01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í D-deild Alþingistíðinda. (4862)

148. mál, sala á kartöflum

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég veit nú, að hæstv. landbrh. fyrirgefur mér, þó að ég segi, að ég sé ekki ánægður með þessi svör. Ég viðurkenni það, að hér er um dálítið erfitt mál að ræða og það er ekki auðvelt að finna markað fyrir íslenzkar kartöflur erlendis, sízt þegar góðæri hefur verið í Vestur- Evrópu, eins og það var á s.l. sumri. Mér þykir það hins vegar leitt, að þeim skuli ekki bera saman, hæstv. ráðh og forstjóra Grænmetisverzlunarinnar. Ég, talaði við hann í morgun, og þá taldi hann, að um væri að ræða 20–25 þús. tunnur, sem ekki mundu seljast af framleiðslunni frá fyrra ári. Hæstv. ráðh. talar um 10–20 þús. tunnur. Það ber ekki mikið á milli, en jafnvel þó að það væru ekki nema 15 þús. tunnur, þá er hér um mikið fjármagn að ræða. Og þess ber að geta, að það er í mesta lagi 10. eða jafnvel ekki nema 15. hvert ár, sem offramleiðsla á kartöflum á sér stað í þessu landi. Það er oftast, að uppskeran er fyrir neðan meðallag, og flest árin verður að flytja inn mikið af kartöflum. Það var árið 1962, sem flutt var út talsvert af kartöflum, og þá voru útflutningsbætur greiddar á kartöflur eins og á aðrar búsafurðir. Nú er það svo, að áætlað er, að framleiðsluverðmæti landbúnaðarins á verðlagsárinu 1971 og 1972 nemi 4500 millj. kr. Af því leiðir lögum samkv., að skylt er að greiða í útflutningsbætur, ef með þarf, 450 millj. kr.

Nú eru í fjárlögum áætlaðar til útflutningsuppbóta 323 millj. kr. Ég hef aldrei haldið því fram, að það væri meira en 100 millj., sem þar væri vanreiknað. Af því leiðir, að það mun verða talsverður afgangur af útflutningsuppbótum, ef þær fara ekki yfir 420–430 millj. kr., og væri nægjanlegt sennilega til þess að taka sárasta broddinn af því tjóni, sem af því kynni að leiða, ef það þyrfti að fleygja kartöflunum. Ég vil vekja athygli á því, að ef þessar kartöflur væru fluttar út, þótt það væri fyrir lágt verð, þá eiga bændur kröfu á útflutningsuppbótum. Það er það, sem ég vil biðja hæstv. ráðh. um að skrifa hjá sér. Ef kartöflurnar væru fluttar út, þótt það væri fyrir lágt verð, þá eiga bændur lögum samkv. rétt á útflutningsuppbótum. Og þess vegna er það, að svar hæstv. ráðh. er ekki fullnægjandi. Ég get sætt mig við það að fá ekki fullnægjandi svar hjá hæstv. ráðh. í dag, ef hann vill lýsa því yfir, að hann sé reiðubúinn að ræða við mig nánar um þessi mál utan þingfundar, ef vera mætti, að við sameiginlega gætum fundið einhverja leið út úr þessu. Fyrir mitt leyti dettur mér ekki í hug að halda því fram, að hæstv. ráðh. sé ekki allur af vilja gerður í þessu máli. Ég efast ekkert um það. En ég vil benda honum á rétt bænda, þegar um framleiðslu er að ræða, og að hér er ekki um offramleiðslu að ræða á kartöflum nema svo örsjaldan.

Það er eðlilegt, að menn spyrji: Eiga Íslendingar að vera að rækta kartöflur? Ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um, hvernig á að svara því. Það eigum við að gera, vegna þess að það ber að stefna að því á öllum sviðum að verða sem mest sjálfum sér nógur. Og ef við erum sammála um það, að við eigum að rækta kartöflur, þá er eðlilegt, að þegar bændurnir hafa búið við það að ná ekki meðaluppskeru í 10 ár, verði komið til móts við þá, þegar offramleiðsla verður 11. árið.

Það hefur verið sagt, að nota mætti kartöflurnar í fóður, þess vegna þyrfti ekki að fleygja þeim. Ég vil vekja athygli á því, að innflutt fóðurmjöl kostar um 11 kr. kg, og það er ein fóðureining í fóðurmjöli. En kartöflurnar kosta 15 kr., og það þarf 6 kg í hverja fóðureiningu. Fóðureiningin í kartöflum kostar 90 kr.

Það er þess vegna dýrt að fóðra á kartöflum, og það veit ég, að hæstv. landbrh. hefur gert sér fyllilega ljóst. Norðmenn hafa það þannig, þar sem kartöfluuppskeran er árviss og oft er framleitt meira en til neyzlu, að þeir greiða ákveðinn krónufjölda á hvert kg af kartöflum, sem notað er til fóðurs. Og með tilliti til þess, að bændur eiga rétt á útflutningsuppbótum á kartöflur eins og aðra framleiðslu, ef þær væru fluttar út, þá er það ljóst, að það er ekki hægt að afgreiða þetta mál aðeins með því að benda á erfiðleikana, sem því eru samfara, heldur verður að leysa það þannig, að komið sé til móts við framleiðendur, ekki kannske að fullu, en að einhverju leyti. Ég heyrði það áðan á svari hæstv. ráðh., að hann var ekki tilbúinn að gefa viðhlítandi svar við þessu. Ég er tilbúinn að una því, ef hann vill segja það, að þetta mál verði athugað betur, annaðhvort með því að ræða það sérstaklega við forustumenn bændanna eða þá einnig með því að hann lofi mér að fylgjast með málinu.