguræðu og reyndar hefur hér verið unnið að nokkuð og þó kannske sérstaklega hjá Reykjavíkurborg. Þar á ég við heimilishjálpina og jafnvel heimilishjúkrun, þótt því miður hafi enn orðið minna um, að eitt af þeim stóru verkefnum á þessu sviði, þ.e. matseld fyrir aldraða eða matarsendingar, kæmist til framkvæmda.

En það, sem aðallega fékk mig til þess að standa upp, voru orð hennar um dagheimili aldraðra. Þegar ég sá þessa till. til þál., sem ég sá nú ekki fyrr en nú fyrir tveimur dögum vegna fjarveru minnar síðustu viku, þá sá ég, að þetta sparaði mér sjálfum tillöguflutning hér á Alþ. á þann veg, að þarna er auðvelt að koma einfaldri brtt. við, vegna þess að nú ekki alls fyrir löngu lagði ég þá till. fyrir ráðamenn Reykjavíkurborgar, að Reykjavíkurborg riði á vaðið um það að koma slíkri stofnun á fót. Þetta var gert af ákveðnu tilefni, en það er, að hús, sem á sínum tíma var reist af miklum stórhug fyrir verkamenn hér í höfuðborginni, virðist vera búið að glata þeim tilgangi sínum, og á ég hér við Hafnarbúðir, sem standa við Reykjavíkurhöfn, en mér virðist einsætt, að þar sé um alla þá aðstöðu að ræða, sem hægt væri að gera þessa tilraun hér á landi með. Og að sjálfsögðu, þegar einhver reynsla væri þar á fengin, þá fyndist mér, að Alþingi Íslendinga ætti að gangast fyrir því, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur og í stærri kaupstöðunum, að slík starfsemi yrði styrkt, eins og gert er nú með börn okkar.

Ég tek alveg heils hugar undir með hv. flm. um nauðsyn þess að koma slíkri þjónustu á fót. Við vitum, að það er fullt af börnum eða fólki, sem á aldraða foreldra eða foreldri, sem vill hafa þetta gamla fólk hjá sér og gamla fólkið vill vera hjá því, en á ekki kost á því vegna þess m.a., að þetta fólk vinnur úti, sem æ færist meira í vöxt hér hjá okkur, eins og reyndar öðrum þjóðum. En einmitt, ef það gæti komið gamla fólkinu í félagsskap við annað gamalt fólk, þar sem umönnun væri fyrir það, þar sem það fengi mat og aðhlynningu, jafnvel hjúkrun, sjúkraþjálfun og aðra þá þjónustu, sem aldraðir þurfa á að halda, þá mundi þessu fólki skapast miklir möguleikar á því að hafa gamla fólkið lengur hjá sér en ella. Það er einmitt þetta atriði, sem við þurfum nú að kanna mjög ítarlega í sambandi við málefni aldraðra hér á landi, enda er reyndar gert ráð fyrir því í þeirri áætlun, sem nú hefur verið gerð um byggingu dvalarheimilis í Hafnarfirði á næstu árum, sem einmitt sjómannadagssamtökin standa að. Það er gert ráð fyrir því, að slík dagheimili verði í sambandi við það heimili auk annarrar þjónustu, svo sem endurhæfingarþjónustu fyrir aldraða, sem líka telst orðin nauðsynleg á vorum dögum. Slík heimili má hugsa sér í sambandi við margs konar aðra opinbera þjónustu, en ég held samt sem áður, að áður en farið verður út í að hugsa það frekar, þá beri að gera þessa tilraun hjá okkur, og ég vænti þess, að Reykjavíkurborg sjái sér fært að gera þessa tilraun í þessu húsi, og a.m.k. vona ég, að þeir, sem að byggingu þess stóðu á sínum tíma, geti frekar hugsað sér þar slíka starfsemi en einhverja aðra, sem jafnvel hefur komið til mála.

