14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í D-deild Alþingistíðinda. (4655)

208. mál, Tækniskóli Íslands á Akureyri

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 406 till. til þál. um Tækniskóla Íslands á Akureyri. Till. er þess efnis, að Nd. Alþingis álykti að lýsa yfir þeim vilja sínum, að Tækniskóli Íslands verði fluttur frá Reykjavík til Akureyrar, þó þannig, að heimilt verði, ef nauðsynlegt þykir, að starfrækja í Reykjavík undirbúningsdeild og einstakar bekkjardeildir í tengslum við Tækniskóla Íslands á Akureyri.

Till. þessa flutti ég fyrir rúmlega fjórum vikum hér í hv. d., og var það að nokkru leyti að gefnu tilefni, sem ég flutti hana á þeim tíma, vegna bréfs, sem hér barst þá, dags. 29. febr., frá bæjarstjóranum á Akureyri um þessi mál ásamt ýmsum fleiri skjölum þessa máls, og kem ég að þeim síðar. En ég valdi þann kostinn að flytja till. í þessari hv. d., vegna þess að eins og kunnugt er, þá hefur Sþ. mikinn fjölda þáltill. til meðferðar, og ég taldi þess meiri von, að þetta mál kæmist á dagskrá og til meðferðar í n. með því að flytja það í d. heldur en í Sþ. sem ég ella hefði gert. Nú hefur reyndin orðið sú, að nokkur dráttur hefur orðið á því, að till. hafi verið tekin fyrir hér í d., og skal ekki um það sakast.

Lög um Tækniskóla Íslands voru sett hér á hinu háa Alþingi á árinu 1963. Þegar það mál var til meðferðar, bárust um það mjög ákveðnar óskir af Norðurlandi, að þessi nýja skólastofnun yrði staðsett norðanlands og þá á Akureyri, og var talið þá, eins og margir telja nú, að þarna væri tækifæri til þess að láta það sjást í verki, að menn teldu, að stofnanir sem þessi þyrftu ekki endilega að vera til staðar í höfuðborginni. Niðurstaðan varð samt sú eftir allmiklar umræður manna á milli hér á Alþ., að ákveðið var, að Tækniskóli Íslands skyldi vera í Reykjavík, en á Akureyri skyldi setja á stofn undirbúningsdeild og mætti þar einnig starfrækja einstakar bekkjardeildir, en stefna skyldi að því að stofna fullkominn tækniskóla á Akureyri. Þróun málsins hefur svo orðið sú, að tækniskóli var settur á stofn hér í Reykjavík og hefur starfað síðan, en hins vegar hefur ekki verið búið þannig að skólanum hér í Reykjavík, að það sé í rauninni til neinnar frambúðar, þannig að skólinn hafi verulega fest hér rætut. Á Akureyri hefur starfað undirbúningsdeild, a.m.k. flest ár, ef ekki öll ár síðan, en aðrar sérstakar bekkjardeildir hafa ekki starfað þar og ekki verið hafinn neinn undirbúningur af hálfu ríkisstj., að því ég ætla, að setja þar upp fullkominn tækniskóla.

En á Norðurlandi er vakandi áhugi á því, að þessi stofnun verði staðsett á Akureyri, og skal ég í því sambandi t.d. leyfa mér að minna á ályktun frá Fjórðungsþingi Norðlendinga frá 23. okt. 1969, þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá skorar þingið á sömu yfirvöld [þ.e. yfirvöld landsins] og Alþingi að taka til gagngerðrar athugunar, hvort eigi sé rétt að flytja Tækniskóla Íslands til Akureyrar, og bendir á fordæmi annarra þjóða, sérstaklega Norðmanna, þessu máli til stuðnings.“

Enn gerði hið sama Fjórðungsþing Norðlendinga ályktun um þetta mál hinn 10. sept. 1971, á s.l. ári, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi ítrekar þingið fyrri áskoranir Fjórðungssambands Norðlendinga um, að Tækniskóli Íslands verði á Akureyri.“

Og svona til fróðleiks vil ég enn geta þess, þó að það hins vegar varði annað mál, að þar stendur, að tekið sé undir ábendingar um, að væntanlegur fiskiðnskóli verði reistur á Ísafirði.

