01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í D-deild Alþingistíðinda. (4850)

37. mál, jöfnun á flutningskostnaði

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs vegna þess, að mér fannst ekki koma hér fram eitt sjónarmið, sem margir sérfræðingar hafa bent á í sambandi við jöfnun flutningskostnaðar og ætti rétt á sér, að kæmi hér fram. Og það er, að ýmsir sérfræðingar í byggðamálum hafa litið svo á, að jöfnun flutningskostnaðar hafi líka í för með sér vandamál fyrir strjálbýlið á þann veg, að ef jafnaður sé á öllum sviðum flutningskostnaður, dragi það úr atvinnuuppbyggingu í strjálbýlinu einmitt í þeim atvinnugreinum, sem mest vaxa, þ.e. í þjónustugreinunum. Það kom hér fram í máli hæstv. ráðh., að innflutningsverzlunin hefur dregizt mjög til Reykjavíkur, og það er að minni hyggju líka vegna þess, að við höfum greitt mjög niður flutningskostnað út á land, þannig að innflutningsverzlun hér í Reykjavík getur keppt algerlega við innflutningsverzlun, hvar sem hún er staðsett í landinu, a.m.k. í sumum vörutegundum. Með þessu er ég ekki að mæla gegn jöfnun á flutningskostnaði, heldur aðeins að benda á, að á þessu máli eru tvær hliðar, ef ekki miklu fleiri. Og þess vegna styð ég mjög þá skoðun hæstv. ráðh., að mál þetta þurfi að skoðast rækilega.