25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í D-deild Alþingistíðinda. (4753)

75. mál, Vestfjarðaáætlun

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég get nú ekki orða bundizt undir þessum ræðum, sem hér hafa verið fluttar um byggðaáætlanir í landinu, ekki sízt þeirri síðustu, hjá hæstv. forsrh., að segja hér, eftir að hann var búinn að lesa upp, að gerð hafi verið Vestfjarðaáætlun á sínum tíma og eftir henni hafi verið varið 210 millj. kr., að hann vissi ekkert um þessa áætlun og hefði ekki séð hana. (Gripið fram í: Ég sagði, að ég hefði ekki séð hana.) Það kann að vera, að það skipti meginmáli fyrir einhverja að fá að sjá einhverjar tölur á blaði og fá að sjá blöðin. Ég held, að fyrir fólkið, sem á að fá að njóta þeirra framkvæmda, sem gera skal hverju sinni, skipti það meginmáli að fá að sjá framkvæmdirnar.

Það hefur komið fram hér í þessum umr., að menn hafa gjarnan talað um, að jafnvægi í byggð landsins hafi verið meira í munni manna en það hafi komið fram í framkvæmd. Ég skal taka undir þetta. Ég vil bara benda á það, að þetta hefur verið svo alla tíð, ekki bara í tíð fyrrv. ríkisstj., heldur í tíð allra ríkisstjórna frá því að sögur hófust hér á landi. En ég vil benda á það, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var þegar brotið blað í þessum efnum. Þá var tekið að gera og framkvæma byggðaáætlanir. Menn geta kvartað um það, og hv. framsóknarmenn héldu því fram á framboðsfundum á sínum tíma og halda enn fram, að Vestfjarðaáætlun hafi ekki verið til, þótt samkv. henni hafi verið framkvæmt fyrir 210 millj. kr. sérstaklega, umfram aðrar framkvæmdir á Vestfjörðum. En menn geta ekki dregið það í efa, að aðrar byggðaáætlanir hafa verið framkvæmdar og hafa legið fyrir í pappírsgögnum líka. Svo er t.d. um Norðurlandsáætlun og Austfjarðaáætlun, sem nú er verið að framkvæma. Þær áætlanir hafa þó bæði sézt á pappír og eins í framkvæmd.****

Ég held, að það sé útbreiddur misskilningur, hvað í rauninni felist í byggðaáætlun. Ég ætla ekki að fara að taka hv. alþm. í tíma um það eða segja þeim, hvernig slíkar áætlanir eru gerðar og þaðan af síður framkvæmdar, en ég vil aðeins minna á það, að í þessu hugtaki felst, að kannaður sé sérvandi hvers byggðarlags, hvers landshluta og fundið, hvers vegna byggðarlagið sé sérstaklega veikt og hvers vegna fólkið flyzt úr því. Síðan eru gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til þess að reyna með þeim hætti, sem unnt er, — vegna þess að fjármagn er alltaf takmarkað, — að koma í veg fyrir, að byggð raskist frekar á þessum ákveðna landshluta. Það er sem sagt kannaður sérvandi byggðarlagsins og reynt að gera þær framkvæmdir, sem stuðla að því að laga fyrir mönnum í umræddum landshluta. Þarna er sem sagt um að ræða hluti, sem eru algjörlega óskyldir öðrum framkvæmdaáætlunum, og eru gerðir í allt öðrum tilgangi. Þessi verkefni hljóta alltaf að vera sér á blaði, og ég vona, að svo verði áfram, að svonefnd Framkvæmdastofnun, þó að hún sé stórkostlega gölluð að mínum dómi, eins og hún er fyrirhuguð samkv. frv., sem hér liggur fyrir, að hún haldi áfram að gera slíkar sérstakar byggðaáætlanir og framkvæma þær. Ég skal svo ekki hafa þessi orð lengri, en ég vil bara spyrja hér að lokum, hvort menn geti ekki fallizt á, að það hafi verið meira virði fyrir Vestfirðinga, þó að allar samgöngubætur þeirra yrðu ekki leystar á einu bretti, að fá framkvæmdir fyrir 210 millj. kr. til samgöngubóta þar en að fá að sjá eitthvert plagg á sínum tíma.