14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

1. mál, fjárlög 1972

Frsm. 1. minni hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin við spurningum mínum frá því fyrr í kvöld, þó að þau kæmu seint, en því miður finnst mér, að það hafi lítið verið á þeim að græða, þessum svörum, sem hér komu fram áðan. Sem sagt, ríkisstj. hefur ekki gert sér neina grein fyrir því enn þá, hvort opinberir starfsmenn eiga rétt á þeirri kauphækkunarkröfu, sem þeir hafa farið fram á, og þarna er vítanlega um mjög stórt mál að ræða, ef það telst rétt vera, að þeir eigi rétt á 14% grunnkaupshækkun. Og það er náttúrlega ekki gott, að það skuli ekki liggja fyrir einhverjar niðurstöður um þetta nú, þegar kemur að því að afgreiða fjárlagafrv., því að vitanlega skiptir það miklu máli, þar sem þetta er svona stór liður eins og þarna hlýtur að vera um að ræða, hvort þeir fái að taka það með eða ekki. Hæstv. fjmrh. sagði, að í fyrra hefði verið 270 millj. kr. tekjuafgangur. Mér skildist nú fyrst á honum, að það hefði verið skýrt frá því, sem reyndar var rétt, að þeirri upphæð var m.a. ætlað að mæta því, sem vitað var, að mundi koma til viðbótar hjá opinberum starfsmönnum. En seinna sagði hann, að 430 millj. kr. hefðu komið alveg til viðbótar, sem ekkert hefði verið reiknað með. En þetta er alls ekki rétt. Það var skýrt frá því greinilega í sambandi við afgreiðslu fjárlaga í fyrra, að þessar 270 millj„ sem voru þá, — það var óvenjuhár tekjuafgangur, við þekkjum það frá afgreiðslu fjárlaga á undanförnum árum, — þeim væri fyrst og fremst ætlað að mæta þessum væntanlegu gjöldum. Og ef við segjum, að þetta hafi verið 430 millj., sem þarna var um að ræða, og 270 kæmu þá upp í það, þá er þetta um 160 millj. kr., sem þá var komið fram úr fjárlagafrv. og ófyrirséð. En ég gat um það í minni framsöguræðu, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hef réttastar og nýjastar núna, þá er gert ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs fram úr því, sem fjárlög gera ráð fyrir, muni nema um 1 200–1 300 millj. kr. Og þá sjáum við, hver staða ríkissjóðs er á árinu til þess að mæta ýmsum öðrum ófyrirséðum útgjöldum, að það hefur sannarlega ekki verið farið óvarlega þar í að áætla tekjurnar eða gjöldin. Og þegar ríkisstj. tók við í byrjun júlímánaðar þá stóðu reikningar þannig með umframgjöld og umframtekjur, að tekjurnar voru þá orðnar rúmlega 700 millj. kr. umfram það, sem áætlað var, en gjöldin voru þá ekki orðin nema um það bil 600 millj., eftir því sem ég hef fengið upplýst, þannig að það var ekkert komið úr jafnvægi í sambandi við ríkiskassann, þegar hæstv. fjmrh. tók við kassanum. En það kom skýrt í ljós í hans ræðu, að hann vildi nú breyta fleiru í þessum efnum hjá okkur heldur en tíðkazt hefur að undanförnu. Hann vildi sem sagt breyta árinu, og mér skildist það helzt á honum, að hann treysti sér ekki til að vera fjmrh. í þessu landi nema hann hefði 13 mánuði og þá kæmi sennilega á eftir nóv. og des. svo nefndur söluskattsmánuður, svo oft talaði hann um það, að það hefði nú verið einhver munur fyrir fyrrv. fjmrh., því að hann hefði fengið aukamánuð, sem sagt, fengið söluskattinn, sem hefði þá samsvarað því, að það hefðu verið 13 mánuðir í árinu. Kannske kemur till. um það við 3. umr. fjárlaga, að mánuðirnir í árinu verði hjá okkur framvegis 13, til þess að hann geti þá verið fjmrh. áfram og fengið jafnvægi í kassann.

