26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í D-deild Alþingistíðinda. (4685)

901. mál, læknaskortur í strjálbýli

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson gat um, þá hafa fsp. og umr. um þetta mál mótað störf undanfarinna þinga og raunar ekki aðeins undanfarin ár, heldur undanfarna áratugi, því að þetta er vandamál, sem er tengt breytingum, sem hafa verið að gerast hér á Íslandi á undanförnum áratugum, að því er varðar búsetu og atvinnuhætti og þau miklu vandamál. sem dreifbýlið hefur átt við að etja í því sambandi. Þetta er því ekki aðeins heilbrigðismál í þröngum skilningi, þetta snertir alla þróun atvinnumála og efnahagsmála, og ég hygg, að við náum aldrei tökum á þessu vandamáli einangruðu, heldur verðum að leysa það í tengslum við önnur atriði. Þetta held ég, að sé grundvallaratriði í þessu sambandi, og skal ekki ræða það frekar. En mig langar að víkja að einu sérstöku atriði, sem mér finnst ekki hafa verið nægur gaumur gefinn, áður en ég tek beint að svara fsp. hv. þm.

Það atriði, sem mig langaði að minnast sérstaklega á, er það, að hér er komið upp það ástand, að skortur er á fólki í heilbrigðisstéttum á Íslandi. Það er almennur læknaskortur á Íslandi, ekki aðeins í strjálbýlinu, heldur um land allt. Það er almennur skortur á hjúkrunarfólki á Íslandi, bæði hér í Reykjavík og úti um landið, og það er skortur á fólki í öðrum heilbrigðisstéttum. Þetta stafar af því, að okkur hefur ekki tekizt að skipuleggja þróun þessara mála á samfelldan hátt. Við leggjum á ráðin um það að koma hér upp nýjum sjúkrahúsum og nýjum sjúkrahúsdeildum. Við leggjum í mikinn kostnað við að byggja myndarleg hús og búa þau nútímalegum tækjum. En svo kemur það einatt í ljós, að þegar þessar stofnanir eiga að taka til starfa, þá er ekki nægjanlegt fólk til að vinna þar, og stundum verða slíkar stofnanir að vera lokaðar mánuðum saman. Og þetta er vissulega mjög alvarlegt mál. Við verðum að ná tökum á því að láta þessa hluti þróast í samfellu, þannig að verklegar framkvæmdir okkar á þessu sviði haldist í hendur við næga menntun starfsfólks í þessum greinum.

Nýlega hefur verið athugað sérstaklega ástandið að því er hjúkrunarkonur varðar, og heilbrmrn. birti fyrir nokkrum vikum grg., sem Kjartan Jóhannsson verkfræðingur hafði samið um það efni, og þar voru ákaflega fróðlegar niðurstöður. Þessi grg. hefur verið birt í blöðum, og ég vænti þess, að allir hv. alþm. hafi veitt henni athygli. En þar kom í ljós, að eins og nú horfir, þá vantar a.m.k. 100 hjúkrunarkonur í störf hér á landi, og þrátt fyrir þá fjölgun, sem orðið hefur á nemendum í Hjúkrunarskóla Íslands, mun halla á ógæfuhlið í vaxandi mæli á næstu árum, ef ekki verður úr þessu bætt.

