11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í D-deild Alþingistíðinda. (4706)

904. mál, veggjald á Reykjanesbraut

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svar hans, en ég verð jafnframt að láta í ljósi nokkur vonbrigði með það, að hann hefur ekki talið sér fært á þessu stigi málsins að gefa um það skýlausar yfirlýsingar, hvort þessi vegskattur komi til með að verða áfram eða ekki. Hann talaði um þennan veg sem forréttindi á kostnað alþjóðar. Ég vil í því sambandi minna á það, að vegir hér á landi eru feikilega misjafnir, misjafnlega vel byggðir. Við eigum t.d. ágætis veg hér á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og sem betur fer þurfum við ekki að borga vegskatt fyrir að aka eftir honum. Það eru fleiri ágætir vegir úti um landið svo og einnig vegir, sem litlu fé hefur verið kostað til miðað við það, sem lagning Reykjanesbrautar kostaði, þannig að ég held, að það sé mjög hæpið að tala um forréttindi í sambandi við Reykjanesbrautina í þessu sambandi.

Hann lét að því liggja, að þegar hliðstæðir vegir og Reykjanesbrautin væru fyrir hendi hér á landi, mundi þetta mál tekið til endurskoðunar og athugunar á nýjan leik. Ég leyfi mér að vona, að sú athugun, sem þá verður gerð á þessu máli, leiði til þeirrar ákvörðunar, að þessi óréttláti skattur verði felldur niður.