14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

1. mál, fjárlög 1972

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hlýt að hefja mál mitt með því að taka fram, að það er skoðun mín og margra annarra, að fjárlagameðferðin nú sé einsdæmi a.m.k. í siðari áratuga sögu Alþ. Þess munu engin dæmi áður, að alls engin tekjuáætlun hafi legið fyrir við 2. umr. fjárlaga. Ég efast þó mjög um, að þess séu nokkur dæmi, að alls engin löggjöf sé til um þá tekjuöflun, sem standa á undir allri þeirri útgjaldaaukningu, sem gert er ráð fyrir, að Alþ. standi að við 2. og 3. umr. fjárlaga. En sú útgjaldaaukning, sú hækkun, sem búast má við að verði á fjárlögum frá fjárlagafrv., mun verða einhvers staðar nálægt 3 750 millj. kr., eins og ég mun nú koma nákvæmlega að á eftir. Og það er til viðbótar þeim 3 000 millj., sem fjárlagafrv. hækkaði frá því, sem fjárlögin voru í fyrra. Ég hef frétt á göngum hér í dag, að fyrir aðeins 2 eða 3 árum hafi það gerzt, að tollafrumvarp hafi verið látið bíða fram yfir áramót, þ.e. fjárlög hafi verið afgreidd að óafgreiddu tollafrumvarpi. Þetta er rétt. Það var tollafrumvarp í sambandi við inngöngu Íslands í EFTA. Það tollafrumvarp fjallaði um tollalækkun, en ekki tollahækkun. Það var ekki tekjuöflunarfrv., heldur var það tollalækkunarfrv. Þó að Alþ. hefði fellt það, hefðu tekjur ríkisins orðið meiri en ella, en ekki minni, svo að hér gegnir náttúrlega allt öðru máli, hér er ekkert fordæmi fyrir því, sem nú er að gerast. Það, sem hér er að gerast, er það, að gert er ráð fyrir, að alþm. sé ætlað að samþykkja að því er ég segi og skal koma nánar að seinna, 3 750 millj. kr. útgjaldaaukningu, án þess að Alþ. hafi getað fjallað um þau tekjuöflunarfrv., sem ætlað er að standa undir þessari útgjaldaaukningu, en geta það auðvitað ekki, eins og ég líka mun koma að síðar. Þess eru engin dæmi áður. Ég hefði gaman af að fá fregnir af því þingi, þar sem nokkuð þessu líkt átti sér stað. Enda er það í raun og veru ekki boðlegt lýðræðislegum stjórnarháttum að ætla Alþ. eða alþm. að samþykkja útgjöld upp á 3–4 milljarða kr. án þess að hafa getað fjallað um þann lagagrundvöll, sem þessari tekjuöflun er ætlað að hvíla á. Það er ekki aðeins, að slíkt sé einsdæmi í sögu Alþingis Íslendinga. Ég er viss um, að þetta þættu heimsfréttir, ef þetta fréttist til nálægra landa, að löggjafarsamkoma væri til, sem hegðaði sér svona. Eða réttara sagt, að ríkisstj. væri til. sem ætlaðist til þess, að löggjafarsamkoma tæki öðru eins og þessu. Ofan á allt þetta bætist svo það, það kórónar ósköpin, að það er altalað utan þingsalanna meðal þm., að hvorugt þessara frv. hafi meiri hl. að baki sér í óbreyttri mynd. Maður drekkur hvorki kaffi né pilsner með þm. úr stjórnarflokkunum, svo að maður fái ekki að heyra það einhvers staðar að, að þeir séu alls ekki með öðru hvoru frv. Ég er búinn að heyra þetta. (Gripið fram í.) Að ég tali ekki um ósköpin, já, sem betur fer er ekkert slíkt á döfinni hér. Sem betur fer. Ég er búinn að heyra það a.m.k. 10 sinnum í dag, að þessi frv. hafi alls ekki meiri hl. hér á Alþ. og muni alls ekki verða samþ. í óbreyttri mynd. Ég vona, nei, nei — (Gripið fram í.) Maður þarf ekki nema einfalda heyrn til að heyra þetta. Það er eitt, sem er alveg áreiðanlegt, hún dugar alveg til. Og ég heyri vel enn þá. Og þetta er raunar af hálfu sumra sagt svo hátt, að það er ómögulegt annað en að heyra það.