Og ástandið að því er varðar lækna er á sömu lund. Að vísu er auðvelt að færa rök að því, að við séum betur settir að því er varðar lækna hér en mörg eða flest lönd heims, — með því að deila fjölda lækna í fjölda íbúa, þá séum við betur settir en aðrir. En engu að síður er það staðreynd, að sé litið á það kerfi, sem við höfum byggt upp í landinu, þ.e. hversu margar læknisstöður séu í landinu á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og í læknishéruðum, þá er mjög alvarlegur læknaskortur á Íslandi. Það var t.d. kannað núna í haust, hvernig ástatt væri á aðalspítölunum, Borgarspítala, Landsspítala, Landakoti og á Akureyri. Þar eru 33 stöður fyrir kandidata, en þá höfðu ekki fengizt nema 22 kandídatar í þessar stöður. Það voru 11 stúdentar, sem þarna unnu til þess að fylla upp í hreinar eyður, vegna þess að það skorti útlærða menn til að gegna þessum störfum. Og sama máli gegndi um aðstoðarlæknisstöður, þær voru ekki heldur fullskipaðar, það vantaði menn þar einnig. Á Akureyri kom upp sérstakt vandamál vegna þess, að þar létust þrír læknar með stuttu millibili. Það hefur verið reynt frá því í haust að fá menn til að gegna störfum á Akureyri, sem á að vera þægilegur staður til starfa fyrir lækna samkvæmt almennum sjónarmiðum, en þetta hefur ekki tekizt. Og það má segja, að þar vanti nú heimilislækna fyrir nær 3000 manns með yfir 1000 börn á framfæri.

Ástæðan fyrir þessu er sú, að það hefur verið mjög óeðlileg takmörkun á fjölda þeirra lækna, sem útskrifazt hafa úr Háskóla Íslands, og þar hafa verið uppi eða voru uppi um skeið mjög annarleg sjónarmið um nauðsyn þess að takmarka fjölda lækna, sem þar útskrifuðust, enda er það svo, að það eru ákaflega fáir læknar, sem þarna hafa útskrifazt síðustu árin. Árið 1970 útskrifuðust 17 kandidatar frá Háskóla Íslands. Á þessu ári, 1971, útskrifuðust 24 kandídatar, þar af voru þrír erlendir menn, sem hefja störf erlendis að sjálfsögðu, þannig að aðeins er um að ræða 21 til þess að hefja störf á Íslandi. Árið 1972 mun útskrifast 21 kandídat, þar af tveir útlendingar, þannig að aðeins er um að ræða 19 Íslendinga. Og 1973 munu útskrifast 30 kandidatar, þar af tveir útlendingar. Eftir það á þetta að fara batnandi. En þessi fjöldi er allt of lítill, miðað við þarfir okkar, eins og við sjáum á því, að núna í ár fara 16 til útlanda í sérnám á sama tíma og 21 Íslendingur útskrifast.

Þetta er ástand, sem menn verða að gera sér ljóst. Það er almennur læknaskortur á Íslandi. Og þetta er mál, sem verður að taka til gaumgæfilegrar og alvarlegrar athugunar. Ég tel, að ríkisstj. verði að hafa forgöngu um það, að læknadeild Háskóla Íslands endurskoði sem fyrst afstöðu sina og mat á því, hversu marga lækna þarf að útskrifa frá Háskólanum árlega, og að kennslan í læknadeild verði fyrst og fremst að miða að því, að nægilega margir læknar verði til starfa á Íslandi. Við bætum aldrei úr þessu vandamáli án þess, að hér útskrifist nægilega margir læknar. Og við þessa áætlunargerð verða menn að sjálfsögðu að taka tillit til þess, að nú er kominn sameiginlegur vinnumarkaður á þessu sviði á öllum Norðurlöndum og raunar á stærra svæði, og við verðum að reikna með því sem sjálfsögðum hlut, að hluti af íslenzkum læknum starfi erlendis einhvern tíma. Það eru ekki til nein ráð til að koma í veg fyrir þetta, og við skulum ekki reyna að gera það. En öll þessi mál, þ.e. endurskipulagningu eða heildarskipulag fólks til starfa í heilbrigðisstéttum, verður að taka upp á breiðum grundvelli. Og ég vænti þess, að menntmrn. og heilbrmrn. taki að sér að hafa forgöngu um þá endurskoðun.

