25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í D-deild Alþingistíðinda. (4814)

908. mál, stofnlán atvinnuveganna

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér. Hann vék sér nú undan því að ræða það, hvort þessar ráðstafanir í þágu atvinnuveganna kynnu að auka á verðbólguna í landinu eða ekki, en hélt þó, að ríkisstj. fengi að þreifa á einhverjum efnum varðandi þau mál svona á næstunni. Ég gat því varla skilið þessi ummæli á annan veg en þann, að ef um einhvern verðbólguvanda yrði að ræða á næstunni, þá væri það þegar farið að sannast, sem Morgunblaðið héldi fram um þessi mál. (LárJ: Meðal annars.) Meðal annars. Já, ég bjóst við því, að það þyrfti ekki að tala lengi við þennan hv. þm. til þess að láta hann viðurkenna það, að hann væri á línu Morgunblaðsins í þessum efnum eins og fleirum.

En sem sagt, það vantar ekki, að þeir sjálfstæðismenn tali býsna hávært um það, að atvinnurekendur geti ekki samið núna í kaupgjaldsmálunum, vegna þess að það standi á ríkisstj., að hún geri ekkert fyrir atvinnuvegina, hún sé ekki tilbúin að segja, hvað hún ætli að gera. En þegar hún tilkynnir mikilvæg úrræði til stuðnings atvinnuvegunum, þá er hún að setja allt um koll með aukinni verðbólgu. Svona er málflutningurinn. Þessir menn vinna sannarlega að því að reyna að koma á sáttum í þjóðfélaginu. Nei, það verða auðvitað ekki miklar umr. um það að þessu sinni, hvaða áhrif slíkar ráðstafanir kunna að hafa í efnahagsmálum landsins, sem hér um ræðir. Við geymum eflaust til seinni tíma að ræða um það.

En þá kem ég aðeins að hinu, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. vék her að. Hann minntist á það, að lækkun vaxta og bætt lánakjör fyrir atvinnuvegina þýddi um leið skert kjör fyrir lánasjóðina. Ætli maður hafi nú ekki heyrt þetta áður. Ætli maður hafi nú ekki heyrt það áður, t.d. þegar verið var að hækka vextina jafngífurlega eins og gert var, að þetta væri til þess að styrkja bankana og þar með gætu bankarnir leyst vandamál fólksins í landinu. Jú, það er svo sem auðvelt að snúa þessum málum þannig. En svona er þessu ekki varið. Sannleikurinn er sá, að stofnlánasjóðirnir, t.d. stofnlánasjóðir atvinnuveganna, komast auðvitað heldur skammt til þess að leysa vandamál atvinnuveganna á vöxtunum einum saman. Þó að hér verði um það að ræða, að stofnlánasjóðir atvinnuveganna fái nokkru minna fé fyrir þann stofnsjóð, sem sjóðirnir eiga, minni vaxtatekjur, þá er það vitanlega tiltölulega lítið atriði borið saman við það meginverkefni, sem sjóðirnir eiga að leysa. (LárJ: Hversu mikið?) Sjóðirnir verða að fá heilmiklar tekjur eftir öðrum leiðum. Það verður að útvega þeim lánsfé, til þess að þeir geti starfað. (LárJ: Hversu mikið atriði er það?) Það er tiltölulega lítið atriði. Mér þykir afskaplega merkilegt að hlusta á það þessa daga, að hér eru þm., sem sí og æ spyrja og spyrja, þeir spyrja um alla hluti. Það er mikið meðan þeir spyrja mann ekki um það, hvar varstu í gær? Hvar verður þú svo á morgun? Og þeir ætlast til þess, að ráðh. standi hér uppi og ræði við þá um alla mögulega hluti svona. (Gripið fram í.) Jú, hann hefur spurt, og ég hef ekki á móti því að svara mönnum, ef þeir vilja ræða um þau mál, sem til umr. eru. (LárJ: Vaxtalækkunin er til umr.) Já, en ég var að benda á það, að t.d. útlán Fiskveiðasjóðs eru ekki nema að sáralitlu leyti byggð á vaxtatekjum sjóðsins, og þá er strax spurt, að hve miklu leyti? Ég ætti líklega að hlaupa hér úr pontunni og ná í heilmikinn talnadálk til þess að sýna það, hvað þetta væri litill hluti. Auðvitað veit hv. þm. þetta mætavel og þarf ekkert um það að spyrja. En hitt get ég sagt þessum hv. þm., að það verða gerðar ráðstafanir til þess að stofnlánasjóðir atvinnuveganna geti fengið fjármagn til þess að sinna því, sem mestu máli skiptir varðandi lánveitingar til atvinnuveganna. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að það fé, sem þarf að útvega, t.d. stofnlánasjóði sjávarútvegsins, verður margfalt meira fé en það, sem sjóðurinn kemur til með að tapa í árlegum tekjum sínum vegna vaxtalækkunarinnar út af fyrir sig. Kaup á mörgum skuttogurum til landsins þýðir það, að það þarf að útvega mörg hundruð millj. kr. að láni. Slík kaup ná ekki fram að ganga, þó að hagur Fiskveiðasjóðs sjálfs hefði verið eilítið betri en hann annars hefði orðið vegna þeirra vaxtatekna, sem hann hefði fengið.

Það er svo mál út af fyrir sig, að flokkur hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur barizt fyrir því hér á Alþ. á undanförnum árum að lækka umsamið framlag samkv. lögum til Fiskveiðasjóðs, og það hefur verið lækkað æ ofan í æ gegn mínu atkv. og með mínum mótmælum hér. Ég er enn á þeirri skoðun, að það þyrfti að hækka framlagið til Fiskveiðasjóðs, því að hann hefur slíku hlutverki að gegna. En þessar umr. hafa út af fyrir sig leitt það í ljós að mínum dómi, hvaða hugur stendur á bak við hjá sumum hv. þm. Sjálfstfl. til þess að bæta lánakjör atvinnuveganna, og það er gott.