Á fundi sínum 18. nóv. 1970 gerði bæjarstjórn Akureyrar ályktun um þetta mál, þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af framansögðu og með tilliti til þróunar í nágrannalöndum skorar bæjarstjórn Akureyrar á hæstv. ríkisstjórn Íslands að taka til vandlegrar athugunar, hvort eigi sé rétt og þjóðhagslega hagkvæmt að flytja Tækniskóla Íslands til Akureyrar, svo og eitthvað af starfsemi Háskóla Íslands. Til að auðvelda slíkt býðst bæjarstjórn til að láta ríkinu í té endurgjaldslaust lóðir á mjög hentugum stað á Akureyri fyrir skóla þessa.“

Svipuð ályktun var endurtekin hinn 11. febr. s.l. í bæjarráði Akureyrar.

Í bréfi dagsettu 29. febr. s.l., sem ég nefndi áðan og mér barst í hendur og að ég ætla fleiri þm„ er mjög ítarleg grg. um þetta mál, sem bæjarstjórinn á Akureyri hefur tekið saman fyrir hönd bæjarstjórnarinnar þar og þeirra annarra aðila fyrir norðan, sem beitt hafa sér fyrir þessu máli. Ég vil leyfa mér, af því að ég get ekki gert betur grein fyrir þessu máli en þar er gert, að lesa upp hér fyrir hv. þd. nokkra kafla úr þessari grg., og ég vil biðja hv. þm., sérstaklega ef einhverjir kynnu að vera, sem telja það fráleitt að gera þá breytingu, sem farið er fram á í till., að taka vel eftir þeim rökum fyrir þessu máli, sem fram koma í þessari grg. Þar stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun undirritaðs, [bæjarstjórans] og þeirra, sem að ályktunum þessum standa, [bæjarstjórnar Akureyrar, bæjarráðs Akureyrar og Fjórðungssambands Norðlendinga o.fl.] að þessi aðgerð [flutningur Tækniskólans til Akureyrar] muni verða sú áhrifaríkasta, sem hugsazt getur til að stuðla að þeirri eflingu Norðurlands, sem flestir virðast sammála um, að nauðsynleg sé, a.m.k. þegar samdar eru stefnuskrár stjórnmálaflokka og málefnasamningar gerðir. Raunar tel ég, að allir Íslendingar vilji, að landið byggist upp á skynsamlegan hátt, þannig að lífvænlegar byggðir blómgist og bæirnir úti um land verði þróttmiklar miðstöðvar atvinnulífs og þjónustu, en sá hugsunarháttur virðist því miður vera algengur, a.m.k. suðvestanlands og meðal ráðamanna, að uppbygging úti á landi eigi eingöngu að felast í vaxandi útgerð, vinnslu landbúnaðarafurða og bættu samgöngukerfi. Þetta eru vissulega nauðsynlegir þættir uppbyggingarinnar, en þeir munu vissulega ekki duga til í háþróuðu þjóðfélagi, þar sem meiri hluti ungmenna velur sér starfssvið í greinum iðnaðar og þjónustu, og munu því velja sér bústað þar, sem slík atvinnutækifæri bjóðast. Þessi hugsunarháttur, að landsbyggðin eigi að hugsa um fisk og kjöt, en Reykjavík um allt hitt, minnir vissulega á heimsveldishugsjón Kiplings, þar sem Reykjavík virðist eiga að gegna hlutverki Stóra-Bretlands, en landsbyggðin nýlendnanna.