Þegar þeir ræða um þessa geysimiklu hækkun, sem átt hefur sér stað í sambandi við fjárlagagerðina, þá segja þeir: Vissu ekki hv. þm., hvað Alþ. samþykkti í fyrra og að undanförnu, og var þá ekki eðlilegt, að það kæmi hækkun í sambandi við þessar samþykktir Alþ.? Hvenær hafa þessir hv. alþm. á undanförnum árum gert sér nokkurn tíma grein fyrir því, að fjárlög hafi þurft að hækka í sambandi við það, sem Alþ. samþykkti árið áður? Þrátt fyrir alla gagnrýni, sem hefur komið frá þessum mönnum í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, þá hefur það yfirleitt verið svo, að þeir hafa ekki verið á móti einu einasta máli, sem hefur hnigið í þá átt að auka útgjöld hjá ríkissjóði. Nei, þvert á móti hafa þeir við lok afgreiðslunnar, þegar komið hefur verið á yztu nöf með að tekjur og gjöld mættust, komið jafnan með till. til víðbótar, sem skiptu hundruðum millj. Og ef það hefði þá verið samþ. á því Alþ., hvað haldið þið, að hefði þá skeð í fjárlögum á næsta ári? Nei, þá hefðu þeir ekki farið að tala um það, að fjárlög hefðu hækkað, vegna þess að það hefði verið samþ. svo mikið á Alþ. á undan. En þeir vakna bara upp við þennan draum í dag, sem þeir hafa aldrei gert sér grein fyrir áður. En vitanlega er þetta rétt, að við verðum alltaf að taka afleiðingunum af því á morgun, sem við gerum í dag, og svo mun það einnig verða framvegis.

Þeir segja reyndar núna, og það á að vera eitt til þess að afsaka, hvað þetta sé nú geysilega hátt, að nú séu þeir að gera raunveruleg fjárlög, sem muni standast, það muni ekki koma til þess, að það verði neinar umframgreiðslur, það sé gert ráð fyrir öllu og það verði ekkert ófyrirséð, skildist mér. Það er gott, ef þeir finna, sem hér lifa að ári og fjalla um þessi fjárlög, að það sé svo óskeikult, sem þessi ríkisstj. hefur lagt til hér í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, að það skeiki ekki neinu. Það má alveg sérstakt vera, eins og þetta virðist vera mikill hundaháttur á afgreiðslunni. Það er ekki hægt að segja annað, þó að það sé stórt orð, í sambandi við þetta flýtur allt svoleiðis í lausu lofti, að það er ekki hægt að gera sér grein fyrir, hvernig við stöndum. Og það má gera ráð fyrir því núna, að það sé aðeins vika þangað til við endanlega göngum frá fjárlögum. Og ég trúi því ekki, þegar við erum komnir svo nærri endalokunum í þeim efnum, að ríkisstj. og fjmrh. a.m.k. hafi ekki gert sér grein fyrir stærstu þáttunum, sem á eftir að afgreiða í sambandi við fjárlögin. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hann t.d., í fyrsta lagi, hvað eru háar upphæðir, sem vænta má að taka þurfi inn á fjárlög vegna almannatrygginga til viðbótar því, sem nú er í fjárlagafrv., og hvernig sundurliðast upphæðin?

Í öðru lagi spyr ég: Hvað er gert ráð fyrir, að sá hluti sjúkrasamlagsgjalda, sem nú er ætlað, að ríkissjóður yfirtaki frá sveitarfélögunum, muni nema hárri upphæð? Ég veit, að þetta hvort tveggja hlýtur hæstv. fjmrh. að geta upplýst svona nokkurn veginn. Það er ekki að búast við því, að það geti verið upp á kannske millj. kr. eða eitthvað svoleiðis, en í milljónatugum ætti þetta að geta legið fyrir nokkurn veginn.

Og í þriðja lagi vil ég spyrja: Hvað er gert ráð fyrir, að sú löggæzla kosti, sem nú er ætlað, að ríkissjóður yfirtaki frá sveitarfélögunum? Hér er um kostnaðarlið að ræða, sem ég tel fullvíst, að hafi verið mjög auðvelt að afla upplýsinga um og ríkisstj. eða fjmrh. hafi við hendina til þess að gefa upplýsingar um. En þessir punktar, sem ég hef hér minnzt á sérstaklega, ætla ég, að muni geta gefið okkur gleggri hugmynd um endanlega mynd fjárlaga svona í stórum dráttum til þess að við getum þá gert okkur grein fyrir því, hvernig við viljum marka afstöðu okkar við 3. umr. málsins. Og það er ákaflega hæpið að sleppa svo frá þessari umr. hér, að það liggi ekki einhverjar áætlanir fyrir í þessum efnum.

