01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í D-deild Alþingistíðinda. (4833)

913. mál, endurbætur vegna hraðfrystiiðnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég held, að allir hljóti að vera sammála um, að hér er um mjög stórt mál að ræða, sem hér er til umr. Hvenær þessi löggjöf kemur til framkvæmda í Bandaríkjunum um aukið hreinlæti og hollustuhætti, verður að sjálfsögðu ekkert sagt um í dag, eins og hæstv. ráðh. greindi frá. En hitt er augljóst mál, að það líður senn að því, að þetta komi til framkvæmda. Það er líka augljóst mál af þeim upplýsingum, sem þegar liggja fyrir í sambandi við þær athuganir, sem gerðar hafa verið af sérstöku verkfræðifélagi, sem tók þetta að sér, t.d. fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða þau frystihús, sem eru innan hennar vébanda, að þar er um geysilega fjárhagslega stórt mál að ræða, hvort sem á það er litið, sem veit að endurbótum húsanna, venjulegum endurbótum, ellegar það, sem tengt er þeim umbótum og endurbótum, sem gera þarf í sambandi við þessa væntanlegu löggjöf. Á aukafundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem var haldinn nú í síðasta mánuði, voru þessar athuganir, sem fyrir liggja, lagðar fram og ræddar allítarlega af eigendum hraðfrystihúsanna. Kom þar skýrt fram, að það var álit hraðfrystihúsmannanna, að nauðsynlegt væri að geta hafið sem allra fyrst þessar endurbætur, sem væntanlega verður að ráðast í á næstu árum. Eftir því sem málið er umfangsmeira og stærra, þá má það vera öllum ljóst, að nauðsynlegt er að geta dreift framkvæmdunum á lengra tímabil. Og við megum ekki bíða eftir því, að lögin taki gildi. Við verðum að hefjast handa sem fyrst í að koma á þessum nauðsynlegu umbótum, sem okkur öllum hlýtur að vera ljóst, að eru algerlega undirstöðuatriði eða grundvöllur fyrir því, að við getum haldið áfram viðskiptum við þessa viðskiptaþjóð, sem við eigum svo mikið undir í sambandi við þennan þátt sjávarútvegsframleiðslunnar.

Hæstv. ráðh. sagði réttilega, að þessi athugun, sem fram hefur farið, tæki til hvors tveggja, verulegra endurbóta og viðauka við frystihúsin og svo einnig þess, sem gera verður í sambandi við þessa löggjöf um hollustuhættina, þessa væntanlegu löggjöf, sem gert er ráð fyrir, að taki gildi nú á næstu árum í Bandaríkjunum. En það er einmitt með tilliti til þess, að við erum háðir viðskiptunum í dag við Bandaríkin, að við verðum nú sem allra fyrst að hefja þessar framkvæmdir og aðgerðir með endurbótum á hraðfrystihúsunum. Og það er einnig með tilliti til þess, sem okkur hlýtur að vera ljóst í sambandi við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið af forráðamönnum EBE-landanna, að það horfir ekki byrlega fyrir Íslendingum í sambandi við þá samninga, sem þeir eiga fram undan við þessi lönd varðandi viðskiptin á fiskmarkaðinum. Og það getur fyrr heldur en síðar komið til þess, að við verðum í enn ríkari mæli að snúa okkar viðskiptum til Bandaríkjanna en við gerum í dag. Við horfumst í augu við það, að við erum að stórauka okkar skipastól. Tugir togara, væntanlega stórra togara og afkastamikilla fiskiskipa, eru væntanlegir til landsins nú alveg á næstu árum, og með tilkomu þeirra eykst verulega það fiskmagn, sem verður til ráðstöfunar til viðskiptalandanna. Það er ekkert óeðlilegt, að við gerum ráð fyrir því, að sagan geti endurtekið sig, sem átti sér stað, þegar landhelgin var síðast færð út, og sett verði á okkar skip eins konar viðskiptabann í Bretlandi og kannske Vestur-Þýzkalandi líka. En þótt það verði ekki gert, þá getur líka komið annað til, sem hamlar okkar viðskiptum við þessar þjóðir, og það er, að settir verði innflutningstollar svo háir, að við sjáum okkur ekki fært að landa fiskinum, þó að við hefðum frelsi til þess að öðru leyti, og þá leiðir það af því, að við verðum að huga alvarlega að því að byggja upp aðstöðuna við fiskvinnslustöðvarnar, svo að þær séu í því ástandi, að framleiðslan frá þeim verði boðleg í hvaða markaðslöndum sem um er að ræða í heiminum.