11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í D-deild Alþingistíðinda. (4711)

904. mál, veggjald á Reykjanesbraut

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal reyna að brjóta ekki þá reglu og hafði nú ekki ætlað mér að gera það, áður en ég fór í ræðustól, að tala lengur en 5 mínútur. Ég vildi aðeins leiðrétta þann misskilning, sem mér fannst koma fram hjá hv. 2. þm. Reykn., þegar hann var að tala um Suðurlandsveg eða veginn austur að Selfossi sem sambærilegan veg við Keflavíkurveginn. Það er alveg rétt, að þær aðgerðir, sem nú er verið að gera á Suðurlandsveginum, — það er ýmist verið að malbika hann eða olíubera hann, — eru alveg geysileg samgöngubót fyrir Sunnlendinga. En hins vegar, ef litið er á kostnaðinn, þá er ekki um sambærilega vegi að ræða. Ég vil minna þennan hv. þm. á það, að þegar til kom að átti að malbika, hætta við að steypa Keflavíkurveginn og malbika hluta af honum, þá töldu þeir það ekki nálægt því sambærilega framkvæmd við það, sem áður hafði verið gert, og kröfðust þess, að steypta veginum yrði haldið áfram. Ég tel eðlilegt, að veggjald hafi verið lagt á. Það er vegna þess, hversu vegurinn er dýr, vegna þess að hann er það fullkomnasta, sem hægt er að gera í vegagerð hér á landi. Suðurlandsvegurinn er stórbættur, samgöngurnar hafa stórbatnað með þeim aðgerðum, sem verið er að gera. En það er ekki að verðlagi neitt líkt því, sem steyptur vegur kostar. Þess vegna er ekki rétt að tala um þessa tvo vegi sem sambærilega vegi. Ég tel, að ef farið er í það að steypa vegakerfi almennt, þá verði að sjálfsögðu að gilda hrein regla, annaðhvort verði alls staðar vegagjöld og sama vegagjaldið eða þá að vegagjaldið verði fellt niður af öllum vegunum. Ég kom hingað aðeins til að leiðrétta misskilning, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykn. Þetta verða aldrei taldir sambærilegir vegir hvað verðið snertir.