Eitt af því, sem hæstv. fjmrh. byrjaði á í ræðu sinni hér fyrr í kvöld, þegar hann var að afsaka, að þetta væri nú ákaflega svipað og oft áður var, að við hefðum frestað einstökum málaflokkum til 3. umr. Það er alveg rétt hjá honum, að við höfum oft gert það. En það hefur aldrei skipt slíkum sköpum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, eins og það gerir núna. Hér er engu saman að jafna. Hann tók árið 1960. Jú, hvernig var það? Hann minnist á, að 18. gr., heiðurslaunin, þau voru eftir þá. Og þá var það svo í fjárlagafrv., sem lagt var fyrir Alþ., að sú upphæð, sem var ætluð í þessu skyni, nam 5 millj. 518 þús. kr. En í fjárlögunum sjálfum, sem afgreidd voru við 3. umr., hækkaði þessi upphæð um 360 þús. kr. — og halda menn svo, að þetta, þó að svona upphæð sé geymd til 3. umr., það sé eitthvað sambærilegt við það, sem er að gerast á Alþ. í dag í þessum efnum? Sama átti sér stað á árunum 1961 og 1962. Þá er þessi upphæð annað árið 342 þús. kr. og hitt árið 634 þús. kr. Hér er aðeins um smámuni að ræða, og ég er alveg undrandi á því, að jafnreyndur stjórnmálamaður eins og hæstv. fjmrh. er, skuli ætla að jafna slíkri afgreiðslu saman við það, sem hér á sér stað í dag. Nei, það má segja, að það sé eðlilegt, þar sem um svo mikla gerbyltingu er að ræða í þessum efnum í sambandi við tekjustofna fjárlagafrv., að þurft hafi nokkurn tíma til þess að átta sig á hlutunum, og á það skal ég ekki deila. En hitt er annað mál, að ég tel, að það sé mjög hæpið fyrir alþm. að afgreiða fjárlögin, án þess að heildarmyndin af fjárlagafrv. liggi skýrar fyrir en nokkur tök eru á, að hún liggi fyrir í dag, og þó er aðeins ein vika til jóla.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta að sinni. En ég vænti þess, að hæstv. fjmrh., ef hann sér sér fært, gefi upplýsingar um þessar þrjár fsp., sem ég bar fram varðandi tekjuhlið frv. En um skattvísitöluna vildi ég aðeins segja þetta. Ég gat um það í minni framsöguræðu, að bæði hann og fleiri þm. hefðu verið með harða gagnrýni á fyrrv. fjmrh. á undanförnum árum, hvað hefði verið legið mikið niðri á því og ekki afgreidd skattvísitala á eðlilegum grundvelli. Á síðasta ári átti sér stað veruleg leiðrétting í þessum efnum, því að þá var skattvísitalan leiðrétt um 29 stig. Og það þótti núv. fjmrh. allt of lítið þá. Sömuleiðis formanni þingflokks Framsfl., sem tók þá mikinn þátt í umr. um þetta mál hér á Alþ. Honum fannst lítið til þess koma og allt of lítil leiðrétting, sem fælist í því, sem þá átti sér stað, en það var um 29 stig, sem þá var leiðréttur þessi liður. Skattvísitalan hefur vitanlega geysilega mikið að segja fyrir alla gjaldendur og ekki sízt þá, sem eru lægst launaðir í landinu. En nú hefur ríkisstj. aðeins lagt til að hækka þetta um 6.5 stig, aðeins um 6.5 stig, og það er nákvæmlega það, sem liggur fyrir, að kostnaðurinn hafi aukizt á árinu og ekkert fram yfir það. Þess vegna hafa þeir ekki komið neitt til móts við það, sem þeir sökuðu fyrrv. fjmrh. mest um í þessum efnum.