Þá geta menn nú farið að spyrja sjálfir, hvað valdi þessum ósköpum. Hvernig stendur á því, að annað eins og þetta gerist? Ja, ekki er skýringin sú, að ráðh. séu hæfileikalausir menn eða þekkingarlausir menn, því fer víðs, víðs fjarri. Ég þekki þá alla saman allt of vel til þess að láta mér nokkuð slíkt um munn fara. Ég hef ekki verið með neinar minnstu getsakir í þá átt. Ef ég ætti að segja eitthvað um þessi efni, þá mundi ég hafa það þveröfugt. Hvað veldur þá? Hvað í ósköpunum er hér eiginlega að gerast? Ég hef ekki getað komið auga á aðra skýringu á þessu öllu saman en þá, að í ríkisstj. sé óeining, að í henni sé djúpstæður ágreiningur, ekki aðeins um varnarmálin, sem allir vita, að þá greinir á um, — það er ekki aðeins á vitorði allra Íslendinga, það er orðið á vitorði heimsins nú orðið, — en það hefur hingað til ekki verið á vitorði allra Íslendinga, að það væri líka óeining um grundvallaratriði í efnahagsmálum, sem hafi gert þessum ágætu nýju mönnum í ráðherrastólunum ókleift að koma sér saman um nokkra skynsamlega afgreiðslu á fjárlagafrv. eða tekjuöflunarfrv.

Ég held, að ástæða sé til þess, að ég leggi enn frekar áherzlu á það, sem ég sagði í dag um fjárlagaafgreiðsluna, ég kann enga skýringu á þessum ósköpum aðra en þá, að um hvort tveggja sé að ræða, að ráðh. sjálfir geti ekki unnið saman og að þeir, sem heild og einstakir, geti ekki unnið með embættismönnum. Ef þetta er svo, þá er það sannarlega skýring á því, í hvaða óefni öll þessi mál eru. Ég vil miklu frekar trúa þessari skýringu en öðru, sem ég þykist vita, að ýmsir á götunni fleygi, að hérna sé um að ræða hæfileikaleysi manna eða því um líkt. Það tel ég alls ekki vera, víðs fjarri því. Hér er um afleiðingu þess að ræða, þegar gerólíkir flokkar og gerólíkir menn ganga til samstarfs. Það hefur aldrei reynzt vænlegt til árangursríks starfs í ríkisstj., þegar um er að ræða menn, sem hafa í grundvallaratriðum alveg gerólíkar skoðanir og eru ekki vanari að vinna að stjórnarstörfum en svo, að þeir deila um svo að segja hvert atriði, sem á dagskrá kemur. Þá verður niðurstaðan þessi, sem því miður er að verða varðandi afgreiðslu fjárlaga og raunar fleiri mál, sem á döfinni eru hér á hinu háa Alþingi.

Það vita allir hv. alþm., það vita allir landsmenn, að þetta ár verður eitt mesta góðæri í efnahagssögu Íslendinga. Það vita líka allir, að hagfræðingar og ábyrgir stjórnmálamenn eru algerlega sammála um það, að í góðæri yfirleitt sé nauðsyn þess, að greiðsluafgangur sé á ríkisbúskapnum. Og þannig var til efnt af hálfu fyrrv. ríkisstj. við samningu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, en þau voru afgreidd af þeim þingmeirihluta, sem við völd var fyrir kosningar. Þá var ráð fyrir því gert, að það yrði greiðsluafgangur á ríkisbúinu. En hver er staðreyndin nú? Hvernig er hag ríkissjóðs nú komið eftir 5 mánaða valdaferil hæstv. ríkisstj.? Samkv. uppgjöri ríkisbókhaldsins til 30. nóv. 1971 fyrir fyrstu 11 mánuði ársins eru gjöld umfram tekjur 475 millj. kr. og tekin lán umfram greidd lán 387 millj. kr. M.ö.o., það er um að ræða heildarhalla í ríkisbúskapnum á fyrstu 11 mánuðum ársins upp á 862 millj. kr., — hæstv. ráðh. leiðréttir mig, ef ég fer hér ekki með rétt mál, ég veit, að ég fer það, — og það í mesta góðæri, sem yfir landið hefur gengið. Auðvitað vita allir kunnugir ríkisfjármálum, að afkoman kemur til með að batna mjög verulega í des., það er alveg öruggt, hún batnar alltaf í des., en hitt er jafnöruggt, að hún batnar ekki um þessar 862 millj. Það er því algerlega fyrirsjáanlegt, að árið 1971 kemur út með greiðsluhalla. Ég segi enn og aftur, í mesta góðæri, sem yfir Íslendinga hefur gengið.