Ég vildi vekja athygli á þessum staðreyndum vegna þess að ég tel, að menn geti ekki fjallað um þetta mikla vandamál á eðlilegan hátt án þess að gera sér þessar staðreyndir ljósar. Það er almennur læknaskortur á Íslandi. Nú í haust kom þessi læknaskortur mjög alvarlega fram. Um síðustu mánaðamót urðu hvorki meira né minna en 11 læknishéruð laus, læknishéruð, sem áður höfðu verið starfrækt af níu læknum. Þessi héruð voru: Ólafsvíkurhérað, Búðardals- og Reykhólahérað, en þeim hafði áður verið gegnt af einum lækni frá Búðardal, Hvammstangahérað, en þar höfðu tveir læknar starfað, Ólafsfjarðarhérað, Kópaskers- og Raufarhafnarhérað, en þau hafa alllengi verið læknislaus, en á tímabili verið gegnt af einum lækni, sem setið hefur á Húsavík, Þórshafnar- og Vopnafjarðarhérað, þessum héruðum hefur verið gegnt af einum lækni, sem setið hefur á Vopnafirði, Eskifjarðarhérað og Djúpavogshérað. Hér var um mjög alvarlegar horfur að ræða. Og það voru þegar í stað gerðar eins víðtækar ráðstafanir og hægt var að gera af hálfu landlæknis og annarra heilbrigðisyfirvalda til þess að útvega lækna í þessi héruð með öllum tiltækum ráðum. Það var haft samráð við stjórnir læknafélaga, við ráðningarstjóra kandídata og stúdenta og við yfirlækna Landsspítala og Borgarspítala. Smátt og smátt fékkst sú niðurstaða, að læknir, sem áður sat í Ólafsfirði, sótti um Ólafsvíkurhérað, þannig að vandi þess leystist. Læknir, sem kom heim frá Svíþjóð, tók að sér Búðardals- og Reykhólahérað. Einn læknir fékkst í Hvammstangahérað. Læknir fékkst til setu á Húsavík til þess að gegna Kópaskers- og Raufarhafnarhéraði. Og læknir kom frá Svíþjóð til þess að gegna Eskifjarðarhéraði. Að því er snertir Þórshafnar- og Vopnafjarðarhéruð, þá hafa fengizt þangað læknar til skemmri dvalar, og standa vonir til, að málefni þessara héraða verði leyst á þann veg fram yfir áramót. En gert er ráð fyrir, að læknir fáist til lengri setu á Vopnafirði og gegni Þórshöfn frá 1. febr. 1972. En þá vantar enn lækna í Ólafsfjarðarhérað og í Djúpavogshérað og einn lækni í Hvammstangahérað.

Þegar sýnt þótti, að ekki mundu fást læknar í þau tvö afskekktu héruð, sem rætt var um, Ólafsfjörð og Djúpavog, þá tók ég það til ráðs að kalla saman fulltrúa Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur á sérstakan fund til að ræða þessi málefni á breiðum grundvelli og óska eftir till. þeirra og samstarfi við lausn þessa vandamáls, og ég bað þá hreinlega að leggja sig í framkróka til þess að leysa þessi vandamál með okkur, þar eð ég taldi þarna vera um algert neyðarástand að ræða. Eftir þennan fund sendi ég bréf til allra starfandi lækna í Reykjavík og nágrenni og fór fram á það, að þeir hugleiddu það hver um sig persónulega, hvort þeir gætu komið til móts við okkur í þessum vanda. Ég benti á það, að ef læknar á þessu svæði gæfu sig fram til setu í héruðum einn til tvo mánuði á ári, þá væri hægt að leysa þennan vanda til bráðabirgða, meðan verið væri að finna einhverjar endanlegar lausnir. Og nú að undanförnu og þessa dagana er haft persónulegt samband við alla þessa lækna, og ég vona, að af þessu verði árangur vegna þess, og það vil ég taka skýrt fram, að læknar hafa tekið þessu frumkvæði mjög vel og þeir hafa látið í ljós fullan vilja á því að aðstoða heilbrigðisyfirvöldin við að leysa þennan vanda.

