16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í D-deild Alþingistíðinda. (4716)

905. mál, stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Stofnun fiskvinnsluskóla hefur átt sér þó nokkuð langa og allskrykkjótta þingsögu, og áður en ég svara fram kominni fsp. hv. 3. þm. Sunnl. beint, tel ég ástæðu til að víkja nokkrum orðum að aðdraganda þessa máls.

Till. um stofnun skóla fyrir starfsmenn í fiskiðnaði kom fyrst fram á þingi 1959–1960. Flm. hennar voru þá núv. hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. Reykn. Þetta var till. um að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir setningu löggjafar um skóla fyrir starfsmenn í fiskiðnaði, svo sem frekar er tilgreint í þessari till. Þessi till. fékk ekki afgreiðslu og var flutt á ný á næsta þingi 1960–1961. Þá bættust við upphaflega flm. tveir aðrir hv. alþm., sem enn eiga sæti á þingi og nú eru 10. landsk. þm. og 1. þm. Norðurl. e. Ekki fékk þessi till. afgreiðslu á þessu þingi, og enn fóru sömu menn af stað með málið á þingi 1961–1962, fluttu samhljóða eða að mestu samhljóða þáltill. um áskorun á ríkisstj. og vísuðu í grg. til fyrri flutnings á málinu. Till. fékk ekki afgreiðslu, en var flutt á ný á þinginu 1962–1963, enn af sömu fjórum hv: þm. Og nú kom að því, að till. fékk afgreiðslu og var samþ. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa nefnd í samráði við Fiskmat ríkisins, fiskmatsráð og helztu samtök fiskiðnaðarins til þess að gera fyrir næsta reglulegt Alþ. till. um stofnun og starfstilhögun almenns fiskiðnskóla í landinu. Skal nefndin m.a. kynna sér eftir föngum skipan fræðslumála fiskiðnaðarins í öðrum löndum.“

Nú hefði mátt ætla, að mál þetta væri komið í höfn, en það reyndist öðru nær. Á þinginu 1968 er enn verið að gera fsp. um, hvað liði störfum þeirrar fiskiðnskólanefndar, sem skipa átti samkv. þeirri tillgr., sem ég las hér rétt áðan. Sú nefnd, sem gert var ráð fyrir í till., var skipuð 27. nóv. 1964. Hún lauk störfum í des. 1966 og gerði till. um stofnun fiskiðnskóla, en þær till. báru engan árangur. Ekkert lagafrv. var lagt fram, og svo kom, að á Alþ. 1970 var málið tekið upp á ný, rúmum áratug eftir að það hafði verið reifað í fyrsta skipti í þingsölunum. Á því þingi koma fram hvorki meira né minna en fjögur frv., 11. mál þingsins 1970, frv. til l. um fiskiðnskóla, frá hv. núv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. Reykn. Síðan 64. mál, frv. til l. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum, flm. hv. 3. þm. Sunnl., sem ber fram fsp. þá, sem hér er til umr. Hið þriðja, 111. mál, frv. til l. um fiskvinnslustofnun ríkisins, þar sem þetta mál er tekið fyrir með nokkuð öðrum hætti. Flm. var núv. 5. þm. Reykn. Og svo í fjórða lagi 260. mál þingsins 1970, en þá var komið fram á árið 1971, það er stjfrv. til l. um fiskvinnsluskóla. Þetta frv. nær fram að ganga, og í framsöguræðu fyrirrennara míns er vikið að því, að hv. 3. þm. Sunnl. hafi fallizt á, að tekið yrði upp í þetta stjfrv. ákvæðið um stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum í stað þess frv., sem hann hafði áður flutt.

Lög um fiskvinnsluskóla voru svo staðfest af forseta Íslands 15. apríl 1971. Samkv. lögunum skal skólinn staðsettur á Suðvesturlandi, en auk þess skal stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara. Á árunum 1972–1975 skal enn fremur undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum, á Akranesi og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum. Heimilt skal að fengnu samþykki rn. að stofna framhaldsdeildir við skólana utan Reykjavíkur, þegar skilyrði eru fyrir hendi.

Staða skólastjóra við fiskvinnsluskólann var auglýst laus til umsóknar 26. maí s.l. og skólanum settur skólastjóri með bréfi rn. dags. 5. ágúst s.l. frá 1. sama mánaðar að telja. Skólanefnd var skipuð 6. júlí s.l. Í 17. gr. laga um skólann segir, að skólastjóri skuli fá eitt ár til að undirbúa stofnun og starfrækslu skólans í samráði við skólanefnd. Sama gildir um kennara, ef ráðnir verða.

Í lögunum er m.ö.o. ekki gert ráð fyrir, að skólinn taki til starfa, sá fyrsti skóli, sem lögin gera ráð fyrir, fyrr en í byrjun skólaárs 1972–1973. Með bréfi rn. dags. 4. okt. s.l. heimilaði hins vegar rn. samkv. till. skólanefndar og skólastjóra, að á þessu skólaári verði starfrækt bráðabirgðaundirbúningsdeild við skólann, og verði nemendum, sem standast próf úr undirbúningsdeild, heimilað að hefja nám í fiskiðndeild fiskvinnsluskólans haustið 1972. Aflað var aukafjárveitingar til að koma undirbúningsdeildinni á stofn, því að ekkert fé hafði verið veitt til fiskvinnsluskólans á fjárlögum. Skólinn tók síðan til starfa á þessu hausti, eins og kunnugt er. Rn. taldi rétt að hafa allan þennan hraða á undirbúningi og stofnun skólans, vegna þess hve hér er um brýnt og mikilvægt málefni að ræða, og var stofnun skólans því flýtt um eitt ár frá því, sem lög gera ráð fyrir. Rekstur undirbúningsdeildar þetta skólaár ætti að veita þýðingarmikla reynslu, sem treysta ætti til muna þann grundvöll, sem hinn nýi skóli mun hvíla á.

Um stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum er það að segja, að mjög er skiljanlegur hinn mikli áhugi Vestmanneyinga að fá slíkan skóla stofnaðan sem fyrst í kaupstaðnum. Hins vegar hefur ekki þótt rétt að efna samtímis til tveggja tilraunaskóla á þessu sviði, heldur bíða eftir þeirri reynslu, sem fást kann af skólanum í Reykjavík á þessu skólaári. Áður en stofnaður verður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum og aðrir þeir, sem gert er ráð fyrir í lögunum, þarf að athuga, hver raunveruleg þörf er fyrir starfsfólk með þá menntun, sem gert er ráð fyrir, að þessir skólar veiti, og hver þörf kann að vera á fólki í fiskiðnaði með aðra menntun. En engin slík athugun hefur farið fram. Það væri ekki rétt að hlaupa úr einum öfgunum í aðrar, og þegar skóli er loksins kominn til sögunnar, eftir að málið hefur dregizt í áratug, að flasa þá ekki að því að stofna sams konar, nákvæmlega sams konar skóla á mörgum stöðum án nokkurrar staðgóðrar vitneskju um atvinnuskilyrði nemendanna, sem þaðan yrðu útskrifaðir. Af þessum sökum sé ég mér ekki fært að nefna nein nákvæm tímamörk um stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum né skipun skólanefndar þar. En ótvírætt er samkv. lögunum, að Vestmannaeyjar hafa forgangsrétt til næsta fiskvinnsluskóla, sem settur verður á stofn.