Við hv. þm. þekkjum allir tölur fjárlagafrv., að útgjöldin eru áætluð um 14 milljarðar kr. Þm. þekkja og allir þær till. fjvn., sem við fengum fyrir nokkrum dögum, hækkunartillögur hennar við 2. umr. upp á 760 millj. kr. En nú skal ég láta getið þeirra hækkana, sem ég tel óumdeilanlega, að þurfi að taka inn í fjárlagafrv., ef það á að vera rétt. Auðvitað verð ég að játa það, að ég hef ekki fullkomna aðstöðu til þess að gera þessa útreikninga nákvæmlega og heldur ekki tíma til þess á þeim örstutta tíma, sem liðinn er frá því, að brtt. hv. fjvn. voru lagðar fram. En ég skal fara hér hægt og reyna að fara skýrt yfir sögu, biðja hæstv. fjmrh. um að skrifa tölurnar hjá sér, — hann getur fengið þær hjá mér síðar, ef hann vill, — og leiðrétta þær, ef hann telur þær vera rangar. Ég ætlast ekki til þess, að hann geti leiðrétt þær á stundinni. Það væri ósanngirni, og mér kemur ekki til hugar að ætlast til þess af hæstv. ráðh., og þó að hann svari mér ekki nú eða leiðrétti tölur minar ekki nú, skal ég ekki vera með neinar glósur í hans garð. Hann skemmti sér við að fara með glósur í minn garð í dag, ég anza þeim auðvitað ekki, honum er óhætt að halda þeim áfram, slíku anza ég ekki. En til hins vildi ég mælast, ef mínar tölur eru rangar, sem ég nú fer með, að hann leiðrétti þær við 3. umr. málsins. Til þess á að verða tími. Og um það getum við talað saman í hléinu, ef hann óskar eftir þeim og að spara sér að skrifa þær, þótt tölurnar séu ekki margar og hér sé um einfalda liði að ræða.

Ég gat þess fyrst, að hækkunartillögur fjvn. væru 760 millj. kr. Það var útbýtt hér í gær frv. til breyt. á tryggingalögum, þar sem segir, að útgjaldaauki samkv. þeim sé 310 millj. kr. Þessi tala getur ekkert ágreiningsefni verið, hún er í stjfrv., en eftir að afla tekna fyrir því. Þá vita allir, að 1. jan. n.k. eiga tryggingabætur að hækka í kjölfar launahækkana, sem orðið hafa samkv. gildandi lögum, þetta er Iögbundið. Þessi hækkun mun nema um 300 millj. kr. Hér er ekki um nákvæma tölu af minni hálfu að ræða, ég hef ekki haft tíma til þess að reikna hana nákvæmlega, en það skakkar áreiðanlega ekki nema einhverju smávægilegu. M.ö.o., bæturnar hækka 1. jan. um ca. 300 millj. kr. vegna þeirra launahækkana, sem búið er að semja um.

Samkv. tekjuöflunarfrv. á ríkið framvegis að greiða öll iðgjöld einstaklinga og helming af núverandi hlut til sveitarfélags í sjúkratryggingunum. Þetta mun þýða útgjaldaauka, sem er nálægt 800 millj. kr. Um þetta eru skýr ákvæði í frv., sem lögð voru fram hér í gær, 800 millj. Samkv. þeim á ríkið einnig framvegis að greiða hlut til sveitarfélaga í lífeyristryggingunum. Sú tala er í fjárlagafrv. sjálfu, — hver hún er, — hún er 370 millj. kr. M.ö.o., hlutdeild sveitarfélaganna í lífeyristryggingunum, sem ríkið á framvegis að greiða, er 370 millj. kr. Og ríkið á, eins og allir vita og búið er að tala um í fjölmiðlum og halda ræður hér um, framvegis að greiða almannatryggingaiðgjöldin, sem einstaklingar hafa hingað til greitt, og samkv. fjárlagafrv. — sú tala er alveg opinber líka, hún stendur þar, — er hún 655 millj. kr. Um enga af þeim tölum, sem ég hingað til hef nefnt, má í raun og veru deila. Þær eru sumpart beint úr fjárlagafrv. eða má leiða beint af því.

