16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í D-deild Alþingistíðinda. (4733)

906. mál, landshlutaáætlanir

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 70 er fsp. frá hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal, í sambandi við landshlutaáætlanir. Þessari fsp. hefur hv. þm. beint til mín, enda þótt landshlutaáætlanir tilheyri ekki fjmrn. nema þá að takmörkuðu leyti, en hins vegar hafa það verið Efnahagsstofnunin og Atvinnujöfnunarsjóður, sem hafa séð um framkvæmd þeirra mála. En ég skal leitast við að gefa hv. þm. svör við því, sem um er spurt.

Í fyrsta lagi er spurt um fjármagn, sem farið hefur til Vestfjarðaáætlunar, Norðurlandsáætlunar og Austurlandsáætlunar. Um þessar áætlanir er það að segja, að til Norðurlandsáætlunar hefur verið aflað tæplega 175 millj. kr. Því hefur öllu verið varið til atvinnumála. Þar af hafa tæplega 96 millj. kr. farið til opinberra aðila og sveitarfélaga, tæplega 69 millj. til iðnaðar, 5 millj. til sjávarútvegs og rösklega 5 millj. til þjónustugreina. Til Austurlandsáætlunar hefur verið aflað 60 millj. kr., sem öllu hefur verið varið á þessu ári til vegagerðar á Austurlandi. Samtals hefur verið aflað um 210 millj. kr. til framkvæmda Vestfjarðaáætlunar, eingöngu til samgöngumála. Alþ. hefur verið gerð grein fyrir framkvæmdum í Vestfjarðaáætlun í apríl 1969 með skýrslu, sem Efnahagsstofnunin þá sendi Alþ. Samkv. fyrirliggjandi upplýsingum er vegaframkvæmdum samkv. áætluninni öllum lokið nema á Breiðadalsheiði og Súgandafjarðarvegi, þar sem vantar nokkuð á, að endurbótum hafi verið lokið að fullu. Hafnarframkvæmdum samkv. Vestfjarðaáætlun er öllum lokið nema á Patreksfirði og Ísafirði, þar sem framkvæmdir hafa verið nokkuð með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í áætluninni.

Framkvæmdum í flugmálum er öllum lokið nema malbikun flugbrautarinnar á Ísafirði, en tækjabúnaður til þess hefur ekki verið fyrir hendi á staðnum. Skipting fjárins samkv. áætluninni er sem hér segir: Vegagerð 100 millj., hafnargerð 85 millj., flugvallagerð og flugstöð 25 millj.

Um síðari hluta fsp., sem er um Vesturlandsáætlun, segir Efnahagsstofnunin svo í því svari, sem ég hef þaðan fengið, en eins og kunnugt er vinnur hún að gerð þeirrar áætlunar:

„29. jan. 1971 sendu samtök sveitarfélaganna á Vesturlandi Atvinnujöfnunarsjóði og Efnahagsstofnuninni till. aðalfundar samtakanna frá 25. okt. 1970, þar sem lögð er áherzla á, að hafizt verði handa um gerð byggðaráætlunar fyrir Vesturland. 22. marz óskaði stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs eftir því, að Efnahagsstofnunin gerði atvinnuáætlun fyrir Vesturland ásamt sams konar áætlun fyrir Vestfirði og samgönguáætlun fyrir Norðurland. 9. júlí sendi Efnahagsstofnunin samtökum á Vesturlandi svo og öðrum samtökum sveitarfélaganna bréf, þar sem gerð er grein fyrir aðstöðu stofnunarinnar til þess að vinna að landshlutaáætlun, og talið nauðsynlegt, að jafnframt því sem unnið sé að áætlun fyrir einstaka landshluta verði komið upp kerfi helztu samanburðarstærða allra landshluta, og er verið að vinna að því. Jafnframt hefur verið unnið að nokkru úr sérstökum tölfræðilegum upplýsingum fyrir Vesturland, sem afhentar voru á aðalfundi sveitarfélagasambandsins í Borgarnesi 7. nóv. s.l., en þar hélt forstjóri Efnahagsstofnunarinnar erindi um væntanlega Vesturlandsáætlun, og urðu um það mál nokkrar umr. á fundinum.“

Hér hef ég greint frá þeim svörum, sem ég hef við þessum fsp. hv. 8. landsk, þm.