07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í D-deild Alþingistíðinda. (4796)

915. mál, íþróttamannvirki skóla

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þessa fsp., sem hér er borin fram, og enn fremur með jákvæð svör ráðh. við þeim atriðum, sem fram eru sett. Ég tel hins vegar óeðlilegt að taka þetta mál hér upp í fyrirspurnarformi, þar sem mjög takmarkaður tími gefst til að ræða þau atriði, sem hér eru á dagskrá. Ég vil minna á, að nú fyrir örfáum dögum lagði ég hér fram á hv. Alþ. frv. til l. um eflingu Íþróttasjóðs, þar sem þessi mál voru beinlínis tekin til meðferðar, og hefði ég talið það vera heppilegri vinnubrögð, að hv. fyrirspyrjandi hefði sett fram þessar athugasemdir sínar við þær umr. Þá hefðu menn getað rætt þetta ítarlegar undir þeim lið, því að enginn vafi er á því, að hér er mjög alvarlegt vandamál, sem blasir við íþróttahreyfingunni og öllum þeim, sem standa að uppbyggingu íþróttamannvirkja í þessu landi, og á það bæði við um þær byggingar, sem byggðar eru í tengslum við skóla, og enn fremur við mannvirki, sem byggð eru á vegum íþróttahreyfingarinnar sjálfrar.

Eins og rakið hefur verið hér í þessum umr., þá er sá galli hér á þessum byggingarmálum, að ekki er hægt að byggja nema mjög takmarkaðar byggingar eða íþróttamannvirki, sem beinlínis eru hugsuð til beinna nota fyrir skólana eða nemendurna, en hins vegar ekki hægt að nýta þessi mannvirki til keppni, og þ. á m. er ekki hægt að byggja eða reisa með þessari keppnisaðstöðu aðstöðu fyrir áhorfendur eða yfirleitt þá aðstöðu, sem nauðsynleg er til þess, að um opinbera keppni sé að ræða, aðra en þá, sem beinlínis fer fram á vegum skólans. T.d. eru hér í Reykjavík á vegum Reykjavíkurborgar í tengslum við skólana allt upp í 15 íþróttasalir, sem allir eru mjög takmarkaðir að stærð og uppfylla ekki þær kröfur, sem gerðar eru til keppni, hvað þá alþjóðlegrar keppni. Á sama tíma sem verið er að reisa þessa fjölmörgu íþróttasali á íþróttahreyfingin í miklum erfiðleikum með að byggja hér undir þær nauðsynlegu keppnisíþróttir, sem fram fara, þau mannvirki, sem vöxtur og viðgangur þessarar æskulýðsstarfsemi gerir kröfu til.

En hvað sem einstökum atriðum líður, þá ber allt að þeim sama brunni, að við blasir vandamál, sem lýtur að Íþróttasjóði og vanmætti þess sjóðs til þess að fjármagna þau íþróttamannvirki, sem reist eru í þessu landi.

Um leið og hæstv. menntmrh. talaði um, að til greina kæmi að fella íþróttamannvirki á vegum skólanna undir Íþróttasjóð, talaði hann um, að þau mannvirki, sem byggð eru umfram þörf skólanna, gætu fallið undir skólakostnað. Eins og flestir vita, þá greiðir Íþróttasjóður allt að 40% af stofnkostnaði meðan ríkissjóður greiðir allt að 50% af stofnkostnaði skólamannvirkja, svo að hagur íþróttamannvirkja að þessu leyti ætti að batna, ef sú regla er tekin upp að tengja þessi íþróttamannvirki, þó að stækkuð séu, við skólana sjálfa. Það breytir ekki því, að ég geri þá ráð fyrir því, að hv. fyrirspyrjandi svo og hæstv. menntmrh. ljái þá því máli lið, sem ég hef borið hér fram í þinginu, því máli, sem gerir ráð fyrir því, að Íþróttasjóður sé efldur, svo að nú þegar sé hægt að greiða úr þeim sjóði þær lágmarkskröfur, sem gerðar eru til hans, þó að ekki séu nema til þess að greiða upp þá skuld, sem Íþróttasjóður stendur nú þegar í við íþróttahreyfinguna og sveitarfélögin víðs vegar um landið.