07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í D-deild Alþingistíðinda. (4781)

912. mál, málefni Siglufjarðar

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans greinargóðu skýrslu um málefni Siglufjarðar. Það er augljóst mál, finnst mér, að þessi nefnd, sem að málinu starfaði, hefur virkilega sett sig inn í þau viðfangsefni, sem þarna er við að eiga, og ég skal lýsa því yfir, að ég er algjörlega sammála þeim till., sem þarna eru gerðar, og vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. geti á sem allra stytztum tíma komið þeim í framkvæmd.

Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að málefni Siglufjarðar standa kannske lakast af öllum þeim stöðum, sem ég nefndi áðan í Norðurlandi vestra og annars staðar á landinu, og þess vegna er brýnust nauðsynin á því að reyna að taka þau málefni fyrir fyrst, en það má ekki heldur líta fram hjá hinu, að aðrir staðir í þessu kjördæmi eiga í slíkum atvinnuerfiðleikum, að það má til að gera sérstakar ráðstafanir til að leysa þeirra vandamál. Mér finnst, að það hafi verið haldið rétt á málefnum Siglufjarðar. Ég fagna því, að svo hefur verið gert og gert svo rösklega, og sá var tilgangur minn með fsp., að fá einmitt þessa hluti upplýsta.