14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

1. mál, fjárlög 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara hér út í neinar kappræður í sambandi við þessar umr., því að enda þótt kannske væri ástæða til þess, þá gefast nú tækifæri síðar til þess að gera það, því að bæði á nú eftir að ræða hér fjárlagafrv. við 3. umr., og þá mun það nú verða komið, sem mun vanta nú, sem er tekjuáætlunin, og svo sú niðurstaða, sem verður við afgreiðslu fjárlagafrv., og svo hitt, að fram undan er að ræða hér frv. um tekju- og eignarskatt og tekjustofna sveitarfélaganna, svo að þá munu þessi mál líka geta komið hér inn í þessar umr. eða hliðstæðar umr., sem þá verður sennilega fram haldið í sambandi við það.

Í ræðu minni hér í kvöld féll niður hjá mér að svara nokkrum fsp., sem hv. frsm. 1. minni hl., hv. 2. þm. Vesturl., bar fram og ég tel mér skylt að svara. Þessar fsp. voru, í fyrsta lagi: Telur ríkisstj., að starfsmenn ríkis og bæja eigi rétt á kauphækkun samkv. kjarasamningum? Því er til að svara um þetta mál, að með það verður farið að lögum. Ríkisstj. er ekki dómari í þessu máli, hefur ekki verið og verður ekki, og það mun að sjálfsögðu verða farið með það svo sem lög mæla fyrir um. Ég gef hins vegar enga yfirlýsingu um það hér á hv. Alþ., hvað mér sýnist þar um, því að um það fjalla þeir, sem eiga að dæma, en mitt mat er auðvitað ekki það, sem þar gildir.

Í sambandi við skattvísitöluna vil ég svara því til. að í frv. því um tekju- og eignarskatt, sem hér liggur nú fyrir, er sett ákveðin tala sem persónufrádráttur. Sá persónufrádráttur verður auðvitað talan 100 nú eins og á s.l. ári. Í sambandi við skattalagabreytingu, sem þá var gerð, var sú tala þá gerð að tölunni 100 og breytingin, sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, miðaðist við þá breytingu, sem orðið hefði síðar. Þannig verður og með þetta mál farið, að þær breytingar á verðlagi, sem síðar verða, koma til framkvæmda í sambandi við þessa tölu sem 100.

Í þriðja lagi, ekki hefur verið tekin ákvörðun um það í ríkisstj., hvort framlag til Fiskveiðasjóðs verður hækkað.

Í fjórða lagi var spurt um, hvort veitt verði sérstök fjárveiting til línufisks. Það hefur verið til nokkurrar umr., en ákvörðun hefur heldur ekki verið um það tekin. Sama er að segja um aflatryggingasjóð. Það hefur ekki verið nein ákvörðun þar um tekin, og það, sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði þar um, mun ég að sjálfsögðu kynna mér og athuga betur fyrir 3. umr. málsins. Með þessu tel ég mig hafa svarað fsp. þessa hv. þm. og bið afsökunar á því, að þær féllu niður hjá mér í ræðu minni í kvöld.

Í sambandi við þá till., sem hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal. flytur um að andvirði söluskatts af bókum renni til rithöfunda, þá vil ég segja það, að það hefur verið komið með það erindi til mín af þeirra samtökum, og ég hef sagt þeim, eins og rétt er, að söluskattsmálin verða til endurskoðunar í tekjustofnanefndinni, og erindi þeirra verður þar til meðferðar. Ég hef hins vegar gefið þeim sem öðrum þær skýringar, að eins og málin stæðu nú væri ég mótsnúinn því að taka einstaka þætti söluskattsmálanna fyrir, heldur yrði að gera það í heild, og svo er með þetta sem önnur.

Út af umr. almennt vil ég svo segja það, að það er nú svo, að þó að við þykjum nú ekki, ríkisstj., gæta hófs í að veita fé til hinna mestu nauðsynjamála, þá er þó langt frá því, að hv. þm. þyki svo að gert sem skyldi. T.d. skal ég segja það út af ræðu hv. 4. þm. Vesturl. um ferðamálasjóðinn, að ég tek alveg undir það með honum, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða. En það var mat ríkisstj., að svo mikið átak yrði að gera, m.a. í flugvallamálum, þar sem fjárveiting var hækkuð úr 31 millj. í 75 millj., í hafnamálunum, eins og hefur komið fram, og vegamálin eigum við eftir, eins og komið hefur fram í þessum umr., að í þessari lotu treysti hún sér ekki lengra, þó að málið væri jafngott og nauðsynlegt eins og hv. 4. þm. Vesturl. lýsti réttilega.

Út af till. þeirri, sem hv. þm. Pétur Pétursson talaði hér fyrir, hv. 2. landsk. þm., um Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, þá er því til að svara, að þegar það mál lá fyrir við fjárlagaundirhúninginn, þá var í raun og veru ekki gerð sú grein fyrir málinu, sem nauðsyn bar til til þess að átta sig raunverulega á því. Og það var skilningur okkar, sem fjölluðum um það mál þá, að hér væri um að ræða þrjá aðila, sem ættu að greiða til miðstöðvarinnar, og heildarfjárveitingin væri 6 millj. kr. Út frá því varð sú afgreiðsla, sem þar var gerð.

