26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í D-deild Alþingistíðinda. (4676)

18. mál, vegamál í Vesturlandskjördæmi

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrir nokkru síðan voru birtar í Hagtíðindum upplýsingar um mannfjölda á Íslandi 1. des. s.l. Í þeim tölum kom í ljós, að á árinu 1970 fækkaði fólki í þremur af kjördæmum landsins. Eitt af þessum kjördæmum var Vesturlandskjördæmi, og kann það að koma ýmsum á óvart. Undanfarin ár hefur verið mjög hæg fjölgun í þessu kjördæmi, hvergi nærri til hlutfalls við heildarfjölgun þjóðarinnar, og hefur því raunverulega verið um íbúatap að ræða.

Ég nefni þetta, af því að mér finnst, að það renni stoðum undir þá útbreiddu skoðun, að nú sé nauðsynlegt að gera meiri háttar átak til að bæta og styrkja búskaparmöguleika og atvinnuhætti á Vesturlandi. Í þeim tilgangi tel ég, að fyrst sé nauðsynlegt að gera veigamikið átak í samgöngumálum þessa héraðs. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram nokkrar fsp. um vegamál í Vesturlandskjördæmi til hæstv. samgrh.

Fyrsta fsp. er á þessa leið: Hvenær lýkur þeirri rannsókn á samgöngumöguleikum yfir Hvalfjörð, sem ákveðin var með þál. 18. apríl 1967?

Þm. Vesturl. hafa undanfarin missiri að heita má skipzt á við að reka á eftir þessu máli og spyrja um það. Er ekki óeðlilegt, að menn skuli vera farið að lengja eftir niðurstöðum þessarar rannsóknar, því að miklar vonir eru við hana tengdar um framkvæmdir, sem gætu orðið til þess að stytta þann tíma, sem nú fer í það að aka fyrir Hvalfjörð.

Önnur spurningin er á þessa lund: Hvenær lýkur undirbúningsrannsóknum vegna brúargerðar yfir ósa Hvítár hjá Borgarnesi? Þetta er framkvæmd, sem íbúar héraðsins hugsa nú í mjög vaxandi mæli til, og er því eðlilegt, að menn spyrji, jafnvel örlítið óþolinmóðir, hvernig miði þeim undirbúningsrannsóknum, sem gera verður vegna þessarar brúargerðar.

Í þriðja lagi spyr ég: Hvenær verður varanlegt slitlag lagt á hraðbrautir út frá Akranesi og Borgarnesi? Mér skilst, að umferð sé orðin það mikil út frá þessum byggðum, að vegir þar fari að komast í hraðbrautaflokk, og þess vegna varpa ég fram þeirri spurningu, hvort menn eygi það, að unnt verði að gera þessa vegi með varanlegu slitlagi.

Og að lokum er spurt í fjórða lagi: Er undirbúningur hafinn að nauðsynlegum endurbótum, sem gera verður á veginum frá Borgarnesi til þéttbýliskjarnanna á norðanverðu Snæfellsnesi og í sambandi við Heydalsveg? Það er kunnugt öllum þeim, sem farið hafa um þessar slóðir, Mýrar og sunnanvert Snæfellsnes, að aðalvegir eru þar á löngum köflum orðnir algerlega ófullnægjandi, og verður að gera veigamiklar áætlanir að framkvæmdum til þess að endurbæta þessa leið. Þegar Heydalsvegur opnast, mun umferð þarna enn aukast og verður því ríkari ástæða til þess, að til komi verulegar vegabætur.

Ég vil að lokum benda á, að höfuðbrautir um Vesturlandskjördæmi, sem ég spyr um, hafa einnig mjög mikla þýðingu fyrir samgöngur milli landshluta og til annarra kjördæma og mundu því koma miklu fleira fólki að beinum notum en því, sem á Vesturlandi sjálfu býr.