Á meðan þetta ástand stendur á þessum stöðum, sem ég nefndi, þá hefur málum verið ráðið þannig á Ólafsfirði, að þar hefur verið ráðin til starfa héraðshjúkrunarkona, og gert er ráð fyrir, að lyfsali á Dalvík setji upp útsölu lyfja á Ólafsfirði og síðan mun héraðshjúkrunarkonan hafa samband við héraðslækni á Dalvík vegna þeirra sjúklinga, er til hennar leita þar. Djúpavogi er þannig ráðstafað, að Egilsstaðalæknar sinna kalli þangað, en ljósmóðir á staðnum starfar að hjúkrunarstörfum og hefur umsjón með lyfjum og afhendir þau eftir fyrirsögn læknis. Þá hefur verið komið á neyðarkallssímaþjónustu við lyflæknis- og handlæknisdeild Landsspítalans fyrir Djúpavogshérað, og sams konar þjónustu er verið að reyna að koma á frá héruðum norðan- og norðaustanlands, sem læknislaus eru, við sjúkrahúsið á Akureyri. Þá vil ég geta þess, að landlæknir hefur haft sérstakt samband við Landhelgisgæzluna og farið fram á það við hana, að hún hagaði staðsetningu varðskipa með tilliti til þessara vandamála. Landhelgisgæzlan hefur oft verið til ómetanlegrar aðstoðar við sjúklinga í héruðum, þar sem lítið hefur verið um lækna, og við höfum farið fram á það við Landhelgisgæzluna, að hún taki tillit til þessa vandamáls. Einnig er það í sérstakri athugun á vegum rn. að hafa frumkvæði að því að kaupa bíla, sem hentugir eru til flutninga, þar sem samgöngur eru mjög erfiðar. En læknar hafa oft á það minnzt, að opinberir aðilar yrðu að aðstoða við það vandamál. Auk þeirra héraða, sem hér hafa verið talin, þá er vitað, að Dalvikurhérað er laust í byrjun nóvember, en gert er ráð fyrir, að núverandi héraðslæknir þar verði settur um óákveðinn tíma. Einnig mun Kirkjubæjarhérað losna fljótlega og Hveragerðishérað um næstu áramót. Og enn er ekki útséð um það, hvernig takast muni að fá lækna í þessi héruð.

Ég hef nú lýst þeim breytingum, sem urðu í læknishéruðum um síðustu áramót, og þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið á vegum landlæknis og rn. til þess að leysa þennan vanda með bráðabirgðaráðstöfunum. Ég geri mér, eins og ég sagði, vonir um, að það muni halda áfram að greiðast úr þessum vanda á einhvern hátt, þó að vissulega sé ekki um að ræða neina lausn, sem hægt er að una við sem endanlega lausn.

En þá er komið að síðari hluta spurningarinnar, því veigamikla máli, hvernig hægt sé að skipa þessum málum þannig, að varanleg lausn fáist.

Eins og ég gat um áðan, þá er læknaskortur í strjálbýli ein af afleiðingum almenns læknaskorts í landinu. En þegar um almennan skort er að ræða, þá vita allir, að hann bitnar mest á strjálbýlinu. Á þessu verður ekki ráðin bót, fyrr en læknum hefur verið fjölgað á Íslandi, og þess vegna er þar um tvennt að ræða, annars vegar að gera þær tilraunir, sem tiltækilegar eru, til þess að fá íslenzka lækna, sem starfa erlendis, til þess að koma til Íslands, og í öðru lagi, að læknadeildin skipuleggi störf sin þannig, að hún reyni að tryggja, að læknar útskrifist í samræmi við raunverulega þörf á Íslandi.

