01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í D-deild Alþingistíðinda. (4849)

37. mál, jöfnun á flutningskostnaði

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. greinargóð svör hans. Ég geri mér grein fyrir því, að málið er nokkuð viðamikið og að ýmsu leyti flókið, sérstaklega hvað viðvíkur hinum almenna innflutningi til landsins.

Vitanlega er það töluvert annað, þegar um einkaframleiðslu er að ræða annars vegar eða hins vegar framleiðslu, sem ríkið hefur meira eða minna hönd í bagga með. En ég er þó þeirrar skoðunar, að það, sem hið opinbera hefur gert með Skipaútgerð ríkisins og styrkjum til flutninga á vegum hinna ýmsu aðila, fullnægi hvergi nærri þeirri þörf, sem er fyrir leiðréttingu á þessu sviði með tilliti til aðstöðu íbúa landsins. Ég er sannfærður um, að finna verður einhverjar leiðir til þess að brúa það bil einnig á sviði hins frjálsa innflutnings. Um það er ég hins vegar sammála hæstv. ráðh., að það má ekki gerast á þann veg, að ríkisvaldið hafi um of hönd í bagga með þessum innflutningi. Það gæti leitt til alls konar erfiðleika og óhagræðis fyrir innflytjendur og jafnvel dregið úr nauðsynlegri samkeppni, eins og kom fram í svari hans. Hins vegar sýnist mér, að málið megi ekki bíða og sé sjálfsagt að taka það til athugunar. Ég er dálítið efins um það, að Framkvæmdastofnun ríkisins sé rétti aðilinn. Flestöllu virðist nú vísað til hennar, bæði frá hæstv. ráðh. og bönkum og fleirum. Er ekki eðlilegra, vil ég leyfa mér að spyrja, að hæstv. samgrh. kalli sjálfur til sérfræðinga, sem fjalli um þetta mál, m.ö.o. að hann setji á fót nefnd sérfræðinga, sem athugi málið og skili um það áliti? Ég fyrir mitt leyti vil leggja áherzlu á, að afgreiðslu málsins, hvort sem hún verður á þann veg, sem ég hef nú lagt til, eða að Framkvæmdastofnuninni verði falið að annast hana, verði hraðað.