Tveir fyrrv. ráðh. hafa talað í þessum umr. hér í kvöld, og ég verð að segja það eins og er, að nokkuð mikill munur fannst mér nú á ræðum þeirra. Hv. 1. þm. Sunnl. var með föðurlega umhyggju og góðar óskir til handa bæði ríkisstj. og Alþ. og bað menn að fara með gætni, og er ekkert nema gott um slíkt að segja. Það er hins vegar mitt mat, að við séum nú ekki eins miklir glannar og hann álítur, en það var ekki hægt að finna annað út úr hans ræðu heldur en vilja fyrir góðri umhyggju þar um.

Ég ætla mér nú ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði hér í kvöld um ýmsar ráðstafanir, sem stjórnvöld hafa gert til þessa. T.d. er oft ýmislegt ógert við 2. umr. fjárlaga eða nýgerðum fjárlögum breytt, t.d. með aukafjárlögum í janúar, febrúar og mars. Þetta er til úr þingsögunni, og þarf ekki sterkt minni til þess að muna það, en við getum rætt um það allt seinna.

Hv. 7. þm. Reykv. var nú ekki, að mér fannst, eins föðurlegur. Og það, sem mér fannst hann leggja svo mikið upp úr, bæði í dag og eins í ræðu sinni áðan, var að reyna að koma því áleiðis, að samstarfið í ríkisstj. hlyti að vera slæmt og ríkisstj.-mönnum hlyti að ganga illa samstarf við embættismenn og samstarfsmenn, sem þeir þyrftu að eiga skipti við. Nú má hv. 7. þm. Reykv., ef hann vill, láta sér detta í hug, að samstarf í ríkisstj. sé slæmt. Það er hins vegar ekki okkar reynsla, sem þar erum, en það er önnur saga og þarf ekkert að ræða það hér. Hins vegar vil ég ekki láta hjá líða að lýsa því yfir, að samstarf við þá embættismenn, sem ég hef orðið að starfa með, hefur verið gott, og þeir hafa komið í alla staði mjög vel fram við mig og reynzt mér vel, og ég vil ekki hlýða á það hér á hv. Alþ., að þannig sé talað og þegja við því, eins og ég telji, að þeir séu ekki góðir samstarfsmenn. Ég gat um það hér í kvöld, að ég hefði orðið að krefjast meira starfs af t.d. skattalaganefndinni en skynsamlegt væri og réttmætt og keyra þá miklu harðara í þeim málum heldur en ég átti að gera. Þeir hafa unnið störf sín með mikilli prýði, en ég vonast til. að við framhaldsathugun á þeim málum verði hægt að taka vinnutímann með meiri rólegheitum. Eg held líka í sambandi við uppsetningu hv. 7. þm. Reykv. á auknum útgjöldum, þá hafi mér virzt sem öðrum, að þar gætti nokkurs misskilnings, því að þegar talað er um tilfærslu eða útgjaldaaukningu ríkissjóðs í sambandi við tryggingarnar, þá er engin útgjaldaaukning hjá ríkissjóði til hækkunar á útgjöldum fjárlagafrv. nema að því leyti, sem er í sambandi við það nýja frv., sem var lagt fram hér í gær, og þá hækkun, sem leiðir af nýgerðum kjarasamningum samkv. eldri lögum, því að útgjaldahlið fjárlaga er þetta. Það, sem hins vegar er um að ræða, er, að fjármagnsöfluninni er breytt og frá mínum bæjardyrum séð eru það ekki nýir skattar á skattþegnana, þó að tilfærsla verði á milli ríkis og sveitarfélaga þar um. Þar er aðeins um að ræða breytta verkaskiptingu og tilfærslu á sköttum, en ekki nýja skatta vegna þeirra verkefna, sem fyrir eru.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði það, að hann væri með nokkrar smáar till. til útgjaldaaukningar, og allt voru það góð mál eins og öll þessi. En ef allir hv. stjórnarandstæðingar hér á hv. Alþ. flyttu nú svona smáar till., eins og þessi hv. 7. þm. Reykv., þá þýddi það nú um b milljarða útgjöld. Og þá væri ég nú fljótlega sleginn út, svoleiðis að þessar smátölur gætu nú hjá þessum hv. þm. með reynsluna og þekkinguna og allt það, líka orðið að stórum tölum, þegar búið væri að raða þeim svona saman. Þannig er það svo með fleiri, eins og okkar tölur.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði hér fyrir till. um hækkun launa til skálda og rithöfunda. Ég held, að ég væri fús til að fylgja henni, ef ég mætti úthluta honum einhverju af þeim launum, því að svo mikið met ég þær vísur, sem ég kann eftir hann.