01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í D-deild Alþingistíðinda. (4847)

37. mál, jöfnun á flutningskostnaði

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á Alþ. 5. apríl 1971 var samþ. þáltill. um skipulag vöruflutninga og jöfnun flutningskostnaðar. Ég tel, að hér sé um svo mikilvægt mál að ræða fyrir dreifbýli þessa lands, að ég leyfi mér að leggja fram á þskj. 38 fsp. til hæstv. samgrh. um framkvæmd á þessari þáltill., og er fsp. í tveimur liðum:

1. Hvað líður athugun á vöruflutningum landsmanna?

2. Hvenær má vænta tillagna um leiðir til jöfnunar á flutningskostnaði, svo að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum, eftir því sem við verður komið?

Ég hygg, að það leyni sér ekki, að ójöfnuður á milli landsmanna hefur aukizt að ýmsu leyti upp á siðkastið. Áður fyrr, þegar þarfirnar voru litlar, má vel vera, að menn úti í dreifbýlinu hafi jafnvel staðið betur að vígi. En á síðustu árum og áratugum hafa nauðsynjar í vaxandi mæli verið aðfluttar, og á flestum þeim sviðum hefur skapazt meiri eða minni ójöfnuður. Svo er á sviði menntunar, svo er einnig á sviði félagsmála, heilbrigðismála, og fjölmargt fleira mætti nefna í þessu sambandi. Einn af þessum þáttum er flutningskostnaður á fjölmörgum nauðsynjum, sem hvert einasta heimili og fyrirtæki þarfnast í dag, og þarf ég ekki að lengja mál mitt með því að telja það upp.

Ég tel því fyrir mitt leyti mjög nauðsynlegt að finna leiðir til þess, að landsmenn sitji við sem líkast borð að þessu leyti og verði þetta einhvern veginn jafnað. Þetta er gert á einstökum sviðum, eins og t.d. með olíu, en mér sýnist nauðsynlegt að athuga það einnig á mörgum öðrum. Í þessu sambandi er flutningskostnaður vitanlega mikill liður, og það þarf bæði að kanna flutnings-, kostnað á landi og sjó og þá staðreynd, að skipafélögin flytja yfirleitt til Reykjavíkur eða örfárra hafna, þó að Eimskipafélag Íslands hafi að vísu gengið til móts við landsmenn að því leyti, að þeir bjóða framhaldsflutning án kostnaðar. En það er ekki á nálægt því öllum vörum, enda mikið, sem ekki er þannig pantað eða keypt beint til landsins.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, en endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég tel hér um afar mikilvægt málefni fyrir dreifbýlið að ræða.