14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

1. mál, fjárlög 1972

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er einkum orð, sem hæstv. fjmrh. lét falla í ræðu sinni hér áðan. Honum varð þar mjög tíðrætt um þá miklu hækkun, sem orðið hefur á fjárlögunum og enginn vafi er á, að er langmesta hækkun, sem nokkru sinni hefur orðið á fjárlögum á milli tveggja ára, og er ekki útséð um það enn þá, hversu mikil þessi hækkun mun verða, þegar öll kurl eru komin til grafar. Það, sem einkum var eftirtektarvert í máli hæstv. ráðh. af þessu tilefni, var sú niðurstaða hans, að öll þessi hækkun væri ekki að kenna hæstv. ríkisstj., sem gekk frá fjárlagafrv., heldur þeirri ríkisstj., sem setið hefur á undan henni, fráfarandi ríkisstj. Hann nefndi í því tilefni ýmis atriði og ég hjó eftir því, að honum varð tíðrætt um þá bagga, sem fráfarandi ríkisstj. hefur bundið hæstv. núv. ríkisstj. vegna skólamála dreifbýlisins, og minntist hæstv. fjmrh. þar sérstaklega á jafnviðamikla liði í þessari 5 milljarða kr. hækkun fjárlaga eins og akstur skólabarna og í öðru lagi byggingu nokkurra skóla. Þar sem hæstv. fjmrh. minntist sérstaklega í þessu efni á nokkra skóla, sem eru í Norðurlandskjördæmi e., sé ég mig knúinn til þess að koma með svo hljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh.: Ef hin nauma fjárveiting, sem gert er ráð fyrir í till. fjvn. um skiptingu skólafjárins til Hrafnagils-, Stóru-Tjarna- og Hafralækjarskóla, hrekkur ekki fyrir lögboðnum framlögum ríkissjóðs á næsta ári, eins og framkvæmdum miðar áfram, mun þá hæstv. fjmrh. gera ráðstafanir til þess, að ríkissjóður geti staðið við skuldbindingar sínar? Það er mjög þýðingarmikið að fá þetta upplýst strax, til þess að eðlilegar framkvæmdir geti orðið við þessa skóla nú á næsta ári. Þá er það í öðru lagi einkar þýðingarmikið að fá það upplýst vegna orða hæstv. fjmrh. hér áðan, hvað hann hyggst fyrir í sambandi við skólakostnaðarlögin. Ég skildi orð hæstv. ráðh. svo, að hann mundi beita sér fyrir breytingu á skólakostnaðarlögunum í þá átt, að ríkissjóður greiddi framlag sitt til skólabygginga á fimm árum í stað þriggja, eins og nú er ákveðið í lögum. Þó það hafi í framkvæmdinni verið fjögur ár, þá tel ég einkar mikilvægt að fá það upplýst, hvað hæstv. fjmrh. hyggst fyrir í þessu efni.

