30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í D-deild Alþingistíðinda. (4774)

911. mál, æskulýðsmál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir svar það, sem menntmrh. hefur gefið við fsp. minni. Því miður varð mér ekki að þeirri von minni, að hann gæfi hér yfirlýsingu um, að þessi fjárveiting mundi hækka í meðförum, og veldur það mér að sjálfsögðu miklum vonbrigðum eins og öllum þeim aðilum, sem að þessu máli standa. Enda þótt ráðh. minnist hér á, að ýmsar fjárveitingar séu til æskulýðsmála, m.a. til Íþróttasjóðs og annarra stofnana, á öðrum liðum fjárlagafrv., þá er það ekki inntak minnar spurningar og er ekki höfuðatriði þessa máls. Með lögum um æskulýðsmál frá 1970 eru mörkuð ákveðin verkefni fyrir æskulýðsráð ríkisins og fyrir æskulýðsfulltrúa ríkisins. Þessi fulltrúi var ráðinn hér á s.l. ári, og æskulýðsráðið var skipað á síðasta ári, og þessir aðilar hófu þegar störf og hafa sett fram till. og hafa á prjónunum ýmiss konar starfsemi innan ramma þessarar löggjafar. Það er ekki hægt að sjá með góðu móti, hvernig þessu æskulýðsráði er ætlað að starfa í samræmi við lögin með 100 þús. kr. veganesti. Það hlýtur að standa næst þessum aðilum nánast að segja af sér þeim störfum, þegar virðing og umhyggja ríkisvaldsins er ekki meiri fyrir æskulýðsmálum og þessum lögum en raun er á.

Ég vil af þessu tilefni minna lítillega á, að þegar þetta frv. var til meðferðar á þinginu hér fyrir 1–2 árum síðan, var þáv. menntmrh. núið því um nasir, að hann hefði ekki hugsað sér að láta þessi lög koma til mikilla framkvæmda, og þó að þau segðu um mikinn og merkan hlut í sínum ákvæðum, þá stæði þetta mál og félli með fjárveitingunni til þessara mála. Með leyfi hæstv. forseta vildi ég leyfa mér að vitna til ummæla hv. þm. Jónasar Árnasonar við umr. um þetta mál á sínum tíma, en þar segir hann m.a. um menntmrh. og þann félagsskap, sem hann taldi hann vera í á þeim tíma:

„En þessi staðreynd, þessi vafasami félagsskapur, sem hæstv. ráðh. hefur valið sér, veldur mér einnig nokkrum beyg í sambandi við framkvæmd þeirra mála, sem ráðgerð eru í þessu frv. Það er talað um fjárveitingar. Það er hins vegar lítið talað um það, hve háar þær eiga að verða, né heldur hvernig þær verði tryggðar. Margt bendir sem sé til þess, að eftir að hæstv. menntmrh. hefði fengið frv. þetta samþ., færi fyrst verulega að reyna á einlægni hans í málinu og dugnað, hvernig honum tækist til með að fyrirbyggja óæskileg áhrif þess mammonssafnaðar, sem mestu ræður um aðgerðir hæstv. ríkisstj., og að tryggja nægan stuðning fjárveitingavaldsins. Það hygg ég, að verði þrautin þyngst.“

Að endingu sagði þessi sami hv, þm.: „Þó að frv. þetta nefnist frv. til l. um æskulýðsráð, lít ég svo á, að framkvæmd slíkra laga eigi ekki að vera bundin einvörðungu við æskulýðsmál í þröngri merkingu. Ég vil vona, að framkvæmdin verði með þeim hætti, að frv. hefði eins mátt nefnast frv. til l. um heilbrigð samskipti og sættir milli ungra og gamalla Íslendinga.“

Svo mörg voru þau orð. Svo merk voru þau verkefni, sem þessum lögum var ætlað að gegna. Nú spyr ég: Er ætlazt til þess, að æskulýðsráð sætti unga og gamla Íslendinga fyrir 100 þús. kr., og er það rétt, að núv. menntmrh. sé í engu betri mammonssöfnuði heldur en fyrrv. menntmrh.?