20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í D-deild Alþingistíðinda. (4824)

105. mál, friðun Þingvalla

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir greinargóð svör, og þar las ég í málið, að sú mþn., sem átti að fjalla einmitt um endurskoðun laga um friðun Þingvalla, hafi litt unnið að nýrri frv.- smiði. Og það, sem einmitt vakti fyrir mér með því að vekja máls á þessu, var einmitt að ýta á eftir nýjum lögum varðandi þetta efni, ekki sízt, þar sem fram undan er nú 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, þar sem Þingvellir verða miðstöð hátíðahaldanna, og er þá ekki nema skylt og rétt að sýna þessum fornhelga sögustað fullan sóma með því að endurskoða þessi gömlu og úreltu lög.

Ég get ekki staðizt freistinguna að láta í ljós undrun mína á því, hvernig hið háa Alþingi hefur haldið á Þingvallamálinu. Þetta er eitt af þeim málum, sem ég mundi telja, að væri Alþ. sízt til sóma, að láta einstaklinga byggja einkasumarbústaði inni á söguhelgum, friðlýstum stað allrar þjóðarinnar. Það getur ekki farið á milli mála, að það var ætlun Alþingis að gera Þingvelli og næsta nágrenni um aldur og ævi að friðlýstum helgistað allra Íslendinga og það hefur aldrei vakað fyrir Alþ. að gera ráð fyrir því, að einstaklingar gætu komið sér þarna upp sumarbústöðum, girt af landssvæði og þannig fyrirmunað almenningi að ráfa um Þingvallasvæðið eftir vild og njóta þannig helgi staðarins, náttúru og fegurðar. Og það eitt, að Þingvallanefnd skuli hafa úthlutað lóðunum á Þingvallasvæðinu í kyrrþey, án þess að gefa almenningi kost á að sækja um þær, þ.e.a.s. Þingvallanefnd hefur pukrað lóðunum í aðgangsharða, útsjónarsama einstaklinga, er að sjálfsögðu með öllu óverjandi.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál lengur. En frá mínum bæjardyrum séð vænti ég þess, að hin nýju lög feli það í sér, að gert verði ráð fyrir því, að þeir sumarbústaðir, sem hafa verið reistir á Þingvöllum eða í næsta nágrenni, verði fjarlægðir á vissu árabili, og vænti ég, að slíku verði unnt að koma inn í lög.