Þá er það og vitað, að opinberir starfsmenn hafa farið fram á launahækkun í kjölfar samninganna, sem nýlega hafa verið gerðir, og þeir líta þannig á, og ég lít þannig á, að lagaskyldu beri til þess að hækka laun opinberra starfsmanna í sama mæli og launþegar fengu í samningunum, sem nýlega hafa verið gerðir. Og ef það væri gert, þá væri um að ræða 4% í fyrra skiptið og 4% 1. júlí, þ.e.6% að meðaltali yfir allt árið, og þá mun láta mjög nærri samkv. launagreiðslutölu fjárlaga, að þessi launahækkun kosti ríkissjóð um 200 millj. kr. Þá er alveg augljóst mál, að vísitalan mun hækka á næsta ári og kaupgjald breytist með vísitölu, kaupgjald opinberra starfsmanna einnig. Hér er ég kominn að þeim liðnum, sem óvissastur er, það er mér algerlega ljóst, en ég vil fara varlega í sakirnar og ég skal ekki vera með neinar hrakspár. Ég skal ekki gera ráð fyrir því, að vísitala hækki meir en 5%. Kaupið hækkar þá um 5%, og það nemur um 150 millj. kr. Mér er ljóst, að hér er um spádóm að ræða, en hitt hljóta allir að vita, að vísitalan mun hækka eitthvað og þá auðvitað kaupgjaldið í kjölfar þess, þannig að einhver útgjaldaauki verður í þessu sambandi.

Og svo skal ég að síðustu nefna lið, sem ég fúslega játa, að hlýtur að vera ágizkun, hrein ágizkun, en felur engu að síður í sér raunverulegar staðreyndir, og það er það, að í tekjuöflunarfrv. er gert ráð fyrir því, að ríkið taki að sér greiðslu löggæzlukostnaðar í stað sveitarfélaga. Mér hefur ekki tekizt að fá upplýsingar um, hvað sá kostnaður sé mikill. Ég hef einnig fengið upplýsingar um það hjá fulltrúa Alþfl. í fjvn., að fyrir n. liggi fjölmörg erindi, sem séu óafgreidd, en raunverulegt samkomulag sé um í n. að afgreiða, og skipti þetta mjög verulegum fjárhæðum, t.d. málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri, sem ég þykist fullviss um, að ríkisstj. hafi áhuga á að greiða fyrir. Þó skal ég ekki áætla þessa tölu, löggæzlukostnaðinn og óafgreidd erindi, hærra samtals en 200 millj. kr. og undirstrika með því, að það er siður en svo ætlun mín að ýkja neitt eða draga upp neina hryllingsmynd af því ástandi, sem við erum að fjalla um. Ég minni á þetta og skal minna á það síðar, þegar þingið hefur afgreitt fjárlögin í heild. Þá þykir mér sennilegt, að í ljós komi, að löggæzlukostnaðurinn og opinber erindi muni nema meiru en 200 millj. kr., þó skal ég ekki reikna með meiru heldur en þessu. Þegar þessar tölur eru lagðar saman, sem að langmestu leyti eru algerlega óumdeilanlegar og óyggjandi og aðeins að mjög litlu leyti ágizkun og það meira að segja varleg ágizkun, þá verður niðurstaðan 3 745 millj. kr. til viðbótar þeim 14 000 millj., sem — (BP: Þú leggur ekki rétt saman.) Jú, jú, jú, jú, þetta er rétt lagt saman. (Gripið fram í.) Nei, þetta er vitleysa, ætli þm. gleymi ekki 150 millj. vegna vísitöluhækkunarinnar, þetta er rétt lagt saman. Ja, ef það er skakkt lagt saman, þá skal ég fúslega leiðrétta það. Það skal ekki standa á mér að leiðrétta það. Og þetta er sú upphæð, sem tekjur vantar enn fyrir. Mér er það ljóst, að þetta er flókið dæmi, sem hér er um að ræða, og ég endurtek, að ég hef ekki haft nema litinn tíma og auðvitað mjög takmarkaða aðstöðu til þess að gera þetta dæmi rækilega og endanlega upp, og ég skal fúslega taka því, ef í þessu eru einhverjar villur, verulegar geta þær ekki verið, að ég trúi. En ég skal fúslega taka því við 3. umr., til meira ætlast ég ekki en það kunni að vera, að þessar tölur séu ekki fullkomlega nákvæmar. En ég staðhæfi aftur, veruleg breyting verður ekki á þessum tölum, jafnvel þó að færustu sérfræðingar fari yfir þær og skoði þær ofan í kjölinn. En ég segi það enn, til þess að ástæðulaust verði að brigzla mér um nokkurn illvilja, þegar endanlega verður um þetta rætt við 3. umr. málsins, að auðvitað eru þetta útreikningar, sem ég geri, eins og sagt er, á hné mér hér í þingsölunum á grundvelli þeirra gagna, sem liggja fyrir okkur þm. á borðinu. Og við slíkar vinnuaðstæður og á þeim litla tíma, sem um hefur verið að ræða, er auðvitað ekkert undarlegt, þó að einhverju kunni að skakka. Og ég tek því ekki með neinum illindum, heldur þvert á móti skyldi fúslega játa, ef ég er sannfærður um það, að einhverjar af þessum tölum séu ekki nákvæmlega eins og þær eigi að vera. En í stórum dráttum hygg ég þetta vera þá mynd, sem við hinu háa Alþ. blasir. Af þessari stærðargráðu er sú tala, sem Alþ. þarf að samþykkja löggjöf um tekjuöflun fyrir einhvern tíma í byrjun næsta árs.

