20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í D-deild Alþingistíðinda. (4823)

105. mál, friðun Þingvalla

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fsp. þessa sendi ég Þingvallanefnd til umsagnar, og hefur frá henni borizt svo hljóðandi svar eða hennar starfsmanni, sem ég vil, með leyfi forseta, lesa hér. Það er dags. 3. 12. 1971 og er svo hljóðandi:

„Hr. alþm. Bjarni Guðnason prófessor hefur með fsp. nr. 126 til forsrh. um friðun Þingvalla, 105. mál í Sþ., óskað eftir þessum upplýsingum:

„Með tilvísun til þál., sem samþ. var í Sþ. 18. apríl 1968, er spurt:

1. Hvað dvelur eða hversu miðar endurskoðun laga nr. 59 1928, um friðun Þingvalla?

2. Hafa nýbyggingar sumarbústaða einstaklinga á Þingvallasvæðinu verið leyfðar eða reistar, frá því að þál. var samþ. ?“

Sem svar við þessu skal eftirfarandi tekið fram: Um lið l. Endurskoðun laga nr. 59 1928, um friðun Þingvalla, er í höndum sérstakrar mþn. og e.t.v. einnig í höndum Náttúruverndarráðs, en þar er Birgir Kjaran alþm. formaður. Um störf þessara aðila að endurskoðun laganna getur Þingvallanefnd ekkert sagt, og er hæstv. forsrh. vísað að snúa sér til þeirra varðandi svör við þessum lið.

Um lið 2. a. Engar nýbyggingar sumarbústaða á Þingvallasvæðinu hafa verið leyfðar frá því að þingsályktunin var samþykkt.

b. Þeir einir sumarbústaðir hafa verið reistir á fyrrnefndu tímabili, er Þingvallanefnd hafði áður gefið samþykki sitt fyrir, að reistir yrðu, en vegarspottar að svæðum þessum ekki verið fyrir hendi fyrr en síðar og sumir fyrst nú að komast í lag.“

Þetta var bréf frá Þingvallanefnd. Ég aflaði mér svo upplýsinga um það, hve margir þeir sumarbústaðir væru, sem höfðu verið leyfðir áður, en unnið hafði verið að á þessu tímabili, og þeir eru sagðir vera 10 samtals. Þar af eru sex í Gjábakkalandi og fjórir í Kárastaðalandi, en nánari upplýsingar um þessa bústaði, hverjir eru eigendur o.s.frv., hef ég ekki. Í bréfi Þingvallanefndar er réttilega á það bent, eins og reyndar kom fram hjá fyrirspyrjanda hér áðan, að á sínum tíma var sérstakri mþn. falið að endurskoða lög um Þingvelli ásamt lögum um náttúruvernd. Og eins og fram kom líka hjá honum, vann þessi nefnd það verk að endurskoða eða semja lög um náttúruvernd, og þau lög voru lögð fyrir Alþ. og afgreidd hér á sínum tíma. En hins vegar varð það verkefni að endurskoða lögin um friðun Þingvalla út undan hjá nefndinni um sinn. En ég hef snúið mér til formanns þessarar nefndar, sem er Birgir Kjaran, eins og fram kemur reyndar í bréfi Þingvallanefndar, og spurzt fyrir um það, hvað störfum nefndarinnar varðandi þetta verkefni liði. Hann hefur tjáð mér, að rætt hafi verið um þjóðgarð á Þingvöllum og fleiri atriði í því sambandi í starfi nefndarinnar, en frv. hafi enn ekki verið samið. En hann hyggst, tjáði hann mér, — það var nú fyrir áramót, sem ég hafði samband við hann, — kalla nefndina saman til starfa nú snemma á þessu ári og taka þá til við samningu frv. um friðun Þingvalla.

Þetta eru þær upplýsingar, herra forseti, sem ég get gefið við fsp. hv. fyrirspyrjanda.