26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í D-deild Alþingistíðinda. (4687)

901. mál, læknaskortur í strjálbýli

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil nú leyfa mér að þakka svör hæstv. ráðh. Það kemur glöggt í ljós varðandi fyrri lið fsp., að það hefur verið sýnd mjög virðingarverð viðleitni til þess af hálfu ráðamanna heilbrigðismála og ráðh. sér í lagi að ná fram einhverri skyndiúrlausn til þess að bægja frá dyrum bráðri neyð í þessu efni. Mér þykir einnig mjög vænt um að heyra það, að varðandi síðari liðinn, þá hugsar ríkisstj. sér að vinna á breiðum grunni að framtíðarlausn málsins. Mér skilst á ræðu ráðh., að ríkisstj. hafi í hyggju allt í senn að leita til íslenzkra lækna erlendis og kynna þeim neyðarástandið hér og hvetja þá til að sýna nokkurn þegnskap, að beita sér fyrir því að efla læknadeildina, efla hana til aukinna afkasta, ef svo mætti segja, og loks að halda áfram af fullum krafti að undirbúa skipulagsbreytingu heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Ég vil leyfa mér að undirstrika það, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., að í þessu máli eru sennilega tvö meginatriði, sem við verðum að hafa í huga, annars vegar það, að endanleg eða viðunandi lausn fæst aldrei nema með því að vinna að málinu á mjög breiðum grunni og þá koma inn í fleiri atriði en aðeins hvað snertir læknana sjálfa og það starfslið, sem að heilbrigðismálunum vinnur, mörg fleiri atriði. Hv. 5. þm. Norðurl. e. áréttaði þessa skoðun ráðh. með ljósu dæmi. Hins vegar er svo það meginatriði, sem áður hefur oft verið lögð áherzla á hér á hv. Alþ., þetta, að það er læknaskortur í landinu og ekki aðeins læknaskortur, heldur skortur á öðru starfsliði, og það er eitthvert allra fyrsta atriðið að bæta úr honum.

Það er kannske vorkunnarmál, þó að það hafi vafizt nokkuð fyrir hv. Alþ. og öðrum þeim, sem að þessum málum vinna, að ráða bót á því óvænta ófremdarástandi, sem verður, þegar fjölmennur hópur lærdómsmanna, sem fyrir eigið harðfylgi og með verulegum stuðningi af almannafé hefur aflað sér menntunar til að gegna þýðingarmiklu þjónustustarfi fyrir landsfólkið, telur sig ekki lengur geta sinnt þörfum verulegs hluta þjóðarinnar. En þennan vanda verður nú að leysa, hvað sem það kostar.

Það er auðvitað rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. og ég hef áður drepið á, að það er almennur skortur á fólki, almennur læknaskortur í landinu. En það breytir þó ekki þeirri staðreynd, að læknaþjónustan í strjálbýlinu er algert sérmál. Og ég vil segja það að lokum, að það er ekki hægt að kalla það annað en hneykslismál af verstu gráðu, að það skuli raunar varða missi þeirra mannréttinda, sem landslög ákveða þegnunum varðandi heilbrigðisþjónustuna, ef menn ætla sér að nytja gæði landsins t.d. austur í Vopnafirði eða á suðaustanverðu Íslandi. Og ég vona, að ekki aðeins ríkisstj. heldur allir hv. alþm. og aðrir, sem hlut eiga að máli, taki höndum saman um að vinna að lausn þessa máls.