Ég hygg, að enginn geti dregið það í efa, sem þetta heyrir, að þessi fjárlög verður að kalla verðbólgufjárlög. Samþykkt þeirra í þessu formi getur ekki haft annað í för með sér en stóraukna verðbólgu, stórkostlega verðbólgu á árinu 1972, og það á mesta veltutíma, sem yfir íslenzka þjóð hefur gengið. Þetta er ein glannalegasta fjárlagaafgreiðsla, sem ég man eftir, og hef ég setið hér í fjórðung aldar.

Þá skal ég leyfa mér að fara örfáum orðum um nokkrar brtt., sem ég flyt, sumpart einn og sumpart ásamt tveimur flokksbræðrum mínum. Þar er um að ræða smávægilegar upphæðir, þegar borið er saman við — ja, það liggur við, að maður sé feiminn við að fara að tala um svona litlar tölur, þegar maður er búinn að tala um þær ógnarlegu tölur, sem ríkisstj. leggur á borðið fyrir mann. Og það gefur alveg auga leið, að þegar engin tekjuáætlun liggur fyrir, þá er náttúrlega ekki hægt að ræða, hvernig eigi að breyta tekjuáætluninni til þess að mæta þeim litla útgjaldaauka, sem ég sting hér upp á. En það kann að vera hægt við 3. umr. Þegar maður veit, hvernig ríkisstj. hugsar sér að greiða sínar 3 745 millj., þá skal ég vera reiðubúinn til að gera grein fyrir því, hvernig ég get hugsað mér að standa undir kostnaðinum við þær smáupphæðir, sem ég og við höfum hér í okkar till. Það ætti að vera afskaplega vandalítið.