Á árunum 1972 til 1980 munu um 39 300 manns á Íslandi ná tvítugsaldri. Þetta er u.þ.b. fimmtungur þjóðarinnar. Líklegt er, að fjórðungur til þriðjungur þessa fólks, eða 10–14 þúsund manns, muni setjast að annars staðar en þar, sem það er uppalið. Þessi hópur hefur aldrei í sögu þjóðarinnar verið eins stór, og að líkindum mun hann aldrei verða hlutfallslega eins stór aftur.“ Ég vil skjóta því hér inn, að það liggur í því, að fæðingartalan hefur lækkað til muna síðustu árin og útflutningur aukizt. „Það, hvar þetta fólk sezt að, mun ráða úrslitum um þróun byggðar í landinu um fyrirsjáanlega framtið. Ef að líkum lætur, ef uppbygging stóriðjufyrirtækja og opinberra stofnana, svo sem æðri menntastofnana, einskorðast við höfuðhorgarsvæðið, mun þetta fólk flest flytja suður. En ef umtalið um jafnvægi í byggð landsins er annað en kosningafagurgali, getur ríkisvaldið haft úrslitaáhrif á búsetuval þess.

Og þá ber að hafa í huga, að einungis lítill hluti þess mun vinna í fiski og kjöti.

Staðsetning opinberra stofnana er það stjórntæki til áhrifa á byggðaþróunina, sem ríkisvaldið hefur fyllilega á valdi sínu og getur þar að auki verið það áhrifamesta og ódýrasta miðað við áhrif. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar séð, svo sem Norðmenn og Svíar, og þegar ríkisstj. sú, sem nú situr, var mynduð, virtust þeir, sem að henni standa, sjá þetta. Þegar þessi mál hafa verið til umr. á undanförnum árum, þegar nýjar stofnanir hafa verið settar á fót, hefur hagkvæmnissjónarmið stofnunarinnar ævinlega setið í fyrirrúmi og stofnunin lent í Reykjavík, svo sem Fiskiðnskólinn.

Því mótmælir enginn, að flutningur opinberrar stofnunar kostar fé og rekstur stofnunar getur kostað meira fyrsta kastið úti á landi en í höfuðborginni. En það er reynsla Norðmanna, að slíkir erfiðleikar verði ævinlega yfirunnir. Og sú er reynslan hér einnig. Menn voru ekki sammála um að stofna menntaskóla á Akureyri né að Laugarvatni, Ísafirði eða Egilsstöðum, og áþekkum rökum beitt gegn því eins og gegn flutningi Tækniskólans nú.

Tækniskóli Íslands er ekki hluti af miðstjórnarkerfi ríkisins og getur þess vegna verið annars staðar en í Reykjavík. Skólinn mundi vissulega njóta nálægðar við ýmsar vísinda- og tæknistofnanir í Reykjavík, en eins og í Þrándheimi mundi hann með tímanum hlaða slíku utan á sig hér nyrðra. Hér mundi skólinn verða höfuðstofnun bæjarins, og hann mundi njóta sérstakrar umhyggju bæjarbúa og bæjarstjórnar, en syðra hyrfi hann í systemið. Einnig yrði félagsleg staða nemenda þessa skóla hér mun hærri en syðra. Bæjarstjórn býður skólanum framtíðarlóð á þeim bezta stað, sem skipulagsmenn geta fundið honum, án gatnagerðargjalds. Skólinn hefði, hvað kennslukrafta snertir, mikla stoð af Menntaskólanum á Akureyri og öfugt, og ekki býst ég við erfiðleikum á að fá væntanlega fasta kennara skólans til að setjast hér að. Akureyri getur boðið slíku fólki fyrsta flokks aðbúnað, sennilega betri en nokkur staður annar á landinu, enda ekki lengur tregða á að fá t.d. háskólamenntaða menn til að setjast hér að, bjóðist atvinna. Menn, sem geta stundað stundakennslu við skólann, eru færri hér en í Reykjavík, en tæknimenntuðum mönnum fjölgar hér nú mjög ört. Hér í bæ búa nú og starfa 14 verkfræðingar úr ýmsum greinum verkfræði, og hefur þeim að undanförnu fjölgað til jafnaðar um 1–2 á ári. Tæknifræðingar eru hér enn fleiri og fjölgar örar, og stærðfræði- og eðlisfræðimenntaðir menn kenna hér við Menntaskólann á Akureyri og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Verksmiðjurnar hér bjóða upp á mjög góða aðstöðu til þjálfunar framleiðslutæknifræðinga, sem verða mjög þýðingarmikil stétt í framtiðinni, og ýmis önnur aðstaða er hér fyrir hendi, er að verða til eða verður fyrirsjáanlega til á næstu árum, sem koma mun Tækniskólanum að haldi. Og þegar á allt er litið, er ekki með nokkru móti unnt að sjá, að neinir óyfirstíganlegir erfiðleikar verði á vegi Tækniskóla Íslands á Akureyri.“

