07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í D-deild Alþingistíðinda. (4782)

912. mál, málefni Siglufjarðar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hér var spurt um störf nefndar, sem falið var að rannsaka málefni Siglufjarðar og ég átti sæti í. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri til að taka undir með fyrirspyrjanda, að vissulega er brýn þörf á því að athuga málefni fleiri sveitarfélaga, bæjarfélaga á Norðurlandi, en Siglufjarðar. Það var mjög áberandi í fyrravetur og reyndar fram á sumar, að mikið atvinnuleysi var á nokkrum stöðum þarna norðurfrá og reyndar öllum stærstu stöðunum í þessu kjördæmi, Skagaströnd, Blönduósi, Hofsós, Sauðárkróki ásamt Siglufirði, og mér er nær að halda, að mikill meiri hluti af þeim, sem voru skráðir atvinnulausir t.d. í júnímánuði og júlímánuði í sumar, hafi átt heima einmitt á þessum stöðum. Mér er nær að halda, að það hafi verið nærri því 2/3 þeirra, sem voru skráðir atvinnulausir í sumar, sem voru af þessu svæði. Það liggur sem sagt í augum uppi, að gera þarf ítarlega framkvæmdaáætlun um atvinnuuppbyggingu í þessum landshluta, sem geti tryggt öllu vinnufæru fólki fullnægjandi atvinnu. Ég vil minna á, að það var einmitt þetta loforð, sem gefið var fyrir sex árum í samningum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga sumarið 1965, en því miður var þetta loforð ekki efnt. Ég vil undirstrika það hér, að nú verður að vinda bráðan bug að því að efna þetta loforð, en hins vegar vil ég undirstrika, að ég tel það ekkert óeðlilegt, að þarna hafi einn staður verið tekinn fyrir sérstaklega til að byrja með. Ég álít, að það sé einmitt gallinn á svonefndri Norðurlandsáætlun, sem nokkuð hefur verið unnið að á seinni árum, að þar voru vandamál einstakra staða ekki tekin nægilega föstum tökum. Þar var fyrst og fremst um að ræða mjög almennt orðaða skýrslugerð, sem raunverulega tók aldrei á því vandamáli, hvernig ætti að útrýma atvinnuleysi á hverjum einstökum stað. Ég álít, að þarna hafi verið rétt af stað farið, að þannig verði að taka á málum, taka einn stað af öðrum og brjóta vandamál hans til mergjar með vandlegri rannsókn, en síðan að sjálfsögðu að fella áætlanir um einstaka staði saman í samfellda framkvæmdaáætlun fyrir viðkomandi landshluta. Svo vil ég bara segja að lokum, að það er auðvitað einmitt þetta, sem á að verða verkefni væntanlegrar Framkvæmdastofnunar ríkisins.