16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í D-deild Alþingistíðinda. (4734)

906. mál, landshlutaáætlanir

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur veitt. Það er fróðlegt að heyra þessar fáu heildartölur, sem leiða það í ljós, að það hafa verið útvegaðar 445 millj. kr. til margvíslegra framkvæmda í þrem landshlutum, sem þegar hafa fengið til framkvæmda landshlutaáætlanir. Af þessum 445 millj. hafa 270 millj. farið í samgöngumál á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ég vil sérstaklega minna á, að þetta mun vafalaust vekja athygli í öðrum landshlutum, ekki sízt á Vesturlandi, þar sem atvinnuástand og íbúatap er mjög svipað og á verulegum hlutum Norðurlands og Austfjarða, a.m.k. seinustu árin. Hversu vel hefur gengið að afla fjár til stórátaka samkv. þessum áætlunum, mun auka vonir manna um, að fljótlega verði hægt að gera eitthvað svipað varðandi Vesturlandsáætlun.

Hæstv. ráðh. sleppti úr upptalningu sinni því, að Alþ. hafði fengið til meðferðar þáltill. um Vesturlandsáætlun, áður en byrjað var að vinna að henni á þann hátt, sem hann réttilega skýrði frá, en það skiptir í sjálfu sér ekki meginmáli. Ég fagna því, að það skuli vera byrjað á þessari áætlun, og ég hef séð nokkuð af þeim tölulegu grundvallarupplýsingum, sem teknar hafa verið saman. Engu að síður verð ég að láta í ljós nokkra óþolinmæði með það, hversu hægt þetta verk hefur unnizt og að ekki skuli hafa verið hægt að setja meiri kraft í gerð þessarar áætlunar en raun ber vitni. Ég veit ekki, við hvern er að sakast í þessum efnum, enda er um að ræða tímabil, þar sem tvær ríkisstj. hafa átt hlut að máli og innan þeirra allir flokkar þingsins. En ég vil alveg sérstaklega vænta þess af hæstv. fjmrh., sem er þessu máli þraulkunnugur, að það verði meiri hraði á gerð Vesturlandsáætlunar í framtíðinni en verið hefur til þessa.

Um leið og ég endurtek, að við hljótum öll að gleðjast yfir þeim árangri, sem þegar hefur náðst á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi með öflun 445 millj. kr. til þessara áætlanaframkvæmda, vil ég minna á, að ef það dregst úr hömlu, að gerðar séu sambærilegar áætlanir fyrir aðra landshluta, þar sem ástand er mjög svipað, getur fram komið í þeim drætti allverulegt óréttlæti, sem ég vænti, að ekki verði.