Það mætti vissulega margt segja um þetta mál og halda langa tölu um það. Ég vil samt undirstrika það, sem ég sagði áðan, að erlendu sjónarmiðin eru ekki einhlít hér. Ég hef sjálfur rekið mig á það. Og þar á ég t.d. við þá staðreynd, að aldrað fólk á Íslandi virðist vera miklu þrengra í þeirri skoðun sinni að dveljast með sínum næstu en vorir nágrannar, og hef ég kynnt mér það líka á elliheimilum í nágrannalöndum okkar. Það virðist miklu frekar vera sú skoðun uppi hjá stærri hóp íslenzkra aldraðra, að þeir vilji halda áfram að vera út af fyrir sig, vera ekki byrði sínum börnum. Það virðist vera meginhugsunin, vera ekki byrði þeirra. Þar utan kemur líka auðvitað sú stóra ásókn á þessi tvö stóru elliheimili eða dvalarheimili hér í Reykjavík utan af landi. Þar á ég auðvitað við læknisþjónustuna úti um land, en það virðist vera einn meginóttinn, sem þjakar okkar aldraða fólk og það af skiljanlegum ástæðum, bæði þjakar það um leið og það á óskina, ef það kemst hingað, þar sem læknisþjónustan er bezt, að þá muni því líða betur á sínum efstu dögum. Bæði þetta og reyndar fleiri atriði koma inn í þetta, en einmitt vegna þess að við virðumst ekki hafa sömu skoðun á þessu máli, ég og hv. flm., þá held ég, að það væri mikið ráð fyrir Alþ., að sú hv. n., sem málið fær til meðferðar, komi með þá brtt. við till. að fela Alþ. að láta fara fram könnun á vilja gamla fólksins, eins og tveir kaupstaðir, sem mér er kunnugt um, hafa gert. Þar á ég annars vegar við Akranes og hins vegar Hafnarfjörð, sem gert hafa mjög ítarlegar kannanir á vilja og þörf gamla fólksins fyrir heimili eða fyrir aðra aðstoð, nútíma aðstoð. Þetta er ekki nein uppfynding hjá þessum kaupstöðum hér á landi. Ég hef leitað fyrirmyndar í okkar nágrannalöndum, og minnist ég sérstaklega rannsóknar, sem hefur farið fram í útborg Oslóar fyrir nokkrum árum og þeir m.a. byggja sínar framtíðaráætlanir á. Þótt mín störf á þessu sviði hafi aðallega farið til þess að reisa elliheimili, og full þörf er fyrir þau enn þá, þá geri ég mér líka fulla grein fyrir því, að það er langt frá því að vera einhlít lausn, og þar fyrir utan tel ég hreinustu fásinnu að reisa slík heimili í dag öðruvísi en þau standi í sambandi við fjölbýli og læknamiðstöð, sem áætluð er, þar sem fullkomin læknisþjónusta er og fólkið a.m.k. getur notið þess öryggis, sem slík þjónusta veltir.

Varðandi það, sem ég hóf mál mitt á, hvort hætta væri á, að slík framkvæmd, sem þáltill. felur í sér, hvort sú hætta væri fyrir hendi, að slíkt yrði misnotað, vil ég benda á það, að þá væri æskilegt að fylgjast með þeirri þróun og þeirri reynslu, sem fæst af þeirri tilraun, sem verið er að gera um byggingu sérstakra íbúða fyrir aldraða. Reyndar hefur þetta verið áður gert af hendi Reykjavíkurborgar, og nú eru þeir að taka nýtt slíkt heimili í notkun. Það er reyndar verið að gera í nágrenni þeirrar byggingar einnig, en samt sem áður gengur það nokkuð lengra, vegna þess að það fólk, sem þar mun búa í sérstökum íbúðum fyrir aldraða, á tryggingu í því að geta notið aðhlynningar á dvalarheimili á síðara stigi, ef þörf krefur, hjúkrunarheimili og sjúkradeild fyrir aldraða. En það liggur hins vegar ekki fyrir, að aðrir slíkir eigi kost á því.

Ég vil aðeins að lokum, herra forseti, taka undir það, að þessi till. verði samþ. Að sjálfsögðu fer hún til n. Ég vil benda n. á þær aths., sem hér hafa komið fram og á þýðingu þessara mála fyrir okkar þjóðfélag í dag, þjóðfélagið í heild og þá kannske ekki sízt fyrir hið aldraða fólk, sem, eins og hv. flm. réttilega benti á, hefur skilað sínu þýðingarmikla dagsverki fyrir íslenzka þjóð.