26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í D-deild Alþingistíðinda. (4684)

901. mál, læknaskortur í strjálbýli

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til ríkisstj. um læknaskort í strjálbýli. Þessi mál hafa mjög verið til meðferðar á Alþ. á undanförnum árum, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt. Alþ. hefur gert ýmsar samþykktir um þessi mál, og má m.a. minna á þál., sem afgreidd var hér seint á þingi 1969 um skipun mþn. til þess að endurskoða löggjöf um heilbrigðisþjónustu landsmanna í heild. Þessi nefnd var skipuð, og það hefur komið fram álit frá henni og verið sent út til skoðunar. Í því áliti felast vissulega mörg nýmæli, og má hiklaust segja, að það er mjög athyglisvert. Nú var mér kunnugt um það, að yfirvöld heilbrigðismála og m.a. hæstv. heilbrmrh. hafa ýmislegt gert á undanförnum vikum einmitt í sambandi við læknaskortinn í strjálbýlinu. En mér þótti þó rétt þegar í þingbyrjun að óska eftir upplýsingum um þessi mál, um aðgerðir og áform ríkisstj. Mér fannst þetta rétt, bæði af því að málið hefur margsinnis verið til meðferðar hér á Alþ., án þess að viðunandi lausn hafi á því fengizt, og eins sakir þess að þetta er stórkostlegt alvöru- og öryggismál dreifbýlismanna um allt landið, og í Austurlandskjördæmi er stöðugt ríkjandi ellegar þá yfirvofandi hreint neyðarástand á vissum sviðum. Þess vegna þótti mér fyllsta ástæða til þess að óska nú þegar eftir upplýsingum um málið, alveg frá fyrstu hendi. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en fsp. mín, sem er í tveimur liðum, er þannig:

Hvað hyggst ríkisstj. gera til að bæta úr læknaskorti í strjálbýli:

a. Með bráðabirgðaráðstöfunum?

b. Með ráðstöfunum, er tryggt gætu til frambúðar viðhlítandi heilbrigðisþjónustu?