07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í D-deild Alþingistíðinda. (4780)

912. mál, málefni Siglufjarðar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á s.l. hausti sneru aðilar frá Siglufirði, þ.e. bæjarstjórn Siglufjarðar og atvinnumálanefnd Siglufjarðar, sér til ríkisstj. vegna ískyggilegs útlits í atvinnumálum kaupstaðarins og vegna fjárhagsvandræða bæjarfélagsins. Það varð úr, að ríkisstj. fól þremur mönnum að athuga málefni Siglufjarðar sérstaklega. Þetta átti sér stað seint í sept. Mennirnir, sem tilnefndir voru í nefndina, voru Ragnar Arnalds alþm., Jón Kjartansson forstjóri og Tryggvi Helgason, Akureyri. Þeir áttu að kanna ástand og horfur í atvinnu- og efnahagsmálum Siglufjarðar og gera till. til úrbóta. Þeir fóru til Siglufjarðar og dvöldu þar nokkra daga, ræddu við bæjarstjóra, atvinnumálanefnd Siglufjarðar, bæjarfulltrúa, forustumenn verkalýðsfélagsins, atvinnurekendur, stjórnendur Síldarverksmiðja ríkisins, ýmsa iðnaðarmenn og fleiri aðila. Og þar á staðnum fór einnig fram gagnasöfnun varðandi rekstur og afkomu atvinnufyrirtækja á staðnum og um hag bæjarfélagsins. Síðan var þessum viðræðufundum haldið áfram í Reykjavík í okt., og nefndin skilaði svo skýrslu til ríkisstj. um mánaðamótin okt.–nóv. Mér varð það óvart á að nefna nefnd. Ég geri nú ekki mikið með það, hvort hér verður talað um nefnd eða eitthvað annað.

Í skýrslu þessara manna er fyrst gerð stuttleg grein fyrir þeim erfiðleikum, sem við er að eiga á Siglufirði, og ég held, að það sé rétt, að ég aðeins reki það í örstuttu máli eða lesi það nánast upp, sem þeir segja um það atriði. Í skýrslunni segir svo, með leyfi forseta:

„Siglufjörður á í dag við að glíma mjög alvarlega erfiðleika og margvíslega samtvinnaða.

1) Atvinnuleysi var þar hlutfallslega miklu meira á s.l. vetri en í nokkrum öðrum kaupstað, og líklegt er, að atvinnuástandið eigi eftir að stórversna, ef ekkert er að gert.

2) Bæjarfélagið er stórskuldugt og gjaldfallnar skuldir rúmar 17 millj. kr. vegna ýmiss konar áfalla, og er því bæjarfélagið ekki líklegt til mikilla átaka í atvinnumálum.

3) Bæjarfélagið er óvenjulega tekjulítið miðað við íbúafjölda, og er reiknað með, að á þessu ári verði tekjur á íbúa frá 50–100% hærri í sjö kaupstöðum landsins en á Siglufirði og í flestum öðrum kaupstöðum 30–50% hærri.

4) Tekjuleysi bæjarins á sér langa sögu og stafar ekki sízt af því, hve óvenjumikið hefur verið í bænum um opinberan rekstur, sem lítil gjöld hefur greitt.

5) Nú hefur það bætzt ofan á annað, að stærstu atvinnurekendurnir, hvort heldur er í opinberum rekstri, samvinnurekstri eða einkarekstri, hafa dregið saman seglin með ýmsum hætti. Kaupfélagið, sem áður var langstærsti verzlunaraðilinn, varð gjaldþrota á þessu ári og er nú úr sögunni. Báturinn Siglfirðingur hefur verið seldur úr bænum og útgerðarfélagið leyst upp. Auk þess er stærsti atvinnurekandi bæjarins, Síldarverksmiðjur ríkisins, algerlega fjárvana og rekstur Tunnuverksmiðju ríkisins í lágmarki.“

Síðan eru svo í þessari skýrslu gerðar nokkrar till. um úrbætur. Þær eru i 13 liðum, og þó að ég nefndi nú till., þá mundi í sumu falli vera réttara að segja, að þar væri fremur um hugmyndir að ræða en beinar till. Ég held, að það væti skýrast, að ég læsi þetta upp orðrétt eins og það kemur frá nefndinni, með leyfi forseta:

„1) Fjárhagsmálefni Siglufjarðarkaupstaðar verði tekin til sérstakrar athugunar með það fyrir augum að breyta nokkru af gjaldföllnum skuldum og lánum til stutts tíma í lán til lengri tíma.

2) Lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt og að því stefnt, að opinber fyrirtæki greiði meiri gjöld en nú er til sveitarfélaga, þar sem þau eru staðsett. Jafnframt verði framkvæmd stóraukin jöfnun á milli sveitarfélaga með litlar tekjur og miklar.

3) Togaranum Hafliða verði haldið úti til veiða þrátt fyrir nokkurn taprekstur, a.m.k. þar til hinn nýi skuttogari Þormóður rammi kemst í gagnið í ársbyrjun 1973.

4) Hlutafé Þormóðs ramma verði aukið úr 11 millj. í 40 millj. og verði ríkið eða stofnanir þess eigendur að 70% hlutafjárins, en heimaaðilar eigi 30% hlutafjár. Þormóður rammi h/f hafi hvort tveggja með höndum, fiskvinnslu og útgerð togara og togbáta. Fyrirtækið taki frystihús S.R. á leigu og hefji jafnframt undirbúning að byggingu nýs frystihúss, er taki við af því gamla, sem nú er að verða ónothæft til framleiðslu. Þormóður rammi kaupi togbát þegar á næstu vikum til hráefnisöflunar í staðinn fyrir Siglfirðing.

5) Siglóverksmiðjan verði gerð að sjálfstæðu ríkisfyrirtæki og sett undir sérstaka stjórn. Sýnt er, að verksmiðjan muni skila talsverðum hagnaði á þessu ári. Það er augljóst hagsmunamál fyrir ríkið að efla rekstur þessa fyrirtækis, sem hefur ágæt skilyrði til að verða til forustu og fyrirmyndar á þessu sviði iðnaðar, eins og raunar var ráð fyrir gert á sínum tíma. Til þess að verksmiðjan geti starfað árið um kring, þarf að auka vélakost hennar. Einnig þarf að afla henni rekstrarfjár, og sennilega verður fljótlega nauðsynlegt að stækka verksmiðjuna í þá stærð, sem fyrirhugað var.“ — Ég vona, að menn geri sér grein fyrir því, við hvað er átt, þegar talað er hér um Siglóverksmiðju, þ.e. niðurlagningarverksmiðju S.R.

„6) Miðað við svipaða síldarsöltun í haust og verið hefur undanfarin haust, virðist eðlilegt að stefna að því, að tunnuframleiðsla á Siglufirði verði tvöfalt meiri en nú er og fengju þá 40–45 menn vinnu við tunnusmiði fjórum mánuðum lengur en nú er. Síldarútvegsnefnd hefur þegar ákveðið að kaupa 10 þús. tunnur frá Noregi, en verðmunur á norskum tunnum og íslenzkum er lítill eða jafnvel enginn.

7) Reynt verði að sameina þá aðila, sem fást við smábátasmíðar á Siglufirði, með uppbyggingu öflugrar bátasmiðastöðvar með hugsanlegri þátttöku bæjarfélagsins, sem legði fram dráttarbrautina, og ríkisins, sem legði fram húsnæði, mjölskemmu síldarverksmiðjunnar Rauðku.

8) Aðalskrifstofa S.R. verði áfram á Siglufirði og annist m.a. bókhald fyrir þau fyrirtæki, sem ríkið er meirihlutaaðili að. Verkstæði S.R. verði fengin sjálfstæð verkefni auk venjulegrar viðgerðarþjónustu.

9) Hraðfrystihúsinu Ísafold verði veitt lán til að byggja hús til saltfiskverkunar og til línuheitingar fyrir viðskiptabáta frystihússins. Jafnframt verði Höfn h.f. veitt fyrirgreiðsla til að kaupa nýtt togskip á næsta ári.

10) Veitt verði lánafyrirgreiðsla til að koma upp Plastverksmiðju Vigfúsar Friðjónssonar. Áætlað er, að verksmiðjan muni kosta 12–14 millj. kr., en lán til verksmiðju þyrftu að nema 41/2–5 millj. kr. Reiknað er með, að 42 karlar og konur fái vinnu við verksmiðjuna.

11) Ýmsum starfandi fyrirtækjum á Siglufirði verði veitt fyrirgreiðsla, til að þau geti aukið starfsemi sina, eins og nánar er rakið hér á eftir, og skulu sérstaklega nefnd hér Niðursuðuverksmiðja Egils Stefánssonar, Tréverk h.f. og Pokaverksmiðjan h.f. Áfram verði athugaðir möguleikar á að hefja álbátasmíði á Siglufirði og koma upp keramikverksmiðju, en nefndin telur sig ekki hafa á þessu stigi málsins nægilegar upplýsingar um fjármögnun, framleiðslukostnað og söluhorfur álbáta og leirmuna til að geta gert ákveðnar tillögur varðandi framangreind fyrirtæki, en leggur áherzlu á, að þessi mál verði könnuð nánar.

