01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í D-deild Alþingistíðinda. (4834)

913. mál, endurbætur vegna hraðfrystiiðnaðarins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. við það, sem ég las út úr svari hæstv. sjútvrh. hér áðan. Hann taldi, og ég vona, að ég fari þar rétt með, að þær tölur, sem nefndar hefðu verið á opinberum vettvangi í sambandi við endurbætur frystihúsanna, væru allt of háar, enda væri þar mörgu ólíku og óskyldu saman blandað, svo sem eins og umbúnaði frystihúsanna, þ.e. hinni ytri aðkomu að þeim á hinum ýmsu stöðum. Skipun þeirrar nefndar, sem nú fjallar um þessi mál, um hollustuhætti í fiskiðnaði, er ég dálítið kunnugur, og á það var lögð áherzla við þá nefnd, þegar hún hóf þessi störf, að hún reyndi einmitt að skoða málið í heild og gera sér ljósa heildarmynd þess vanda, sem um var að ræða, til að mæta þeim hugsanlegu kröfum, sem kynnu að koma frá markaðslöndum okkar. Og eftir stutta kynnisferð tveggja eða þriggja nm. til nokkurra þessara markaðslanda var það þeirra álit, sem þeir létu rn. þá í té, að vísu munnlega, að þetta mál yrði að skoða í einni heild, því að það væri alveg ljóst, að það mundi færast í vöxt, að markaðslöndin sendu hingað fulltrúa til að skoða framleiðslustöðvarnar, og jafnframt ljóst, að þau mundu ekki gera frekari skoðun á þeim framleiðslustöðvum, svo sem frystihúsunum, ef ytri búnaður þeirra væri með þeim hætti, sem þeir ekki viðurkenndu. M.ö.o. þó að frystihúsið fullnægi kröfum innan dyra, svo sem bezt yrði á kosið, þá yrði ekki um frekari skoðun á viðkomandi frystihúsi að ræða, ef ytra útlit þess og aðstaða öll til aðflutnings hráefnisins væri ekki með þeim hætti, sem talið væri viðunanlegt.

Ég legg því mikla áherzlu á það, að í hvaða áföngum sem við fáumst við þennan vanda, þá verði málið skoðað í heild, þ.e. ekki einungis frá sjónarmiðum hraðfrystihúseigendanna, sem þó eru mikilvæg og kannske mikilvægust í þessu efni, heldur verði vandi sveitarfélaganna jafnframt skoðaður. Og ég vona, að hæstv. ráðh. sé mér sammála um það, að þó að færa megi niður eitthvað þær tölur, sem nefndar hafa verið, þá verði að vandanum staðið með þessum hætti.