Á þskj. 195 eru 6 till., sem ég skal gera grein fyrir í örstuttu máli. 1. till. er um það að hækka stofnkostnað, byggingarframlag til Hamrahlíðarskólans um 21 millj. Hæstv. ríkisstj. hefur skorið niður ósk skólastjóra Hamrahlíðarskólans um 21 millj. Hann óskaði eftir 41. Í millj. kr. til að halda áfram byggingu Hamrahlíðarskólans, og það er sú till., sem ég legg til, að verði í fjárlagafrv. Mér er þetta mál sérstaklega hugstætt, sérstaklega kunnugt, vegna þess að gerð var fyrir nokkrum árum áætlun um byggingu Hamrahliðarskólans. Það var unnið eftir áætlunarreglum og gerð áfangaáætlun um byggingu skólans í heild á nokkrum árum. Það, sem hér hefur gerzt núna, er það, að þessari áætlun er raskað, og mun bygging Hamrahlíðarskólans tefjast við þetta um a.m.k. eitt ár. Ég þykist alveg sjá, hvað hér hefur verið að gerast. Það er það, að til byggingarkostnaðar Menntaskólans á Ísafirði er varið því fé, sem nauðsynlegt hefði verið eða hefði átt að fara til Hamrahlíðarskólans, ef greiðsluáætlun hans hefði verið fylgt. Ég hef síður en svo á móti því, að byggingu Menntaskólans á Ísafirði sé hraðað, síður en svo, ég er því fylgjandi. Ég er mikill stuðningsmaður þess skóla. En ég vil ekki, að það sé gert með þeim hætti, að fé sé tekið af fjárveitingu Hamrahlíðarskólans, sem ég tel raunar, að honum hafi verið lofað með þeim áætlunum, sem menntmrn. hefur gert um byggingu Hamrahlíðarskólans.

2. till. er um það að hækka byggingarframlag til Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraskólans úr 1 millj. í 10 millj. kr. Það er sú ósk, sem skólastjóri Kennaraskólans har fram, 10 millj. kr., og ég þarf ekki að fjölyrða um nauðsyn þess, að Æfinga- og tilraunaskólinn komist sem fyrst á fót, einkum og sér í lagi eftir að Kennaraháskólanum hefur verið komið á fót, þá er Æfinga- og tilraunaskólinn enn nauðsynlegri heldur en áður var. Hér er ekki um neitt yfirboð á einn eða neinn að ræða. Hér er um þá till. eina að ræða að stinga upp á því, að orðið sé við óskum stjórnar Kennaraskólans um fjárveitingu til Æfinga- og tilraunaskólans.

3. till. lýtur að því, að ég vil ekki trúa öðru en hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir lögfestingu grunnskólafrv. nú á þessu þingi, þó að ekkert hafi hólað á því enn sem komið er. Grunnskólafrv. var lagt fram snemma á s.l. þingi og hlaut einstaklega góðar undirtektir þingheims yfir höfuð að tala. Þar töluðu menn úr öllum flokkum um málið, um grunnskólafrv. og frv. um skólakerfi. Úr öllum flokkum töluðu menn um málið og það hlaut sérstaklega góðar undirtektir, enda var frv. rækilega undirbúið og hafði einróma meðmæli allra kennarasamtaka og skólamanna yfir höfuð að tala. Um það var fjallað rækilega, mjög rækilega, í hv. menntmn. Nd., sem innti af höndum mikla vinnu í sambandi við málið og kannaði skoðanir fjölda skólamanna og sveitarstjórnarmanna á stefnu þess og efni, og ég vissi ekki betur en fulltrúar allra flokka í menntmn. væru efnislega sammála frv., en það og frv. um skólakerfi þótti hins vegar svo viðurhlutamikið, að það væri ekki eðlilegt að afgreiða það mál á einu þingi, það væri eðlilegt að athuga málið milli þinga, kynna það skólanefndum út um allt land, sem var gert. Það var sent öllum skólanefndum á landinu á s.l. vori, svo að málið hefur fengið rækilega kynningu. Ég skil ekki, af hverju frv. hefur ekki verið sýnt enn á þessu þingi. Ég er með engar getsakir í þeim efnum, mér dettur ekki annað í hug en ríkisstj. leggi frv. fram og eftir þann rækilega undirbúning, sem það fékk á siðasta þingi, verði það að lögum á þessu þingi. En það hefur bara gleymzt að gera ráð fyrir því í fjárlagafrv., að frv. verði að lögum, og úr því vildi ég gefa hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmönnum kost á að bæta. Og þess vegna hef ég samkv. grunnskólafrv. reiknað út, hvað það mundi kosta, ef frv. kæmi til framkvæmda 1. sept. n.k. Það mundi kosta 48 millj. kr. og þar er næstum eingöngu um launakostnað að ræða. Um þetta er 3. till.