Þá eru í öðru lagi ummæli, sem hæstv. fjmrh. lét hér falla áðan, sem glöddu mig mjög mikið, þar sem hann með mjög háfleygum orðum fjallaði um þá miklu þýðingu, sem leiklistarstarfsemi hefði í strjálbýlinu. Það vill svo til, að einmitt fyrr á þessu sama þingi hefur hv. 6. landsk. þm. fjallað um þetta sama mál og hv. 6. landsk. þm. vék einmitt að því í máli sínu hér í hv. Sþ., að tímabært væri, að Leikfélag Akureyrar væri tekið inn með sérstaka fjárveitingu til leikhússstarfsemi. Vegna þeirra háfleygu orða, sem hæstv. fjmrh. lét áðan falla um þýðingu leiklistarstarfseminnar út á landi, og vegna þess að ég hyggst vita það, að Helgi F. Seljan, hv. 6. landsk. þm., hafi nokkur áhrif í sínum flokki vegna fóstra síns, þá geri ég mér vonir um það, að á brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 197 um það, að Leikfélag Akureyrar fái sjálfstæða fjárveitingu, 750 þús. kr., verði fallizt af stjórnarflokkunum, einkum þar sem ég hef orðið var við það hér í sölum Alþ., að einkum þm. strjálbýlisins hafa gert sér grein fyrir því, að það er mjög nauðsynlegt að efla það, að úti á landsbyggðinni geti komið nokkur kjarni til mótvægis við þá menningarmiðstöð, sem öll hefur safnazt saman hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég teldi það einkar vel til fallið, ef þessi fyrsta fjárveiting yrði hinn fyrsti áfangi til þess, að á Akureyri mætti risa upp einhvers konar menningarmiðstöð, leiklistarmiðstöð, og að Þjóðleikhúsið og hæstv. menntmrh. beittu sér fyrir því, að Þjóðleikhúsið væri mjög jákvætt í þessu efni. Ég skildi hæstv. fjmrh. svo hér áðan, að hann hefði talað sín fallegu orð um leiklistarstarfsemina í landinu í fullri alvöru, og vænti þess, að hann muni líta með velvild á þessa till. mína.

Þá vil ég í þriðja lagi beina því til hv. fjvn., og ég vona, að það komist til skila til formanns hennar, þó hann sé hér ekki við, að mér hefur sýnzt við fljótlega athugun, að þær fjárveitingar, sem þar er gert ráð fyrir til húsmæðraskóla, nægi engan veginn fyrir þörfinni. Þannig flytur fjvn. till. um það á þskj. 177, að fjárveitingar til gjaldfærðs stofnkostnaðar verði lækkaðar um rúmar 2 millj. kr. Mér hefur verið sagt, að þarna sé um brýna þörf að ræða fyrir upphæðina, og vænti þess, að fjvn. taki það til athugunar á milli 2. og 3. umr. Í annan stað vænti ég þess, að fjvn. taki til athugunar og skýt því til hennar, hvort ekki mætti hækka viðhald til húsmæðraskóla í samræmi við það, sem menntmrn. gerir ráð fyrir, sem mér skilst að sé 8.6 millj. úr 4 millj., og ég hygg, að það sé þörf fyrir allt það viðhald, sem þar er gert ráð fyrir. Ég vil í þessu sambandi benda á sérstaka þörf Húsmæðraskóla Akureyrar.

Þegar ég hlýddi hér í dag á ræðu hv. 4. landsk. þm. og las till. hans um að hækka framlög til barnaheimila um 1 millj. kr., þá kom mér í hug, eftir öll þau stóru orð, sem hv. þm. hefur sagt um þörf kvenna í þessu efni, hið fornkveðna: fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús. Ég hygg, að enginn hv. þm. hafi látið öllu sterkari orð falla en einmitt þessi hv. þm. í sambandi við þörf kvenna fyrir dagheimili. Þess vegna verð ég að segja það, vegna þess að ég tók þessi ummæli hennar svo, að Alþb. væri búið að kjósa sinn fulltrúa í nefnd, sem ríkisstj. hygðist skipa til þess að endurskoða þessi mál, og ég skildi hv. þm. þannig, að hún yrði fyrir valinu, og þá þótti mér þetta satt að segja hálf leiðinlegt mark, sem hv. þm. setti sér, ef nefndin á að koma saman til þess að ráðstafa þessari 1 millj. kr. Ég tek það fram, að ég fagna því, ef þetta verður, en ég hygg, að þetta bæti lítið úr þeim vanda, sem strjálbýlið býr við í þessu efni, og ég held, að fólk ætti að spara sér að nota stór orð í því sambandi.

