16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í D-deild Alþingistíðinda. (4725)

65. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að það hefur verið lagt fyrir vegamálastjóra og hans starfslið að standa þannig að undirbúningi málsins um hringveg í kringum landið, að framkvæmdin megi takast á þremur árum. Á það hefur verið lögð áherzla, og sú stefna er skýrt mörkuð, þó að vegamálastjóri hafi hins vegar talið, að æskilegra væri að geta deilt framkvæmdaáföngum niður á fjögur ár. En hann mun vinna að framgangi málsins miðað við það, að verkið geti unnizt á þremur árum. Og ég álít þetta vera stórmál, sem miklu varði að koma heilu í höfn á sem skemmstum tíma.

Að öðru leyti var tilefnið til þess, að ég kom hér aftur í ræðustól, það, að hv. fyrirspyrjandi lét í ljós ugg um, að enn yrði dráttur á málinu, og skal ég, til þess að taka af öll tvímæli um það, skýra frá því, að ég hygg, að frv., sem ég skýrði frá, muni vera komið í prentun, og eftir það er það í höndum Alþingis að afgreiða það svo skjótlega sem verða má og því þóknast. Ég held því, að þessi meðferð málsins eigi ekki að þurfa að valda neinum drætti, a.m.k. er ekki dráttur á því, að frv. verði lagt fram, því að það mun vera komið í prentun. Fjmrn. sér að öðru leyti um framkvæmdina á þessu, eins og í fyrra tilfellinu. Lögin voru undirrituð af fyrrv. fjmrh., Magnúsi Jónssyni.