Enn fremur segir hér að lokum í þessari grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Það kostar vissulega fé og ákveðna erfiðleika í fyrstu að flytja Tækniskóla Íslands til Akureyrar og gera Akureyri að miðstöð tæknimenntunar í landinu.

En hér á landi er það siður að verja stórfé til ýmiss konar framkvæmda, oft lítt arðbærra, til að bæta aðstöðu ýmiss konar plássa á landsbyggðinni til að veiða fisk eða framleiða kjöt. Hér þarf ekki að vera um meiri viðbótarkostnað að ræða en sem samsvarar bryggjustúf, vegarspotta, svo að ekki sé nú talað um skuttogara. Og þessi fjárfesting yrði vissulega arðbær, því hún gæti einmitt orðið vítamínsprautan, sem Norðurland vantar, til að það fari að vaxa af sjálfu sér.“

„Ég vil skora á alþm. alla,“ segir enn fremur í þessari skýrslu, „að íhuga, hvílíka þýðingu opinberar stofnanir geta haft í þróun byggðarinnar í landinu, séu þær rétt staðsettar. Nefna má fjölda stofnana, sem ekki eru hluti miðstjórnarkerfisins og unnt ætti þess vegna að vera að nota sem tæki til að hafa áhrif á byggðaþróun, og er full þörf á, að mál þessi verði tekin til heillegrar athugunar, því að nú eru síðustu forvöð til að skipuleggja landið.

Akureyringar og Norðlendingar aðrir líta á staðsetningu Tækniskólans sem prófmál um alvöru landsfeðra í þessu sambandi, og ég er viss um, að margir aðrir, sem úti á landi búa, eru sama sinnis.“

Svo segir í þessari skýrslu og er þar margt fleira skráð, sem ég ætla ekki að lesa hér upp. En ég vil aðeins að lokum vekja athygli á því, að ég hef gert ráð fyrir því, að í þessari ályktun, ef samþ. verður, felist viljayfirlýsing frá hv. Nd. um flutning Tækniskólans til Akureyrar. En ég hef jafnframt gert ráð fyrir því, að með tilliti til þess, hve hér í höfuðborginni eru margir, sem þurfa á tækninámi að halda, yrði gert ráð fyrir möguleikum til þess, að hér verði bæði starfandi undirbúningsdeild og sérstakar bekkjardeildir í Reykjavík, þó að aðalstofnun Tækniskóla Íslands hefði aðalaðsetur á Akureyri. En ég segi eins og sá, sem ritaði skýrsluna, sem ég las upp úr hér áðan, að ég tel; að hér sé um prófmál að ræða um það, hvað Alþ. vill gera eða hvaða stefnu Alþ. í raun og veru vill taka í málefnum landsbyggðar á Íslandi.

Ég legg til, að umr. um till. verði frestað og henni verði vísað til hv. landbn.