25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í D-deild Alþingistíðinda. (4759)

909. mál, bygging héraðsskóla

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 2. þm. Vestf. um byggingu héraðsskóla er svolátandi:

„Hefur ríkisstj. ákveðið að byggja upp alla héraðsskóla á landinu á tilteknu árabili, og ef svo er, hvað er áætlað, að uppbygging hvers héraðsskóla um sig kosti og hve langan tíma á hún að taka?“

Spurningunni er þessu til að svara: Á síðustu árum hefur orðið veruleg breyting á stöðu héraðsskólanna í skólakerfinu. Unnið hefur verið markvisst að því að lengja skólagöngu í mörgum sveitarfélögum dreifbýlisins, sem áður höfðu aðeins barnafræðslu eða barnafræðslu og 1. bekk unglingastigs. Þetta hefur haft í för með sér, að héraðsskólarnir hafa fengið betur undirbúna nemendur og kennslan horfið meir og meir af sviði skyldunámsins. Í aprílmánuði 1968 efndi menntmrn. til ráðstefnu í Reykjavík með skólastjórum allra héraðsskólanna um málefni þessara skóla. Voru þar sérstaklega rædd eftirgreind atriði. Í fyrsta lagi stærð héraðsskólanna, þ.e. æskilegur nemendafjöldi í heimavistarskólum gagnfræðanáms. Í öðru lagi möguleikar á því, að héraðsskólarnir hætti að veita viðtöku öðrum en þeim, sem lokið hafa skyldunámi, og þá, hvort auka ætti einum eða fleiri bekkjum við skólana. Á ráðstefnu þessari náðist full samstaða um, að miða skyldi stærð skólanna við 120–150 nemendur, og einnig var samstaða um, að æskilegt væri, að héraðsskólarnir yrðu framvegis fyrst og fremst fyrir nemendur, sem hefðu lokið skyldunámi, þótt einstök frávik kynnu að verða frá þessu. Segja má, að þróun í byggingarmálum og kennslumálum héraðsskólanna hafi í stórum dráttum verið í samræmi við þessar niðurstöður. Héraðsskólarnir eru smátt og smátt að fella niður unglingadeildir, þ.e. 1. og 2. bekk núv. gagnfræðastigs, og skólaárið 1970–1971 höfðu aðeins þrír þeirra 1. bekk unglingastigs. Á sama tíma hefur kennsla í 3. og 4. bekk gagnfræðastigs verið samræmd í héraðsskólum, og komnar eru framhaldsdeildir gagnfræðanáms við tvo héraðsskóla, Eiðaskóla og Reykholt. Hefur menntmrn. undanfarin ár gert till. til fjárlaga, er miðað hafa að uppbyggingu og endurbyggingu héraðsskólanna í samræmi við þessi markmið.

Gert hefur verið yfirlit um framlög til byggingarframkvæmda einstakra héraðsskóla á árabilinu 1963–1971, á átta ára bili. Þá kemur í ljós, að þar er efstur á blaði Núpsskóli, sem hefur hlotið hæst byggingarframlög á þessu tímabili, 36 millj. 438 þús. kr. Annar í röðinni er héraðsskólinn í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hans hlutur af framlögum til byggingarframkvæmda héraðsskóla nam á átta árum, 1963–1971, 30 millj. 706 þús. kr. Þriðji í röðinni er Eiðaskóli. Til hans hafa gengið 22 millj. 259 þús. kr. Fjórði í röðinni er Reykjaskóli, hann hefur hlotið 17 millj. 665 þús. kr. Fimmti í röðinni er Reykholtsskóli með 16 millj. 883 þús. kr., sjötti Skógaskóli með 8 millj. 946 þús. kr., og sjöundi og síðasti er Laugarvatnsskóli, sem fengið hefur 4 millj. 690 þús. kr.

Að undanförnu hefur verið unnið að áætlun um heildarskólaskipan dreifbýlisins. Er sýnilegt, að héraðsskólarnir þurfa um sinn a.m.k. að gegna ákveðnu hlutverki innan skyldunámsins, ekki sízt ef það kynni að verða lengt, eins og gert er ráð fyrir í grunnskólafrv., sem lá fyrir síðasta Alþ. Hlutverk héraðsskólanna í framtíðinni verður hins vegar vafalaust fyrst og fremst að veita viðbótarnám við skyldunám, enda er almennur áhugi á því, að nemendur geti hlotið sem mesta almenna fræðslu heima í héraði. Nú hefur verið ákveðið að boða til annarrar ráðstefnu með skólastjórum héraðsskólanna á næstunni, einmitt til að ræða áfram stöðu héraðsskólanna í skólakerfinu og framtíðarhlutverk þeirra og uppbyggingu, m.a. hugsanlega verkaskiptingu milli skólanna um sérhæft framhaldsnám.

Héraðsskólarnir hafa, eins og allir vita, gegnt þýðingarmiklu hlutverki í fræðslumálum landsins um langt skeið. Þeir voru áður sameign heimahéraðanna og ríkisins, en fyrir nokkrum árum var samþ. heimild til, að ríkið tæki að sér rekstur skólanna að öllu leyti, og hafa allir héraðsskólarnir notfært sér þá heimild nema héraðsskólinn að Laugum í Þingeyjarsýslu. Meðan héraðsskólarnir voru sameign héraðanna og ríkisins, áttu þeir oft í miklum fjárhagserfiðleikum. Á liðnum árum fóru allmiklir fjármunir til að greiða gamlar skuldir, og í seinni tíð hefur verið varið verulegum fjármunum til þess að bæta aðstöðu skólanna, bæði húsnæðislega og á annan hátt. Og síðan ráðstefnan var haldin 1968, hefur markvisst verið miðað við, að skólarnir yrðu ýmist fyrir 120 eða 150 nemendur og að öll aðstaða á skólastaðnum, húsnæði, kennaralið og kennslutæki, yrði við þetta miðuð. Í seinni tíð er og miðað við, að við héraðsskólana verði starfandi framhaldsdeildir gagnfræðanáms eða önnur kennsla á því stigi.

Sem einn lið í uppbyggingu héraðsskólanna má nefna, að nú hefur verið tekin ákvörðun um af ríkisstj. hálfu, að veittar skuli 15 millj. kr. á ári til stofnkostnaðarframkvæmda héraðsskólans að Reykholti í Borgarfirði miðað við 150 manna skóla, sem sé fær um að veita 3–4 ára kennslu til viðbótar skyldunámi. Hér er um mikla viðbót að ræða í fjárframlögum til héraðsskólamála almennt, því að miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í byggingarmálum annarra héraðsskóla á undanförnum árum, til að mynda sérstaklega að Núpi í Dýrafirði, í Reykjanesi, að Eiðum, Reykjum í Hrútafirði og yfirleitt eitthvað verið gert við alla skólana, þó að mjög misjafnt hafi verið, eins og kom fram af yfirlitinu, sem ég las. Ekki liggur fyrir áætlun um, hversu miklu þarf að verja til hvers héraðsskóla til þess að ná því marki, sem keppt er að um fullbúinn héraðsskóla fyrir 120–150 nemendur. Og einnig er erfitt að segja um, hve langan tíma slík uppbygging tekur. En í þessa átt er stefnt, og núv. ríkisstj. hefur sérstakan áhuga á að greiða fyrir nauðsynlegum skólabyggingum í landinu.

Fyllri svör er ekki unnt að veita við fram borinni fsp. að þessu sinni, en ég vænti, að þessar upplýsingar veiti hv. fyrirspyrjanda þá vitneskju, sem hann leitar eftir með fsp, sinni.