30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í D-deild Alþingistíðinda. (4773)

911. mál, æskulýðsmál

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 9. landsk. þm. er á þessa leið:

„Er 100 þús. kr. fjárveiting í fjárlagafrv. ríkisstj. til æskulýðsráðs ríkisins í samræmi við óskir og hlutverk æskulýðsráðs?“

Svar mitt við fsp. er svo hljóðandi:

Lög um æskulýðsmál eru frá 17. apríl 1970, og samkv. þeim lögum var komið á fót æskulýðsráði ríkisins. Æskulýðsráð gerði samkv. lögunum í fyrsta sinn till. til menntmrn. um fjárveitingar til æskulýðsmála við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1972, sem nú liggur fyrir hv. Alþ. Till. æskulýðsráðs um fjárframlög í fjárlögum 1972 námu samtals 6.1 millj. kr., þar af til æskulýðsráðs sjálfs 300 þús. kr. vegna ráðstefnuhalds og annars rekstrar, vegna einstakra verkefna til stuðnings félags- og tómstundastarfi 3.5 millj. kr. og bein framlög til æskulýðssamtaka 2.3 millj. kr. Menntmrn. sendi till. þessar áfram til fjmrn. og mæltist til, að þær yrðu teknar til greina við undirbúning fjárlagafrv. Við gerð fjárlagafrv. voru teknar í frv. 100 þús. kr. til æskulýðsráðs í staðinn fyrir, að farið var fram á 300 þús. Til einstakra verkefna var ekkert tekið í fjárlagafrv., en sem bein framlög til æskulýðssamtaka voru teknar 2 millj. 60 þús. í stað þess, að æskulýðsráð fór fram á 2.3 millj.

Að sjálfsögðu er enn óútkljáð, hver verður afgreiðsla Alþingis á fjárveitingum til þessara mála sem annarra við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1972. En ég vil benda á, að í fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir Alþ. eru í heild ætlaðar 29.1 millj. kr. til æskulýðs- og íþróttamála í stað 19.4 millj. kr. í þessu sama skyni á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Veldur þarna mestu hin mikla hækkun á fyrirhuguðum framlögum til íþróttasjóðs úr 5 millj. í 13 millj. og veruleg hækkun er einnig ráðgerð á framlagi til Ungmennafélags Íslands.

Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að fá sem mest fjármagn til æskulýðsmála. En það væri óraunsætt að gera sér ekki grein fyrir, að í mörg horn er að lita og endanleg afgreiðsla fjárlaga, bæði að því er varðar þessi mál og öll önnur, er háð getunni til þess að sinna hinum óendanlega mörgu og þýðingarmiklu verkefnum, sem jafnan eru miklu meiri en fjármagn leyfir, að leyst séu öll í einu.