20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í D-deild Alþingistíðinda. (4822)

105. mál, friðun Þingvalla

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Hinn 18. apríl 1968 var samþ. þáltill. um náttúruvernd, friðun Þingvalla og þjóðgarða, er leiddi til þess, að skipuð var nefnd 28. júní 1968, er endurskoða skyldi lög nr. 59 1928 um friðun Þingvalla og lög nr. 48 1956 um náttúruvernd og semja frv. til nýrra laga fyrir næsta reglulegt Alþ. Lög um náttúruvernd voru samþ. á Alþ. 3. apríl 1971, en í 38. gr. þeirra laga er tekið fram, að lög nr. 59 frá 1928 um friðun Þingvalla haldi gildi sínu. Er þetta í samræmi við skoðun mþn., er vann að frv.- smíðinni, að aðskilja endurskoðun löggjafarinnar um náttúruvernd og þjóðgarðinn á Þingvöllum. Við umr. um náttúruverndarlögin lét þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, þess getið, að hann væri sammála nefndinni um, að ákvæðið um náttúruvernd og ákvæðið um friðun Þingvalla ættu ekki að vera í einu og sama lagafrv. Ráðh. mælti m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Og ég lít þannig á, að nefndin eigi þennan hluta verksins eftir og beri að senda niðurstöður þess, verksins, þ.e. lagabálks um friðun Þingvalla, til forsrh., sem Þingvellir heyra undir.“ Þess má enn fremur geta, að formaður mþn. og frsm. frv., Birgir Kjaran, komst svo að orði í framsöguræðu sinni: „Varðandi fyrri hluta verksins, sem þessari mþn. var ætlað, sem var löggjöf eða frv. um þjóðgarðinn á Þingvöllum, þá mun verða unnið að því seinni part sumars og vonandi hægt að leggja hér fram frv. á komandi hausti.“

Eftir þessum orðum frsm. hefði mátt búast við lagafrv. um friðun Þingvalla haustið 1970 eða fyrir rúmu ári.

Af þessu stafar fyrri fsp. mín, sem er á þessa leið: Hvað dvelur eða hversu miðar endurskoðun laga nr. 59 1928, um friðun Þingvalla?

Þegar allshn. Sþ. féllst á, að þörf væri endurskoðunar laga um Þingvelli ásamt endurskoðun náttúruverndarlaga, eins og fyrr greinir, lét nefndin þess jafnframt getið orðrétt, „að æskilegt væri, að ekki yrðu leyfðar nýbyggingar sumarbústaða á Þingvallasvæðinu, meðan endurskoðun laga um friðun Þingvalla færi fram.“ Þess vegna er spurt hér:

Hafa nýbyggingar sumarbústaða einstaklinga á Þingvallasvæðinu verið leyfðar eða reistar, frá því að þál. var samþ.?

Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. leysi úr þessum spurningum.