Að því er varðar Íslenzka lækna, sem dveljast erlendis, þá hefur rn. uppi ráðagerðir um það að hafa beint samband við þá, annaðhvort bréflega eða með fundum, og kynna þeim ástand þessara mála á Íslandi og reyna að beita áhrifum sínum til þess að fá hluta þeirra til að koma til Íslands á nýjan leik og aðstoða okkur við að leysa þennan vanda. Og að því er læknadeildina snertir, þá hef ég hug á því, eins og ég sagði áðan, að ríkisstj. taki það mál upp og menntmrn. og heilbrmrn. fjalli sérstaklega um samvinnu sín á milli á þessu sviði.

En þótt nægilega margir læknar væru til á Íslandi, þyrfti vissulega að endurskipuleggja það kerfi, sem fyrir er í landinu, því að það kerfi, sem nú er í landinu, er ekki í samræmi við breyttar aðstæður og ekki í samræmi við kröfur tímans. Aðstaða til lækninga utan sjúkrahúsa er í flestum tilvikum orðin miklu lakari en á sjúkrahúsunum sjálfum, og það hefur gengið hægar hér en víða annars staðar, að menn geri sér grein fyrir því, að læknisstarfið er heildarstarf fyrir sjúklinginn og það er óeðlilegt að hluta það í sundur eftir því, hvort sjúklingurinn þarf á meiri eða minni læknishjálp að halda, þ.e. eftir því, hvort honum nægir að leita til læknis á lækningastofu eða hvort það þarf að leggja hann á sjúkrahús. Það þarf að auka til mikilla muna samstarf sjúkrahúslækna og lækna utan sjúkrahúsa. Og það þarf að tryggja það, að sú góða aðstaða, sem nú er á sjúkrahúsum á Íslandi, nýtist sem bezt öllum sjúklingum, einnig þeim, sem ekki þarf að leggja inn á sjúkrahús. Þar er um að ræða rannsóknaraðstöðu, sem er ákaflega mikilvæg og læknar vilja ekki án vera um þessar mundir. Þess vegna tel ég, að framtíðin hljóti að verða sú, að við sjúkrahúsin hvarvetna um land og einnig hér í þéttbýlinu hljóti að koma upp opnar göngudeildir, sem taki að sér mjög verulegan hluta af almennri læknisþjónustu, þeirri þjónustu, sem heimilislæknar hafa haft.

Eins og minnzt var á hér af hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni, hafa verið samin drög að nýju frv. um heilbrigðisþjónustu. Þessi drög komu fram á s.l. vori, og þau hafa verið send mörgum aðilum til umsagnar, og rn. hefur fengið fjölmargar aths. við þetta mál. Þær meginbreytingar, sem gert er ráð fyrir í þessum drögum, eru þær að reyna að koma heilbrigðisþjónustunni allri í samræmt kerfi, þ.e. að koma á sérhæfingu starfs utan sjúkrahúsa, að embættislæknisstörfin séu falin sérstökum fáum mönnum og almennu læknisstörfin séu sem mest rekin með hópstarfi á heilsugæzlustöðvum, sem alls staðar starfi við sjúkrahús, þar sem því verður við komið. Og að því er sjúkrahúsin snertir, þá er gert ráð fyrir því í þessum lagadrögum, að ákveðin afstaða sé tekin til starfsskiptingar þeirra og dreifingar um landið. Ég ætla ekki að þessu sinni að rekja efni þessara frv.-draga frekar, en þetta mál er allt í athugun í heilbrmrn. og það verður athugað gaumgæfilega á næstu vikum. Ég vænti þess, að þetta frv. verði síðar á þessu þingi lagt fram í einhverri mynd, og þá mun að sjálfsögðu verða mjög viðtæk athugun á þessu máli hér á vegum Alþ. Ég vil láta þess getið, að, þarna tel ég vera um svo vandasamt mál að ræða, að ég tel sjálfsagt, að Alþ. hafi það lengi til meðferðar og fjalli mjög gaumgæfilega um það. En ég vænti þess, að hugmyndir þær, sem í því frv. felast, muni stuðla að því að tryggja eða búa í haginn fyrir þá varanlegu lausn, sem hv. þm. talaði um.