16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í D-deild Alþingistíðinda. (4726)

65. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 6. þm. Sunnl. um drátt á þessu máli, vildi ég nú segja það, að mikil hefði mín gleði orðið, ef fyrirrennarar mínir í ráðherrastólum hefðu verið svo röskir um framkvæmd á þáltill. minni frá 1958 um athugun á brúargerð yfir Borgarfjörð sem við höfum verið í sambandi við þessa framkvæmd, því að síðan eru nú liðin svo mörg ár sem menn vita, og hefur ekki enn þá auðnazt að koma því verki í framkvæmd. Hins vegar, eins og hæstv. samgrh. skýrði hér frá, þá var það að ráði Seðlabanka Íslands, sem farið var inn á þá braut að endursemja frv. að nýjum lögum í þeirri von, að það bæti meiri árangur fyrir málið. Og ef um sekt er að ræða í sambandi við það að hafa borið málið aðeins undir Austfirðinga, þá er ég sá seki þar um, því að það var að minni till., sem það var gert, og ég óskaði eftir því við Seðlabankann, að þeir ræddu þetta mál við Austfirðingana sérstaklega, sem var af þeirri einföldu ástæðu, að ég taldi, að þeir ættu nú svona meira undir þessu máli en aðrir, enda þótt það sé mál allra landsmanna.

Ég get svo sagt frá því, að málið var tilbúið í fyrri viku og er nú í prentun, eins og hæstv. samgrh. vék að áðan, og var m.a. leitað álits hjá hlutaðeigandi mönnum, eftir að frv. hafði verið tilbúið. Ég held, að þegar málið hefur verið athugað með sæmilegri sanngirni, þá verði að teljast, að unnið hafi verið að því með eðlilegum hraða og fyrst og fremst að því stefnt að ná þeim árangri um fjáröflunina, sem upphaflega frv. stefndi að.