11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í D-deild Alþingistíðinda. (4707)

904. mál, veggjald á Reykjanesbraut

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umr„ sem hér hafa átt sér stað út af veggjaldinu á Reykjanesbrautinni, vil ég leyfa mér að undirstrika þá ákvörðun fyrrv. samgrh., að hann hafi ætlað sér að fella veggjaldið niður frá og með áramótunum 1972–1973, þ.e. frá 1. jan..1973. Hæstv. samgrh. minntist á það eða gat þess hér, að þessi ákvörðun ráðh. hefði ekki verið tekin á lögformlega bindandi hátt. Ég vil þá aðeins vekja athygli hans á því, að í vegalögum er grein, þar sem segir, að ráðh. sé heimilt að leggja á veggjald, þannig að þótt hann hefði ákvarðað að leggja veggjaldið niður, þá gæti hæstv. núv. samgrh. ákveðið að leggja veggjaldið á aftur. En ástæðan fyrir þessari ákvörðun ráðh. er sú, að í vegáætlun fyrir árið 1971 og í bráðabirgðaáætlun fyrir árið 1972 er gert ráð fyrir ákveðnum tekjum af veggjaldinu, þannig að grundvöllur fyrir niðurlagningu eða afnámi veggjaldsins var ekki fyrir hendi fyrr en 1. jan. 1973, þegar ný vegáætlun hefur verið samin, sú, er lögð verður fyrir Alþ. í vetur, ný áætlun fyrir árið 1972 og fyrir næstu þrjú ár þar á eftir.

En það má vekja athygli á því, að ráðh. fyrrv. hafði þegar markað stefnuna í þessu máli, og hann gerði það m.a. með því, að veggjaldið hefur ekki hækkað allt frá því 1965, enda þótt margt í þessu landi hafi hækkað á því tímabili, og ef samanburður væri gerður á ýmsum gjöldum frá 1965 og þessu, þá ætti þetta gjald að vera töluvert hærra. En það var einmitt þá, þegar umr. áttu sér stað um það, hvort hækka skyldi veggjaldið á Reykjanesbraut, að ráðh. tók þá ákvörðun, að með tíð og tíma skyldi veggjaldið afnumið, og það fólst í því, að það var ekki hækkað. Hans ákvörðun var svo sú, að veggjaldið skyldi niður fellt 1. jan. 1973.

Það er alveg rétt, sem hv. fyrirspyrjandi, 5. landsk. þm., Stefán Gunnlaugsson, gat um. Þetta mál er mikið áhugamál í okkar kjördæmi, og það finnst mörgum, að hér sé um óréttlátan skatt að ræða. Þetta hefur ævinlega verið svo, enda þótt ýmsir hafi á sínum tíma, þegar lagt var út í þessa fjárfreku framkvæmd, varpað fram þeirri hugmynd, að þar sem hér væri um töluvert sérstaka framkvæmd að ræða, þá væri ekki óeðlilegt, að a.m.k. fyrst um sinn yrði tekið veggjald af þessum sérstæða vegi. Ég skal nú ekki rekja þá sögu alla hér, en ég trúi því, að þm. stjórnarliðsins úr okkar kjördæmi muni ekki láta á sér standa í þessu máli nú og aðstoða okkur hina við það að fá fram ákvörðun fyrrv. ráðh. um það, að veggjaldið verði fellt niður frá og með 1. jan. 1973, en ég geri nú ekki ráð fyrir því, að farið verði fram á það, að það, sem þegar hefur verið greitt, verði endurgreitt og þaðan af síður með vöxtum.