12) Í árslok 1970 átti útibú Útvegsbankans á Siglufirði tæpar 49 millj. kr. hjá aðalbankanum, en víxileign bankans og yfirdráttarlán námu á sama tíma samtals rúmum 18 millj. kr. Mjög er kvartað yfir útlánastarfsemi bankans, og ber brýna nauðsyn til þess fyrir atvinnureksturinn á Siglufirði, að lánafyrirgreiðsla bankans verði þar ekki lengur lakari en annars staðar.

13) Rækjuleit. Nefndin telur nauðsyn bera til, að Hafrannsóknastofnunin hlutist til um, að frekari leit verði gerð að rækju fyrir Norðurlandi, þar sem telja verður, að verulegar líkur séu fyrir rækjuveiðum nyrðra.“

Ég skal nú ekki hafa þennan lestur lengri, en þessar till. eða hugmyndir, sem koma fram í þessari skýrslu, hafa verið til athugunar og eru til athugunar hjá ríkisstj. Af ríkisstj. hálfu hefur þegar verið tekin afstaða til eins mjög mikilvægs atriðis, ég vil segja mikilvægasta atriðisins í þessum till., um uppbyggingu útgerðarfélagsins Þormóðs ramma, og hefur ríkisstj. fyrir sitt leyti fallizt á að vinna að uppbyggingu þess fyrirtækis á þeim grundvelli, sem lagt er til i þessum till., þ.e. að ríkið eða ríkisstofnanir verði þar aðili að 70% og hlutaféð verði aukið eins og þar segir. Vitaskuld er þessi ákvörðun ríkisstj. gerð að áskildu samþykki og fullnægjandi heimild frá Alþ., þegar þar að kemur.

Í öðru lagi vil ég geta þess, að ríkisstj. hlutaðist einnig til um eða átti þátt í því, að gerðar voru ráðstafanir til þess, að unnt yrði að gera út togarann Hafliða. Og í þriðja lagi vil ég geta þess, að ríkisstj. veitti þá fyrirgreiðslu, sem nauðsynleg var, til þess að Síldarverksmiðjur ríkisins gætu fest kaup á því magni af síld, sem talin var þörf á vegna niðurlagningarverksmiðjunnar, og það magn var æði miklu meira en áður hefur verið.

Um önnur þau atriði, sem i þessum till. greinir er það að segja, eins og ég sagði, að þau eru í athugun hjá ríkisstj., og sérstaklega vil ég segja það, að það atriðið i þeim, sem líka er stórt, um sérstök fjárhags- eða greiðsluvandræði bæjarfélagsins, að það mál er í sérstakri athugun, en því miður er nú á svipaðan hátt ástatt hjá fleiri bæjarfélögum en þessu, og þess vegna er nú verið að athuga það, hvort mögulegt sé að veita einhverja fyrirgreiðslu í sambandi við það að breyta einhverjum af þessum lausaskuldum, sem valda þessum miklu greiðsluvandræðum hjá þessum bæjarfélögum, í fast lán til einhvers ákveðins tíma.

Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að það eru víðar atvinnuvandræði á Norðvesturlandi en þessum stað, sem hér er um að ræða. Hann veit sem þm. þessa kjördæmis, að við þm. þess höfum verið kvaddir til viðræðna við heimaaðila á sumum þeim stöðum, auk þess sem þeir hafa leitað til okkar hér, og ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara að þreyta þingheim með því að fara að rekja þau málefni. En það má vissulega til sanns vegar færa, að það sé ástæða til þess að líta alveg í heild á málefni þessa kjördæmis. Þó hygg ég nú, að það geti varla vafizt fyrir nokkrum, að Siglufjörður hefur hér nokkra sérstöðu, talsvert mikla sérstöðu, vil ég nú segja.

Málefni þessara staða eins og annarra staða, sem við atvinnuvandræði eiga að glíma, verða, að ég vil vænta, tekin til sérstakrar athugunar af Framkvæmdastofnun ríkisins, þegar hún kemst á fót.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi hafi nú fengið nokkurt svar við sinni fyrirspurn. Skýrslan er nokkru lengri, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lesa hana yfir öllum þingheimi hér, en ég mun hlutast til um, að þm. kjördæmisins fái hana í hendur.