26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í D-deild Alþingistíðinda. (4680)

18. mál, vegamál í Vesturlandskjördæmi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Við höfum nú hlustað á skilmerkileg svör hæstv. samgrh. við fsp. um samgöngumál á Vesturlandi. Okkur finnst hægt miða í þessum efnum og mikið, sem þurfi að gera og liggi fyrir. Við megum þó ekki gleyma að geta þess, sem gert er. Ég tel, að á þessu ári hafi a.m.k. náðst tveir merkir áfangar í vegagerð á Vesturlandi, sem ég vil ekki láta hjá líða að minnast á, fyrst þessi mál bar á góma. Það er í fyrsta lagi Útnesvegur, vegurinn fyrir Jökul úr Breiðavík að Hellissandi. Hann var byggður upp á þessu sumri á mikilvægum kafla, sem eftir var. Það er áreiðanlegt, að Snæfellingar á útnesinu telja þar merkum áfanga náð.

Í öðru lagi vil ég geta þess, að umferð um Heydalsveg verður hafin innan skamms. Það er meira að segja farið að aka hann nú þegar, þó að eftir sé að tengja eina brú á þeirri leið. Það má ekki minna vera en þessa atburðar sé minnzt örfáum orðum, þar sem þessi vegur er jafngamall lýðveldinu. Hann komst í tölu þjóðvega árið 1944 fyrir tillöguflutning þáv. þm. Snæf., Gunnars Thoroddsen. Þessara tveggja áfanga vil ég ekki láta ógetið, en jafnframt fara þess á leit við hæstv. samgrh., að hann haldi þessum málum vel vakandi. Þegar þessum áföngum er náð yfir Snæfellsnesfjallgarðinn og fyrir enda hans, þá er Álftafjörður versti þröskuldurinn á leiðinni inn með Breiðafirðinum og inn Skógarströnd. Ég flutti till. til þál. um athugun á brúargerð yfir Álftafjörð á Snæfellsnesi árið 1968, að ég ætla. Vildi ég biðja hæstv. samgrh. að láta hraða þeirri athugun, sem hann raunar minntist á áðan. Verði stefnt að því að leysa þetta mál og huga jafnframt að næsta áfanga, sem er vegur yfir Laxárdalsheiði.