25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í D-deild Alþingistíðinda. (4751)

75. mál, Vestfjarðaáætlun

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan nota tækifærið og fagna þessari fsp., sem hérna hefur fram komið.

Ég er mjög sammála hv. fyrirspyrjanda, hv. 5. þm. Vestf., að mikil nauðsyn er á því, að Vestfjarðaáætlun verði áfram haldið. Það er einnig víðs fjarri mér að gera ágreining við hann um það, að áreiðanlega hefur stuðningur við jafnvægi í byggð landsins verið meira í orði en á borði á undanförnum árum. Á því er enginn vafi. Ég geri mér hins vegar miklar vonir um það, að á þessu verði nú mikil breyting, og sýnist mér t.d., að þær upplýsingar um rafvæðingu dreifbýlisins, sem hér komu fram áðan, bendi eindregið til þess, að svo verði.

Ég ætla ekki heldur að gera ágreining við hv. fyrirspyrjanda um það, að taka verður upp skipulagðari vinnubrögð, eins og hann lagði svo ríka áherzlu á, en ég geri mér einnig vonir um, að á því sviði verði veruleg breyting, og vil ég vekja athygli hans á frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem nú liggur fyrir Ed. Með því frv. er einmitt að því stefnt, að slík vinnubrögð verði upp tekin, og vænti ég, að við það fáist góður stuðningur hv. fyrirspyrjanda.

Hins vegar voru það nokkur atriði í ræðu hans, sem ég vildi gjarnan gera nokkrar aths. við. Það var rétt hjá honum, að fyrsti áfangi Vestfjarðaáætlunar var eingöngu áfangi um samgöngumál. Þó er það svo, að t.d. ég, sem hef starfað nokkuð á Vestfjörðum, hef aldrei fengið að sjá þessa áætlun. Ég minnist þess frá framboðsfundum fyrir alþingiskosningar 1967, að þá var bók nokkurri mikið veifað, en þegar beðið var um að fá að sjá hana, fékkst það aldrei. Ég minnist þess t.d., að merkur bóndi þar fyrir vestan stóð upp á fundi og óskaði eftir því að fá að sjá þessa bók, en henni var þá hið skjótasta stungið niður í tösku, og eftir ítrekaða fyrirspurn var honum vísað til Efnahagsstofnunarinnar. Hann hringdi þangað og þá var honum svarað, að engin Vestfjarðaáætlun væri til. Nú vil ég varpa því hér fram til hæstv. forsrh., hvort ekki mætti draga upp þessi plögg, þannig að við gætum nú loksins fengið að sjá þau.

Mér þóttu þau tíðindi merkileg í upplýsingum hæstv. forsrh., að ekki var beðið um framhald af Vestfjarðaáætlun fyrr en 22. marz 1971. Þá voru fjögur ár frá því liðin, að þessi bóndi bað um að fá að sjá Vestfjarðaáætlun og honum var svarað, að hún væri ekki til.

Ég vil einnig fagna þeim upplýsingum, sem komu fram hjá hæstv. forsrh., að þessu máli verður strax vísað til Framkvæmdastofnunar ríkisins, og geri ég þá ráð fyrir því, að sú stofnun muni taka það mjög föstum tökum. Þetta hlýtur að verða eitt af hennar fyrstu málum, og ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að á því er mikil nauðsyn, að atvinnuáætlun Vestfjarða verði tekin til ítarlegrar áætlanagerðar og framkvæmda.

En ég vil einnig bæta því við, að ég lít alls ekki svo á, að samgöngumál Vestfjarða séu komin í viðunandi horf enn. Mikið hefur verið unnið og margt gott gert. Hitt er annað mál, að ég hygg, að það ríki nokkur misskilningur um samgöngumál Vestfjarða, og halda ýmsir, að þau séu öll komin í hið bezta horf. Það er misskilningur. Ég hygg, að sú áætlun, sem gerð verður, hljóti einnig að ná til samgöngumála.