07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í D-deild Alþingistíðinda. (4784)

912. mál, málefni Siglufjarðar

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Út af þeirri fsp., sem hér er til umr., vil ég taka undir þær þakkir, sem færðar hafa verið hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf í sinni ræðu. Þær upplýsingar voru mér að nokkru kunnar áður, en ég legg áherslu á það, að nauðsynlegt er að haga svo málum, að uppbygging þess fyrirtækis, sem þar er um að ræða, þ.e. bygging hraðfrystihússins og hafnargerð, sem þeirri framkvæmd hlýtur að verða samfara, verði undirbúin það fljótt, að ekki strandi á slíkri undirbúningsvinnu, svo að þau fyrirtæki geti tekið til starfa á öðru ári héðan í frá.

Það var nú ekki þetta, sem út af fyrir sig kom mér til að kveðja mér hljóðs, heldur ræða hv. 4. þm. Norðurl. v. hér áðan. Enda þótt þeirri ræðu hafi þegar verið að verulegu leyti svarað, þá vil ég til viðbótar vekja athygli á því, að vissulega hefur á undanförnum árum verið mikill vandi við að stríða í atvinnulífi Norðlendinga,,og þá ekki sízt í okkar kjördæmi. Það er hins vegar ljóst, að á undanförnum árum hefur mikið verið unnið til þess að leysa þennan vanda, og það hefði hv. þm. átt að geta um í ræðu sinni hér áðan. Þegar hann gerði lítið úr þeim þætti, sem gerð og framkvæmd Norðurlandsáætlunar í atvinnumálum hefur sinnt í þessu efni, þá er um misskilning að ræða af hans hálfu.

Ég ætla ekki að rekja gang mála hvað það snertir í þessum skamma ræðutíma, enda var það verulega gert hér, af síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Norðurl. e. Hins vegar hefur í kjölfar framkvæmdar Norðurlandsáætlunar í atvinnumálum orðið mikil vakning í atvinnulífi Norðlendinga. Þar hafa nú þessi síðustu ár risið á fót ný fyrirtæki bæði í útgerð og iðnaði. Þessi atvinnufyrirtæki eru að taka til sín sí og æ meiri mannafla með tímanum sem líður og á það ríkan þátt í því að leysa atvinnuvandamál þess fólks, sem í þessum landshluta býr. Það er hins vegar rétt, að fram þarf að halda á þeirri braut, og það er vel, ef þeir, sem nú ráða ferðinni, vinna betur að þeim málum en gert hefur verið á undanförnum árum, og að því viljum við, sem erum þm. þessa kjördæmis, að sjálfsögðu vinna.

Það er almenn skoðun fólksins, sem býr í þessum landshluta, að vel hafi að ýmsu leyti verið unnið að þessum málum á undanförnum árum og að fram þurfi að halda á þeirri braut. Ég ætla ekki að fara út í þessi mál í einstökum atriðum frekar, en ég vil þó aðeins taka sem dæmi um það, hvert álit manna á þessu er, að t.d. á aðalfundi kjördæmisráðs Alþb. í Norðurl. v., sem haldinn var á Sauðárkróki 2. okt. 1971, var samþykkt svofelld ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá beinir fundurinn þeirri áskorun til þm. kjördæmisins og ríkisstj., að fylgt verði fast eftir þeim umbótum, sem þegar eru hafnar málefnum kjördæmisins til framdráttar, og ekki linnt fyrr en öllu atvinnuleysi hefur verið útrýmt af Norðurl. v.“