4. till. fjallar um það, að láta ákvæði gildandi skólakostnaðarlaga um greiðslu á hluta ríkisins af stofnkostnaði barna- og gagnfræðaskóla koma til framkvæmda á þrem árum í stað fjögurra. Þetta mál hefur þegar verið rætt nokkuð sérstaklega af hv. 2. þm. Vestf., sem fjallar sérstaklega um skólamál í fjvn. og hefur fjallað um mörg undanfarin ár og er þeim málum, hygg ég, að öllum öðrum ólöstuðum einna kunnugastur allra þm. Eins og hann tók fram áður, var upphaflega gert ráð fyrir því í skólakostnaðarlögunum, að þegar skyldi koma til framkvæmda þriggja ára greiðsluregla í stað fimm ára greiðslureglu. Við athugun þótti slík svo róttæk breyting ekki framkvæmanleg þegar í skyndi, svo að lögunum var frestað um tíma, en nú reyndust í fyrra, þó að lagaákvæðið um þriggja ára greiðslu væri aftur komið í gildi, slíkir erfiðleikar á afgreiðslu fjárlaga, að ég fyrir mitt leyti sem menntmrh. féllst á það við hv. fjvn. og hæstv. fjmrh., að í þeim fjárlögum skyldi enn miðað við fjögurra ára regluna, en í síðasta skipti. Um það varð samkomulag milli okkar fyrrv. fjmrh., við lýstum því háðir yfir, bæði í fjvn. og hér á hinu háa Alþ., að samkomulagið væri gert um það að framlengja fjögurra ára regluna einu sinni enn, en það skyldi verða í síðasta skiptið, - næstu fjárlög þyrftu að byggja á þriggja ára reglunni. Ég efast ekki um, að hæstv. fjmrh., sem þá átti sæti í fjvn. og fjallaði sérstaklega um meðferð skólamálanna í þáv. fjárlagafrv., minnist þessa. Það efast ég ekki um. Nú er hins vegar orðin sú raunin á, að enn einu sinni er miðað við fjögurra ára regluna. Þess vegna hef ég talið rétt í framhaldi af yfirlýsingum á síðasta þingi að flytja till. um, að þriggja ára reglan verði nú látin koma til framkvæmda.

Þá er 5. till. Hún lýtur að hugmynd, sem er ekki ný, heldur hreyfði ég henni á síðasta þingi og hef raunar hreyft bæði í blaðagreinum og ræðum á undanförnum 1–2 árum, en hún fjallar um nauðsyn þess að hefja kennslu eða fræðslu fyrir fullorðna, sem geri þeim kleift að ljúka tilteknum prófum samkv. reglum, sem menntmrn. setji, og til framhaldsmenntunar á grundvelli áður tekinna prófa. Eitt af mínum síðustu verkum í menntmrn. var einmitt að leggja grundvöllinn að skipun nefndar til þess að skipuleggja slíka fræðslu. Sú nefnd er þegar tekin til starfa. Það vat tilnefnt í hana eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Hún er tekin til starfa og starfar ötullega og ég veit, að þeir ágætu menn, sem þar eru, hafa fyllsta áhuga á því, að þetta mál komist til einhverra byrjunarframkvæmda, en það verður auðvitað ekki, ef ekkert fé er fyrir hendi, og þess vegna er hér lagt til, að smávægileg byrjunarfjárveiting verði veitt í þessu skyni.