Að síðustu get ég ekki farið svo úr þessum ræðustól, að vekja ekki enn, eins og margir hv. þm. hafa gert á undan mér, athygli á þeim undarlega samanburði, sem hæstv. fjmrh. gerði í ræðu sinni hér áðan, þegar hann var að bera afgreiðslu þessa frv., sem hér liggur fyrir við 2. umr. nú, saman við þau fjárlagafrv., sem legið hafa fyrir frá því á árinu 1960. Ég veit, að hæstv. fjmrh. er gagnkunnugur þessum málum, en ég ókunnugur, en þó hygg ég, að það muni vera einsdæmi, að fjmrh. geri hvort tveggja, að lýsa því yfir, að hann ætli að afgreiða hallalaus fjárlög annars vegar og hins vegar að sýna þingheimi fjárlög, sem miðað við þær till., sem fjvn. tekur til greina, eru með um 700 millj. greiðsluhalla. Það hygg ég, að sé einsdæmi, ekki síður en hitt, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. sagði hér áðan, að í grundvallaratriðum lægi tekjuáætlunin ekki fyrir. Ég hygg, að það þurfi anzi flókinn samanhurð til þess að sýna fram á einhverja hliðstæðu í þessu efni, en við getum átt von á því, að hún komi. Báðir hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., hafa mjög gert því skóna, að þessi samanburður sé fyrir hendi, og það væri mjög skemmtilegt að fá hann upplýstan, sérstaklega ef hann á að vera frá síðustu 10 árum. Sannleikurinn í þessu máli er að sjálfsögðu sá, eins og allir þm. vita og allur landslýður veit, að afgreiðsla fjárlaga verður nú með þeim einsdæmum, að ég hygg, í fyrsta lagi, að þessi 2. umr. liði svo, að hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til þess að segja til um það, hvað hið nýja frv., sem lagt hefur verið fram um tekju- og eignarskatt, muni gefa ríkissjóði miklar tekjur. Ég hygg það. Það væri þá skemmtilegt, ef það fengist upplýst hér, hvað þetta frv. á að gefa ríkisstj. miklar tekjur, en ég hygg, að það sé enn ein sérstæðan við þessa 2. umr. nú, að hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til þess. Ég hygg í annan stað, að þetta verði að því leyti eftirminnileg fjárlög, að nú liggur fyrir, að ríkissjóður eigi að taka við geysilegum skuldbindingum af sveitarfélögunum, samhliða því sem boðuð er algjör breyting á tekjustofnum sveitarfélaga. Ég hygg, að það liggi heldur ekki fyrir við 2. umr. og verði ekki, í fyrsta lagi, hvað er ætlazt til þess að ríkissjóður taki við miklum byrðum af sveitarfélögum, hvað nemur það miklu, og í öðru lagi, hvað mundu þessir nýju tekjustofnar sveitarfélaganna gefa mikið af sér. Við vitum það, að við þessa umr. munu fjárlög hækka um 7–800 millj. kr. eftir till. meiri hl. fjvn. Við vitum, að óhjákvæmilegt verður að hækka fjárlögin um annað eins eða enn þá meira, og hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að hann ætli að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Þó hefur mér skilizt á þeim, sem hlýddu á hæstv. fjmrh. í sjónvarpinu í gærkvöld, þegar hann gerði grein fyrir þeim breytingum, sem fælust í skattafrv., að þetta frv. ætti að fela í sér eintóma lækkun. Það veit hæstv. fjmrh. og það vita allir hv. þm., að nú er stefnt að meiri skattpíningu landsmanna en þekkzt hefur frá örófi. Það er ekki aðeins, að til stendur, að tekjuskatturinn eigi að gefa helmingi meira af sér, heldur á að þrefalda fasteignagjöld. Það á að þrefalda eignarskatta, erfðafjárskatt o.s.frv. o.s.frv. Það er naumast til sá skattstofn í þessu landi, að hann verði ekki hækkaður með einum eða öðrum hætti. Þess vegna er vissulega ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort von sé á því, að það komi fleiri frv. í þessa átt frá hæstv. ríkisstj. Eiga fleiri skattahækkunarfrv. eftir að sjá dagsins ljós nú fyrir þessi jól?