14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

1. mál, fjárlög 1972

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á þskj. 193 flyt ég brtt. við fjárlagafrv., ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. Er hún í því fólgin, að fjárveiting til ferðamála verði aukin úr 5 millj. upp í 10 millj. kr. Hér er ekki um mikla fjárhæð að ræða miðað við þær stórfelldu hækkanir, sem orðið hafa á ýmsum liðum fjárlagafrv. og mönnum hefur orðið tíðrætt um. Er það að vonum, að menn séu nokkuð uggandi, þegar hækkanir verða svo stórstígar á ýmsum greinum fjárlaga, eins og nú eru allar horfur á. Það er auðvitað ákaflega gaman að geta veitt fé til fjölmargra nytsamra mála og málaflokka. Það er líklega eitt af því skemmtilegasta, sem hægt er að hugsa sér. Flestum lærist þó með tímanum, að í því efni er óhjákvæmilegt að ganga hægt um gleðinnar dyr, því að oft tæmist pyngjan fyrr en varir, og ríkiskassinn er ekki alltaf barmafullur. Þess vegna er ekki að undra, þótt mörgum ofbjóði talnaflóðið. Og það er ofur eðlilegt, að þm. vilji og reyni að sýna þá gát og varúð að spyrjast a.m.k. fyrir um, hvort nægilegt fé verði í kassanum til að mæta öllum þeim útgjöldum, sem fyrirhuguð eru. Ber fjármálastjórninni að sjálfsögðu að taka öllum efasemdum í þá átt með fullum skilningi og stillingu. Það er vissulega oft vandi að velja og hafna, þegar um mörg aðkallandi nauðsynjamál er að ræða. Eðlilega ræður oft það sjónarmið, hvort nokkuð fáist í aðra hönd fyrir ákveðna fjárveitingu. Sjálfsagt þykir því að styðja að vexti og viðgangi atvinnuvega þjóðarinnar með því að láta fé renna til þeirra í ýmsum myndum svo sem tök eru á.

Ein er sú atvinnugrein, sem þróazt hefur ört hér á landi hin síðari ár, en það er þjónusta við erlenda ferðamenn. Á árinu 1970 er talið, að tekjur af erlendum ferðamönnum hafi numið um 1 milljarði kr. Á því ári mun allur útflutningurinn hafa numið um 12.9 milljörðum. Af þessu sést, að hér er um mjög mikilvæga atvinnugrein að ræða, sem engan veginn er hægt að loka augum fyrir. Flestir telja og, að hún eigi mjög mikla framtíð fyrir sér, ef rétt er á haldið. Þarf ekki annað en líta til ýmissa annarra landa, þar sem tekjur af hvers konar ferðamannaþjónustu eru snar þáttur í tekjuöflun ríkis og einstaklinga. Það er nú ekki lengur hægt að efast um, að Ísland hefur mikil og góð skilyrði sem ferðamannaland og glæsta framtíð í þeim efnum, ef landsmenn aðeins vilja. Þó að mjög margt hafi breytzt til batnaðar á undanförnum árum til að unnt sé að veita ferðamönnum góðar móttökur, er þó æðimargt ógert. Það er sérstaklega víða úti um land, sem skórinn kreppir að í þessum efnum. Eitt af því, sem nauðsynlegt er að gera, er að efla Ferðamálasjóð, svo að hann geti að einhverju leyti staðið við bakið á þeim, sem að þessum málum vinna.

Í fjárlagafrv. er nú gerð till. um 5 millj. kr. í þessu skyni. Mér er kunnugt um, að forsvarsmenn ferðamála telja fjárhæð þessa allt of lága miðað við fjárþörf, en ég hygg, að tvöföldun hennar, eins og till. okkar gerir ráð fyrir, mundi verða til mikilla bóta. Að sjálfsögðu er mér fullljóst, að till. leysir engan veginn allan vanda á sviði ferðamála. Þar þarf fleira að athuga. En ég tel hana skipta verulegu máli, svo miklu máli, að þetta er eina brtt., sem hreyft er af minni hálfu við þessa umr. fjárlaga. Væri þó ærin ástæða til að minnast á fleiri málaflokka, bæði lands- og héraðsmál, og hreyfa auknum fjárveitingum til þeirra. En það verður látið bíða um sinn, eins og málum er háttað við þessa umr. Ég vona, að hv. alþm. hugleiði till. þessa vandlega. Þá munu þeir komast að raun um, að hér er um unga og upprennandi atvinnugrein að ræða, sem líkleg er til að renna styrkum stoðum undir tekjuöflun þjóðarbúsins í framtíðinni, ef að henni er hlynnt svo sem vera ber. Vænti ég þess, að till. finni náð fyrir augum hv. alþm. og verði samþykkt.