Síðasta till. er um aðstoð við þróunarlöndin. Þar hefur ríkisstj. lagt til, að veittar verði 1.5 millj. kr., en ég hef hér með höndum erindi stofnunarinnar Aðstoð Íslands við þróunarlöndin til hv. fjvn., þar sem beðið er um 20 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni. Og sú beiðni er rækilega rökstudd í bréfi, sem ég eyði auðvitað ekki tíma hv. þm. til þess að hlusta á, en ég vildi aðeins fá leyfi til þess að lesa eina setningu úr bréfinu. Hún er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. ofansögðu fer stjórn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin þess á leit við hv. fjvn., að á fjárlögum næsta árs verði veittar alls 20 millj. kr. í þágu þróunarlandanna. Samkv. lauslegri áætlun okkar munu framlög Íslands til þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna, er vinna að málefnum þróunarlanda, svo og til IDA, stofnunar, er starfar að þessum málum á vegum Alþjóðabankans, nema um 25 millj. kr. Alls mundu þá framlög Íslands til þróunarlandanna nema um 45 millj. kr., ef við beiðni okkar yrði orðið. Það er u.þ.b. 1%, 1 af 1000, af verðmæti þjóðarframleiðslunnar, en til samanburðar má geta þess, að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er samsvarandi tala 7 af 1000 eða sjöföld á við það, sem hér er.“ — Þetta er um brtt. á þskj. 195.

Þá flytjum við þrír Alþfl.-menn nokkrar brtt., 12 að tölu, það er postulatalan, á þskj. 183. Við tókum það til bragðs að fara yfir brtt. þáv. stjórnarandstöðu við fjárlagafrv. í fyrra. Það reyndist langur listi. Sú hugmynd kom upp, að rétt væri nú að gefa núv. stjórnarsinnum kost á því að samþykkja allar sínar till. frá því í fyrra. Hins vegar var augljóst, að það var til helzt til mikils mælzt, því að sannleikurinn var sá, að sá tillöguflutningur í heild var svo ofboðslegur, að ég ætla núv. ráðh. og stuðningsmönnum þeirra ekki það að samþykkja annað eins og þetta núna. Hins vegar fannst okkur rétt að gefa hv. núv. stjórnarsinnum nokkurn kost á því að sýna, hvað fyrir þeim vakti með tillöguflutningi þeirra í fyrra. Og þess vegna höfum við á þskj. 183 valið úr stórum og skrautlegum akri 12 falleg blóm og flutt þau hér sem brtt. á þskj. 183. Ég vona, að flm. kannist við hver sína till., þegar hún verður borin upp undir atkv. á morgun. Og það yrði honum þá til sérstaks ánægjuauka að fá að greiða atkv. með till., þó að hún sé orðin eins árs gömul. Það er alveg óhætt að róa samvizku hlutaðeigandi þm. með því, að þó að tölurnar séu nákvæmlega þær sömu, allar saman, sem þeir stungu upp á í fyrra, þá er byrði ríkisins af þeim orðin mun minni heldur en hún hefði verið í fyrra, vegna þess að verðgildi krónunnar hefur lækkað mjög verulega siðan. (Gripið fram í.) Nei, okkur þótti það nú ekki rétt. Þá mundi kannske því verða borið við, ef sagt væri nei. Nú verður að bera einhverju öðru við en því, ef sagt kynni að verða nei, sem ég auðvitað á ekki von á. Ef hv. stjórnarsinnar samþykkja þessar till. sínar frá því í fyrra, þá náttúrlega ber það vott um, að ekki aðeins mikil alvara hafi fylgt máli í fyrra, heldur og að um mikla trú á mikinn og góðan málstað hafi verið að ræða. Ef svo ólíklega kynni að fara, að þeir felldu nú þessar eigin till. sínar frá því í fyrra, að þeir deyddu þessi fallegu blóm, sem þeir sáðu í stóran akur í fyrra, ja, þá getur það varla verið af öðru en því, að í fyrra — annaðhvort af því, að í fyrra hafi ekki fylgt algerlega hugur máli — (Gripið fram í.) Já, já, það er enginn vandi að rökstyðja það, af þeirri einföldu ástæðu, að ég taldi þá þær fjárveitingar, sem við höfðum lagt til þeirra þarfa, eins og þá var ástatt, vera nægilegar. Ég stend við það fullkomlega. Ég segi það enn og ég segi það hundrað sinnum enn, ef menn óska eftir því. Þær þykja víst nægilegar. En hv. stjórnarandstæðingum fannst þær ekki nægilegar þá. Og það er það, sem er mergurinn málsins. Og nú skal þeim gefinn kostur á því að sýna það, að menn hafi í fyrra haft rétt fyrir sér. Ef þeir greiða ekki atkv. með þeim á morgun, þá höfðu þeir í fyrra rangt fyrir sér.