25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í D-deild Alþingistíðinda. (4766)

907. mál, neytendavernd

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvað líður undirbúningi að setningu laga um neytendavernd, og hvenær má búast við, að frv. þess efnis verði lagt fyrir Alþ.?“ Svar viðskrn. við þessari spurningu er á þessa leið:

„Í jan. s.l. fól viðskrn. Hrafni Bragasyni lögfræðingi að semja frv. til l. um neytendavernd. Fyrir rúmum mánuði sendi Hrafn rn. drög að frv. ásamt grg„ þar sem gert er ráð fyrir að koma á fót stofnun, er fari með mál, er varða neytendavernd og annist jafnframt eftirlit með samkeppnishömlum. Málið er nú til athugunar hjá rn., og um framhald þess er ekki hægt að segja á þessu stigi.“

Ég hef litlu við þetta að bæta. Málið hefur verið rætt nokkrum sinnum við þá aðila, sem hér eiga verulegan hlut að máli, en þær till., sem liggja fyrir í frv.-formi, eru yfirgripsmiklar, og það tekur nokkurn tíma að fara yfir þær og átta sig á því, hvort rétt þykir að leggja frv. fyrir Alþ. í því formi, sem það hefur borizt rn. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda, að hér er um mjög mikilsvert málefni að ræða og eflaust brýn þörf á því, að sett verði löggjöf um þessi málefni, en á þessu stigi málsins treysti ég mér ekki til þess að segja neitt nánar um það, hvenær málið kann að verða lagt hér fyrir Alþ., en að undirbúningi þess er unnið.