01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í D-deild Alþingistíðinda. (4864)

148. mál, sala á kartöflum

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú lýsa ánægju minni yfir því, að málið verður áfram athugað, að við þurfum ekki að sætta okkur við það, sem kom fram í fyrri ræðu hæstv. ráðh. Málið verður athugað nánar.

Það er rétt, að það er þannig orðað í lögunum, að heimilt sé að greiða 10% útflutningsuppbætur af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, en í framkvæmd hefur þetta alltaf verið þannig, að útflutningsuppbæturnar hafa verið notaðar að fullu. Og ég geri ráð fyrir því, að það verði að mestu leyti þannig nú, og ég vil einnig vekja athygli á því, að það var á tímabili þannig, að fyrir mjólkurduftið, sem flutt var út, fékkst aðeins um 20% af heildarverðinu. En það datt engum í hug að fleygja duftinu eða segja bændum að nota það til fóðurs, vegna þess hversu mikið þurfti að gefa með því. Og það er eins með kartöflurnar. Það kom vitanlega til álita að selja þær á þessu lága verði. Ég ætla ekki að gera neina árás á hæstv. landbrh., þótt það hafi ekki verið gert, en ég ætlast til þess, að hann sé þess minnugur, að ef kartöflurnar hefðu verið fluttar út, þótt á lágu verði hefði verið, þá áttu bændur siðferðilega kröfu samkv. lögum til þess að fá útflutningsuppbætur á kartöflur eins og á mjólkurduft og aðrar vörur. Og með tilliti til þessa held ég, að niðurstaðan verði nú þannig í landb.- og fjmrn., að komið verði til móts við bændur í þessu máli.