07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í D-deild Alþingistíðinda. (4789)

914. mál, sjónvarpsviðgerðir

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 2. landsk. þm. á þskj. 126 hljóðar svo:

„Hvað getur iðnfræðslukerfið gert til að bæta úr brýnni þörf á kunnáttumönnum á sviði sjónvarpsviðgerða?“

Svar mitt við fsp. hv. þm. er á þessa leið: Samkv. upplýsingum, sem menntmrn. hefur aflað sér, er áætluð viðbótarþörf fyrir útvarpsvirkja nú um 5–10 í Reykjavík og 20–30 utan Reykjavíkur. Haustið 1971, s.l. haust, hófst verknámsskóli fyrir útvarpsvirkja við Iðnskólann í Reykjavík. Er miðað við, að nemendur úr honum útskrifist vorið 1973 og fái að því loknu u.þ.b. sex mánaða starfsreynslu hjá meistara, áður en þeir ganga undir sveinspróf. Skóli þessi er í framhaldi af verknámsskóla málmiðnaðarins. Nemendur eru nú 12, þar af fjórir utan af landi, en átta af höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir, að teknir verði 12 nemendur í skólann haustið 1972, en í verknámsskóla málmiðnaðarins eru nú margir nemendur utan af landi, sem hafa áhuga á útvarpsvirkjun.

Eins og kunnugt er, skilaði verk- og tæknimenntunarnefnd ítarlegu nál. í júnímánuði s.l. um nýskipan verk- og tæknimenntunar í landinu. Nál. gerir ráð fyrir margháttuðum breytingum á skipulagi iðnfræðslu, og einn líður í því er, að allar námsbrautir í rafeindavirkjun verði tengdar saman innan iðnfræðslukerfisins. Meðal þessara greina eru útvarps- og sjónvarpsvirkjun. Gerir nál. ráð fyrir því, að námstilhögun í útvarps- og sjónvarpsvirkjun verði með verkskólasniði, þ.e. ekki nám samkv. námssamningi, og við þessa breytingu má gera ráð fyrir, að námstíminn styttist nokkuð og skili nemendum fyrr til starfa, auk þess sem þá á ekki að vera nokkur hætta á því, sem fyrirspyrjandi lýsti, að takmarkanir af hálfu meistara torveldi eðlilega aukningu í starfsgreininni.

Þess ber sérstaklega að gæta, að ef aðsókn að námi í útvarpsvirkjun yrði jafnmikil og nú er og allir þeir, sem nám hefja, færu til starfa í sinni sérgrein að námi loknu, mundi fljótt verða bætt úr þeirri þörf, sem nú er fyrir útvarpsvirkjun. Hins vegar er ekki hægt að gera ráð fyrir, að svo verði, því að þeir, sem hefja nám í útvarpsvirkjun, eiga ýmsar aðrar leiðir opnar, m.a. framhaldsnám í Tækniskóla Íslands, og ekki er unnt að gera ráð fyrir, að allur þessi hópur fari til starfa við útvarpsvirkjun.

Af framanskráðu er ljóst, að iðnfræðslukerfið sinnir nú þegar þessu verkefni, en hins vegar er jafnan álitamál, hve marga útvarps- og sjónvarpsvírkja þarf að mennta til að fullnægja markaðsþörfinni. Í samræmi við frekari áætlanagerð, sem fram hlýtur að fara í sambandi við framkvæmd nýskipunar í verk- og tæknimenntunarmálum, þarf m.a. að athuga nánar framboð og eftirspurn varðandi sjónvarpsvirkja, áður en tekin er ákvörðun um hugsanlega stækkun verknámsskóla fyrir útvarps- og sjónvarpsvirkja við Iðnskólann í Reykjavík.

Varðandi lokaorð hv. 2. landsk. þm. um möguleika á því, að viðgerðarmenn fiskileitar- og siglingartækja í verstöðvum hljóti þjálfun í útvarpsvirkjun að því er tekur til sjónvarpsviðtækja, svo að þeir geti til bráðabirgða hlaupið undir bagga um viðgerðir úti á landsbyggðinni, vil ég taka fram, að sú hugmynd hefur ekki verið athuguð, að ég viti. Sjálfsagt er, að það verði gert, og ég mun gangast fyrir því. Hins vegar kunna þar að koma upp vandamál varðandi iðnréttindi, án þess að ég vilji fullyrða, að þau séu óyfirstíganleg, en ég vil aðeins vekja athygli á þeim.