02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í D-deild Alþingistíðinda. (4693)

903. mál, þjóðvegir í kaupstöðum og kauptúnum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil segja hér nokkur orð í tilefni af fsp. hv. þm. og rifja þá upp fsp. hans, sem er svo hljóðandi:

„Hefur ríkisstj. uppi áform um að beita sér fyrir breytingu á vegalögum á þann veg, að ríkið taki að sér uppbyggingu þjóðvega, sem liggja um kaupstaði eða kauptún?“

Eins og hann vék að, segir svo í 32. gr. vegalaga, sem eru nr. 71 frá 1963: „Árlega skal veita ákveðna fjárhæð til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, og skal skipting fjárins fara eftir íbúafjölda.“ Þetta er grundvallarregla samkv. gildandi lögum. Enn fremur: „Skal árlegt framlag vera 12.5% af heildartekjum vegamála það ár samkv. XIV. kafla þessara laga.“

Með lögum nr. 7 frá 10. apríl 1968, um breytingu á vegalögum nr. 71 frá 1963, er ákvæðið í 32. gr. þrengt nokkuð með því að í 1. málsgr. 38. gr. er bætt við nýjum málslið, þar sem segir: „Ráðherra er þó heimilt að undanskilja tekjur vegamála, sem varið er til framkvæmda við hraðbrautir.“

Þessu heimildarákvæði hefur verið beitt siðan. Samkv. yfirliti um heildartekjur til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum samkv. 32. gr. og einnig samkv. 34. gr. varðandi hinn svokallaða 10% sjóð vegalaga hafa heildarframlög til þjóðvega í þéttbýli fyrir árin 1964–1971 numið alls um 360.6 millj. kr. Framlög samkv. 30. gr. hafa á sama tíma numið um 40.1 millj. kr., og hefur því fé verið skipt þannig, að Kópavogskaupstaður hefur fengið 29.3 millj., Selfosshreppur 10 millj., Hveragerðishreppur 800 þús. kr. Í grg. með till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1969–1972 er á fskj. yfir þjóðvegi í þéttbýli hinn 1. jan. 1969, samkv. reglugerð nr. 44 frá 1965, tekið fram, að þessir vegir séu þá alls 97.8 km að lengd og þar af með varanlegu slitlagi aðeins 25.2 km, eða liðlega fjórðungur þessara vega. Lagningu varanlegs slitlags á þjóðvegi í þéttbýli hefur þó þokað nokkuð áleiðis á liðnum þremur árum, en tæmandi skýrslur um það, hvernig því máli er nú komið, liggja ekki fyrir eins og er. Þó er unnið að öflun slíkra skýrslna í sambandi við endurskoðun á reglugerðinni nr. 44 frá 1965.

Nefnd þeirri, sem undirbjó frv. til vegalaga, sem lögfest var hér á Alþ. í des. 1963, var það ljóst, að með skiptingu á framlagi til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum samkv. höfðatölureglu yrði fámennustu kauptúnum og kaupstöðum gert mjög erfitt fyrir að ljúka lagningu vega sinna. Því var tekið upp ákvæði í 34. gr. um 10% sjóðinn, til þess að unnt væri að flýta framkvæmdum, þar sem sérstök ástæða þætti til, eða ljúka ákveðnum áföngum eða stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum, eins og það er orðað sérstaklega í greininni. Hins vegar hefur þessi sjóður undanfarin átta ár verið bundinn við lausn tveggja mjög kostnaðarsamra verkefna, lagningu Hafnarfjarðarvegar um Kópavog og Suðurlandsvegar um Selfoss, og hafa því aðrir kaupstaðir og kauptún ekki notið neins fjármagns úr þessum sjóði, eins og til var ætlazt. Þetta gildir um 10% sjóðinn. Engin heildaráætlun liggur fyrir um kostnað við að ljúka lagningu þjóðvega í þéttbýli, en samkv. reglugerð nr. 44 frá 1965 eiga hlutaðeigandi sveitarfélög að sjá um hönnun þeirra vega og þurfa aðeins að leggja fram tæknilegar og fjárhagslegar áætlanir um lagningu þeirra fyrir Vegagerð ríkisins, áður en framkvæmd er hafin.

Við þá endurskoðun á reglugerð nr. 44 frá 1965, sem nú er unnið að, mætti væntanlega gera svona í grófum dráttum áætlun um heildarkostnað við að ljúka lagningu þessara vega til þess að fá nokkra hugmynd um stærð viðfangsefnisins. Væri mjög æskilegt, að slík heildaráætlun lægi fyrir, og nálega nauðsynlegt, að það lægi fyrir, áður en horfið væri að því ráði að breyta gildandi ákvæðum vegalaga um framlög úr Vegasjóði til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum. En þessi heildaráætlun liggur ekki fyrir og þannig ekki vitað um stærð verkefnisins, og er því svarið endanlega þetta, að ríkisstj. telur ekki hyggilegt að taka ákvarðanir um þessar aðgerðir, sem óskað er raunar eftir í fsp., fyrr en þessari endurskoðun er lokið og maður sér, hversu víðtækt og stórt þetta verkefni er, en vitað er, að það er allstórt.